LJÓSMÆÐUR OG ÁRNI MATT.

GREIN SEM BIRTIST EFTIR MIG Í MOGGANUM Í DAG.

Hún Ásdís amma konunnar minnar var ljósmóðir í sinni sveit. Ekki veit ég hvað hún hafði í kaup fyrir vinnu sína. Sjálfsagt ekki mikið en þó sjálfsagt meir en margur á þeim tíma. Ef mið er tekið af eftirmælum þeirra hjóna þá er Ásdísar alltaf minnst sem mikils skörungs. Maður hennar Magnús var bóndi. Það endurspeglar verðmætamatið til sveita hér áður fyrr. Hvað er svo sérstakt við að raka hey eða slátra rollum, það getur í sjálfu sér hver sem er lært og gert. Að vera ljósmóðir er svolítið annað. Það er á fárra færi. Verkefnið er einstakt. Við fæðumst bara einu sinni, reyndar endurfæðast sumir í trúarlegum skilningi en við skulum láta það liggja milli hluta. Hver fæðing er einstök hverri móður því hún fæðir hvert barn bara einu sinni. Því erum við að ræða um starfsgrein sem sinnir algjörlega einstökum verkefnum hvernig svo sem við veltum hlutunum fyrir okkur.

Nú er þessi stétt í kjarabaráttu árið 2008. Hún Ásdís heitin hefði örugglega orðið hissa. Í sinni sveit var hún mikils metin og margir leituðu til hennar með ýmis vandamál. Eftir að hafa tekið á móti börnum heima hjá fólki bjó hún hjá þeim í nokkra daga og sá til þess að allt gengi eðlilega fyrir sig, bæði hjá konu og barni. Ljósmæður sinna nefnilega tveimur einstaklingum í einu. Eitt sinn er Ásdís kom ríðandi heim á hesti sínum eftir vel heppnaða yfirsetu, steig hún af hestbaki og gekk til baðstofu og fæddi einn krakkann sjálf.

Að raka saman fé og slátra fyrirtækjum virðist vera mun meira virði í okkar samfélagi í dag en að taka á móti börnum. Slík iðja er kennd við marga Háskóla og flestir virðast geta tamið sér þessa list að rýja fólk fjármunum sínum og virðist ekki þurfa sérstakar gáfur til þess. Að leiðbeina ófæddum einstakling í sinni hættulegustu ferð lífs síns virðist ekki metið til jafns við aðra sem lóðsa mann inní vaxtaokur tilverunnar.

Að vera ljósmóðir er sérstakt. Það er alls ekki öllum gefið. Til þess þarf sérstaka manngerð og menntun. Til að verða góð ljósmóðir þarf reynslu og þykkan skráp. Ég segi oft að þær séu frekustu og ákveðnustu konurnar sem ég fæst við. Enda eins gott, án þessara eiginleika myndu ekki margar konur koma krökkunum sínum út í tilveruna. Síðan krydda þær þetta með hæfilegum skammti af blíðu.

Fjórum sinnum hef ég átt allt mitt undir ljósmæðrum. Það var þegar ég fæddi börnin mín fjögur með aðstoð konu minnar. Til allra hamingju vissi konan mín ekki eins mikið og ég um allt það sem gat farið úrskeiðis í einni fæðingu. Þegar barnið manns síðan tekur á móti góðu stúdentsskírteini 20 árum síðar gerir maður sér grein fyrir því að ljósmóðirin stóð sig í stykkinu nóttina forðum. Ef ljósmóðirin hefði brugðist þá hefði ekki besta uppeldi í heimi getað bætt upp skaðann nóttina þá.

Svo er Árni Hafnfirðingur að slást við þessar stelpur. Neitar að borga þeim mannsæmandi laun. Ég held að fattarinn í honum sé í stysta lagi. Ljósmæður eru mjög ákveðnar konur. Allir standa með þeim, allir hjúkrunarfræðingar, allir læknar sem ég þekki til og allir foreldrar sem munu þyggja þjónustu þeirra í náinni framtíð. Fjárfesting í heilbrigðum einstaklingum er besta fjárfesting sem Fjármálaráðherra tekur sér fyrir hendur, mölur, ryð, gengisþróun né tegund gjaldmiðils skipta þar engu máli.

Ef Gaflaranum tekst að kúga ljósmæður þá munu allir skaðast nema metnaður Árna Mathiesen. Spurningin er hvort viðsemjendur ljósmæðra ættu að vera konur sem hafa fætt börn.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Gunnar Skúli.

Reyndar er fjármálaráðherra með aðsetur á Kirkjuhvoli í Þykkvabæ, sem þingmaður Sunnendinga.

Það breytir þvi hins vegar ekki að hér er um að ræða óbilgirni hins opinbera gagnvart virðingu fyrir fagmenntun kvennastéttar eins og svo oft áður.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 5.9.2008 kl. 02:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband