18.1.2008 | 15:22
LANDSPÍTALINN OG SAMKEPPNI UM SJÚKLINGA.
Þetta er grein sem birtist eftir mig í 24stundum þann 18 jan.
Þann 10 janúar s.l. skrifar Hanna Katrín Friðriksson mjög athyglisverða grein í 24 stundir. Þar gerir hún grein fyrir því að hinn lagalegi rammi um val sjúklinga á þjónustu innan heilbrigðiskerfis Evrópu sé vel á veg kominn. Því muni ég geta sótt þjónustu til annarra landa ef svo ber undir á kostnað íslenska ríkisins. Að vísu bendir hún á að einhver skilyrði verði fyrir því. Ef engin óeðlileg bið er eftir aðgerð í heimalandinu eigi maður ekki átt rétt á þessu. Því stefnir í að sjúklingar fari að velja á milli sjúkrahúsa innan ESB og ESS. Þetta hljómar mjög vel.
Þar með er komið að mér sem sjúklingi að taka upplýsta ákvörðun hvar ég vil láta meðhöndla mig. Ég vil að sjálfsögðu fara á það sjúkrahús sem ég treysti best fyrir heilsu minni. Til að leggja mat á það þarf ég upplýsingar. Ef ég ætla í skurðaðgerð vil ég vita hversu margar aðgerðir eru gerðar af þessari tegund á viðkomandi spítala. Hver er árangurinn, hversu margir lenda í aukaverkunum eins og sýkingum eða blæðingum? Hversu margir lifa af eða deyja? Ef aukaverkanir verða svæsnar er þá góð gjörgæsla á spítalanum? Ef ég veikist í öðrum líffærakerfum, eru þá færir sérfræðingar á sjúkrahúsinu til að sinna því? Er verkjameðferðin fullnægjandi? Hvernig er persónuleg aðstaða mín á sjúkrahúsinu? Verð ég á einbýli eða þröngu fjölbýli? Eru fjárhagserfiðleikar á stofnuninni? Er starfsandinn góður?
Þetta eru í raun svipaðar hugsanir sem fara í gegnum kollinn á manni þegar maður kaupir sér flugmiða. Er flugfélagið vel rekið? Hvernig er viðhald flugvélanna. Eru þeir með góða flugmenn?
Hvernig nálgast ég slíkar upplýsingar. Ég veit til þess að sumir erlendir spítalar hafa þessar upplýsingar á heimasíðum sínum og til eru heimasíður sem sérhæfa sig í slíkum upplýsingum. Eftir því sem ég best veit eru engar slíkar upplýsingar handbærar á Íslandi. Slíkum gagnabanka þyrfti að koma á fót sem fyrst svo fólk geti farið að velta möguleikunum fyrir sér. Auk þess væri æskilegt að hafa slíkan samanburð á millli stofnana hérlendis.
Hvernig stöndum við okkur? Gerðar eru liðlega 150 kransæðaaðgerðir á Íslandi á ári. Á sjúkrahúsinu í Lundi í Svíþjóð eru gerðar fleiri en 1000 á ári. Út frá þessum upplýsingum ætti ég að velja Lund. En eru þeir betri en við? Ristilaðgerðir eru samtals um 60-80 á ári á Íslandi. Hluti af þeim geta verið mjög flóknar og er þá fjöldri slíkra aðgerða vel innan við 10 á ári. Sama gildir um erfiðar vélindaaðgerðir og aðgerðir á briskrabbameini, þær eru vel innan við 10 á ári á Íslandi. Svona mætti lengi telja en erfitt er að átta sig á því hvar við stöndum. Til að geta borið okkur saman þarf meiri upplýsingar. Til þess þarf mannafla og peninga.
Þegar kemur að húsnæðismálum og aðbúnaði sjúklinga þá versnar ástandið. Flest híbýlin reist á fyrri helming síðustu aldar og viðhaldið af íslenska ríkinu. Sú stefna í hnotskurn er reynsla gjörgæsludeildarinnar í Fossvogi sem fékk ekki nýtt þak fyrr en allar skúringafötur voru uppiskroppa til að taka við regnvatninu. Þegar mið er tekið af því að nágrannaþjóðir okkar eru í óða önn að reisa ný sjúkrahús, þá held ég að gömlu jálkarnir okkar fölni í samanburðinum. Til að mynda munu Bretar reisa meira en 100 ný sjúkrahús frá 1997 til 2010. Sömu sögu er að segja frá meginlandi Evrópu, Norðurlöndunum og Bandaríkjunum. Sjálfsagt ætla önnur Evrópuríki að vera tilbúinn í slaginn þegar opnað verður fyrir samkeppni um sjúklinga innan ESB og ESS svæðisins. Við erum ekkert eyland í þessum málaflokki.
Ef Landspítalinn ætlar að verða samkeppnishæfur á þessum markaði er hann ekki tilbúinn. Húsnæðisvandi hans er óleystur. Öll hátæknin er til staðar og oft á tíðum geymd á göngum spítalans vegna skorts á geymslurými. Starfsfólkið er gott og fært á sínu sviði. Reyndar svíður því undan umræðunni. Í henni er iðulega rætt um eyðslu" hjá LSH. Starfsfólkið keyrir" fram úr fjárlögum eins og óábyrgur 17 ára gutti nýkominn með bílpróf. Þrátt fyrir sífelldan niðurdrepandi málflutning vinnur starfsfólkið eins vel og það getur.
Ég tek undir með Hönnu Katrínu þegar hún bendir á að sameiginlegur markaður verði mikil áskorun fyrir heilbrigðiskerfi Evrópu og um leið að gríðaleg tækifæri muni skapast. Auk þess er ég henni innilega sammála að það hvetji menn til frekari dáða.
Því eru allir starfsmenn Landspítalans til í slaginn um sjúklinga Evrópu, eins og kappreiðarhestur af bestu sort. Vandamálið virðist vera að knapinn sé ekki til í hlaupið með okkur.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Lífstíll, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Gott orðalag hjá þér "starfsfólkið keyrir framúr fjárlögum". Stjórnendur LSH mættu tala um, að við starfsfólkið keyrum starfsemina áfram.
Góð skrif hjá þér Gunnar Skúli,
Sigrún Óskars, 18.1.2008 kl. 19:12
Menn virðast þurfa að snúast í marga hringi og endurtaka hringferðina þó niðustaðan sé alltaf sú sama; húsnæði LSH hentar ekki lengur til starfseminnar, er barn síns tíma.
Feiki góð skrif að vanda Gunnar Skúli
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 18.1.2008 kl. 22:58
Sigrún og Guðrún Jóna, takk fyrir góð orð, það hvetur mig til dáða þannig að ritræpunni linni ekki í bráð hjá mér.
Gunnar Skúli Ármannsson, 19.1.2008 kl. 11:27
Skrif þín eiga fullt erindi til þjóðarinnar, hvet þig eindregið til að halda áfram skrifum þínum.
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 19.1.2008 kl. 20:05
Gunnar Skúli, haltu endilega áfram að skrifa. Þú skrifar nefninlega þannig að fólk skilur það sem þú ert að segja. kveðja,
Sigrún Óskars, 19.1.2008 kl. 23:08
Takk aftur!!
Gunnar Skúli Ármannsson, 21.1.2008 kl. 23:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.