21.2.2008 | 15:55
Eru Íslendingar í Sameinuðu þjóðunum?
Þetta er grein sem birtist í dag í 24 Stundum eftir mig.
Eru Íslendingar í Sameinuðu þjóðunum?
Í Silfri Egils á laugardaginn var rætt við Magnús Thoroddsen hæstaréttarlögmann. Tilefnið var skrif hans í Morgunblaðið 30 janúar s.l. Þar fjallar hann um niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Það er nefnd sem fjallar um mannréttindarbrot hjá aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. Þessi nefnd er skipuð lögfræðingum, og eru þeir sennilega rjómi þeirrar stéttar og því mark á takandi. Málefnin sem þeir þurfa að fjalla um eru mjög vandasöm og viðkvæm. Um er að ræða mannréttindarbrot. Að minnsta kosti er þetta ekki nefnd sem fjallar um stöðumælasektir í Reykjavík.
Málið snýst um sanngirni. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að sanngirnis hafi ekki verið gætt og því um mannréttindarbrot að ræða. Þar sem fjallað er um þorsk og kvóta þá lokast venjuleg eyru Íslendingsins. Núna eru það bankar, vextir, samlegðaráhrif og hagræðing sem lífið snýst um en ekki fiskur.
Einu sinni voru þrír bankar á Íslandi. Búnaðar-, Lands- og Iðnaðarbankinn. Auk þess nokkrir minni bankar og sparisjóðir en gleymum þeim í bili. Segjum að ríkið hefði úthlutað þessum þremur bönkum hver sínum kvótanum af Íslendingum til að sinna. Á þann hátt komið í veg fyrir að aðrir sem áhuga hefðu á að sinna Íslendingum kæmust ekki að. Þetta ástand væri orðið viðvarandi og þá er um ósanngjarnt kerfi að ræða. Þar með er íslenska ríkið búið að fremja mannréttindarbrot á þegnum sínum. Þannig er því háttað í sjávarútveginum í dag.
Þar sem verið er að fjalla um fisk og útgerð loka allir augunum fyrir þessu mannréttindarbroti. Ef um viðskipta-eða banka misrétti væri að ræða væri allt vitlaust á skerinu okkar. Það er svo fínt í dag að vorkenna skrifstofublókum.
Kæru samlandar; Sameinuðu þjóðirnar, ég endurtek Sameinuðu þjóðirnar, hafa komist að þeirri niðurstöðu að við Íslendingar framkvæmum mannréttindarbrot á þegnum okkar. Sameinuðu þjóðirnar eru að segja okkur að hætta því. Til hvers erum við í Sameinuðu þjóðunum? Er það bara til að útvega íslenskum diplómötum vinnu?
Mannréttindarbrot eru mjög alvarleg brot. Einar K sjávarútvegsráðherra hefur málið til skoðunar en kvartar yfir hversu flókið það sé . Sameinuðu þjóðirnar eru að segja við okkur Íslendinga að við séum að brjóta mannréttindi. Við því verður að bregðast með viðeigandi hætti. Við verðum að gera hreint fyrir okkar dyrum þannig að við fyllum ekki þann fámenna flokk þjóða sem gefur skít í Sameinuðu þjóðirnar. Að öðrum kosti getum við ekki farið erlendis öðruvísi en með hauspoka.
Reykjavík 5.2.2008.
Gunnar Skúli Ármannsson, læknir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Gunnar Skúli, þú ert bara frábær penni. Svo ertu svo sannfærandi að maður er algjörlega sammála þér.
Kveðja, Sigrún Óskars
Sigrún Óskars, 21.2.2008 kl. 16:39
Takk Sigrún.
Gunnar Skúli Ármannsson, 21.2.2008 kl. 18:20
Gott: Þetta er nefnilega ekki eitthvert glamur af blogginu sem hér er í umræðunni. Þetta er kæra tveggja einstaklinga til Mannréttindanefndar S.þ. Þessir menn kærðu dóm Hæstaréttar Íslands til þeirrar alþjóðastofnunar sem hefur það skilgreinda hlutverk að úrskurða í málum sem þessu.
Þessi nefnd er úrskurðardómstóll sem íslensk stjórnvöld viðurkenna. Og íslensk stjórnvöld héldu uppi vörnum. Hví halda stjórnvöld okkar uppi vörnum ef þau telja úrskurðinn svo ekki marktækan?
Eigum við endalaust að samþykkja valdníðslu af hendi ríkisstjórnar og ráðherra?
Nei.
Árni Gunnarsson, 21.2.2008 kl. 20:26
Sæll Árni,
svarið við spurningu þinni er NEI og aftur NEI.
Gunnar Skúli Ármannsson, 21.2.2008 kl. 21:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.