KVÓTI HÉR OG KVÓTI ÞAR OG TÍKUR ALLSTAÐAR.

Sæl öll sömul,

þetta er grein sem birtist eftir mig í Mogganum um daginn. 

KVÓTI HÉR OG KVÓTI ÞAR OG TÍKUR ALLSTAÐAR.

Faðir minn er flugvirki. Ég er ákaflega stoltur af því, því mér finnst það fínt starf. Einu sinni átti hann lítið flugfélag. Það flaug með fólk út og suður og kenndi fólki að fljúga. Svona eins og gengur.

Faðir minn á okkur synina þrjá og gefum okkur að ég hefði tekið við kyndlinum af föður mínum á sínum tíma. Segjum að ég hefði fengið 3 gamlar flugvélar og eitt flugskýli. Síðan er ákveðið að setja kvóta á flugrekstur. Ákveðið er að eingöngu megi fljúga með 130 ferðamenn í útsýnisflug á vertíð. Gefum okkur að faðir minn hefði fengið þennan kvóta því hann sinnti um það bil þetta mörgum ferðamönnum á ári. Það kemur í ljós að flugfélag norður á Akureyri ásælist þennan ferðamannakvóta hjá mér. Enn á ný er reglunum breytt og ég fæ leyfi til að selja kvótann. Sökum skorts á kvóta en ekki ferðamönnum yrði kvótinn mjög dýr. Því yrði kvótinn minn mjög dýrmætur en gömlu rellurnar mínar og flugskýlið, ef eitthvað er fallið í verði.

Því er Flugstöðin h/f allt í einu orðin ákaflega verðmæt eign, ekki vegna fasteigna heldur einhvers leyfis til að sinna því sem hún var stofnuð til að sinna. Í framhaldi af þessu þá ákveða bræður mínir að ganga úr félaginu og krefja mig um að greiða þeim sinn hlut. Í stað þess að skipta þrem rellum og einu skuldsettu flugskýli í þrennt þá er atvinnuleyfi/kvóta/skömmtunarseðli/pappír-skipt í þrennt. Þessi pappírspési er verðlagður mjög hátt, það skiptir milljörðum króna. Þar sem ég er með flugvéladellu þá fer ég í bankann og bið um lán. Fasteignir félagsins eru ekki virði eins meðalstórs japansks fólksbíls og því tekur bankinn veð í útsýnisflugum væntanlegra ferðamanna framtíðarinnar. Bræður mínir fá sína milljarða og ég á rellurnar þrjár, flugskýlið og bankinn á mig.

Núna er svo komið að litla flugfélagið-fjölskyldufyrirtækið-á Reykjavíkurflugvelli er skuldsett í botn. Í raun margfallt meir. Þrjár gamlar rellur og skuldsett flugskýli er ekki neitt upp í alla þessa milljarða.

Nú er svo komið að slímhúð maga míns þolir ekki mikið meir og þegar Flugfélag Akureyrar gerir mér tilboð í ferðamannakvóta minn, þá læt ég slag standa og sel hann. Ferðamannakvótinn fer á Akureyri og ég loka sjoppunni. Það hefur í för með sér að þó ég straui kortið mitt ótæpilega verður sennilega slatti eftir þegar ég verð allur. Rellurnar þrjár fara á haugana enda eru þær nær ónýtar og flugskýlið stendur eftir og verður höfuðverkur Reykjavíkurborgar. Dabbi flugvirki verður mjög sár því hann er atvinnulaus. Elli flugstjóri er líka ósáttur. Hann hafði gert sér vonir um að verða friðaður með gamla flugturninum á Reykjavíkurflugvelli í fyllingu tímans. Ekki vill hann flytja norður. Ég kem mér vel fyrir á erlendri grund, tel auð minn og vonast til að þurfa ekki að hitta þá Dabba og Ella framar.

Ráðherra er hæstánægður með þróun mála. Hér sé augljóst dæmi um hagræðingu, samlegðaráhrif og hagsýni í rekstri fyrirtæja. Mikill auður muni skapast þjóðinni til hagsbótar. Best sé að flugrekstur sé norðan heiða, Reykjavík er hvort eð er úr alfaraleið þegar öllu er á botninn hvolt.

Hvað hefur í raun gerst? Skömmtunarseðill á ferðamenn er verðsettur upp í topp. Hvers vegna mega ekki allir fljúga með alla þá ferðamenn sem koma til landsins. Hvers vegna eigum við að trúa einhverjum sem segir að ef við fljúgum með of marga ferðamenn þá muni þeim fækka. Hvers vegna eigum við að búa við Rússneska skömmtunarseðla fyrrum Ráðstjórnarríkjanna? Það sem einkenndi það kerfi framar öðru var ósanngirni. Hvar er frelsið?

Hver græðir og hver tapar á þessu fyrirkomulagi? Einhverjum var úthlutað kvóta í upphafi sem þeir seldu á uppsprengdu verði og lifa í vellistingum. Kvóti er skömmtunarseðill. Þú sem átt skömmtunarseðilinn mátt taka út. Ef skemman er tóm er skömmtunarseðillinn verðlaus pappír. Hvað gera bankarnir þá sem tóku veð í skömmtunarseðlinum? Ekki var hægt að veðsetja rellurnar þrjár enda fóru þær á haugana. Því er það augljóst mál að rússneska rúllettan verður að halda áfram því annars eru bankarnir í vanda.

Í skjóli hagræðingar og samlegðaráhrifa er allur flugrekstur kominn norður til Akureyrar. Reykjavíkurflugvöllur er ónotaður. Hér fyrir sunnan er hefð, reynsla, mannskapur og öll aðstaða til að reka blómlegan flugrekstur. Ætli Ella flugstjóra og Dabba flugvirkja muni þykja það skemmtileg yðja að grafa Sundagöng. Þeir fá vinnu að vísu en höfðu hugsað sér að nota líf sitt í flug og flugvélar. Snýst flug ekki um flugvélar, flugskýli, flugmenn og flugvirkja. Ég bara spyr?

Hvers virði er blómlegt mannlíf með sínum margbreytileika? „Samlegðaráhrif“ er eins og trekt ofaní hakkakvörn. Í hana er troðið eðlilegu mannlífi en út kemur hagrætt mannlíf. Tilgangurinn með því er að skapa sem mest auðæfi með sem minnstri fyrirhöfn. Þetta er trúarjátning nútímans. Allt annað er óeðli. Er mannskepnan ekki flóknara fyrirbæri en svo að hafa bara eina kvöt? Ég á hund sem hjálpar mér stundum að skilja mannlífið betur því hann hugsar bara um tíkur.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Góð saga hjá þér Gunnar Skúli.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 8.6.2008 kl. 19:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband