SPÍTALINN HENNAR ÖMMU.

 vetrarriki_hringbraut_2002

 

 Þetta er grein sem birtist eftir mig í Morgunblaðinu í dag þ. 16 janúar 2008.

SPÍTALINN HENNAR ÖMMU.

 

Nokkur umræða hefur spunnist á síðustu vikum um þrengsli og manneklu á Landspítalanum. Á miðopnu morgunblaðsins 5 jan. er sagt frá heimsókn heilbrigðisráðherra Guðlaugs Þórs á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut. Hann var sammála starfsmönnum sínum að þrengslin væru óviðunandi. „ Það sér hver maður að þessi aðstaða gengur ekki upp" er haft eftir honum. Auk þess leynir það sér ekki á fréttinni að eftirvæntingin eftir nýjum spítala er mikil meðal starfsmanna.

Ef mark er takandi á óstaðfestum sögusögnum þá er eftirvænting á fleiri bæjum í ríkinu. Heyrst hefur að byggja eigi starfsaðstöðu fyrir 2-300 lækna í Garðabænum. Þar eru ungir athafnamenn á ferð. Hvort þar eigi eingöngu að veita viðtöl eða framkvæma rannsóknir eða skurðaðgerðir er ekki vitað. Hvort um raunverulegan spítala er að ræða er einnig óljóst. Jafnvel hefur heyrst að menn dreymi um að í Garðabænum rísi fullkominn spítali sem geti sinnt öllu til jafns við Landspítalann.

Hann yrði sjálfsagt einkarekinn. Ekki er það slæmt. Miðað við fyrri reynslu væri um afkastahvetjandi kerfi að ræða þar sem greitt er fyrir unnin verk. Ef ég fengi vinnu þar myndu kjör mín eflaust batna . Í nýju húsi væri vinnuaðstaðan betri, bjartari og rýmri. Aðstaða sjúklinga væri að sjálfsögðu mun betri en á Landspítalanum. Í fyrsta lagi getur hún varla verið verri og hitt að ef um samkeppni yrði að ræða þá eru það huggulegheitin sem selja. Stjórnendur myndu sjálfsagt einfalda alla stjórnun og rekstur til að geta skilað ágóða til hluthafa.

Góð hugmynd. En hver yrði munurinn á þessum spítala og Landspítalanum? Sumir vilja meina að við verðum að hafa tvo spítala til að geta borið þá saman. Á báðum stöðum yrðu eigendur sem fengju útrás í að stjórna. Á báðum stöðum yrðu læknar, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk-á vakt allan sólarhringinn. Á báðum stöðum yrðu tæki og tól af bestu sort. Á báðum stöðum yrðu sjúklingar. Spurningin er yrðu þeir sambærilegir. Mun einkarekna sjúkrahúsið meðhöndla léttu sjúklingana en Landspítalinn sitja uppi með erfiðu sjúklingana. Mun einkarekna sjúkrahúsið meðhöndla sjúklingana þegar eitthvað fer úrskeiðis og þeir verða erfiðir, eða senda þá á Landspítalann. Er hægt að bera slík sjúkrahús saman?

Þessa dagana er verið að gera gangskör að dreifingu hjúkrunarsjúklinga milli hjúkrunarheimila landsins. Borið hefur á því, eins og Landlæknir segir, að léttustu gamalmennin eru vinsælust en þau erfiðari skilin eftir á Landspítalanum. Því þurfti að semja ný lög um öldrunarmál og í kjölfar þeirra skipa nýjar nefndir hjá Landlæknisembættinu. Allt í þeim tilgangi að einkarekin hjúkrunarheimili muni taka fyrst við erfiðu gamalmennunum og síðar við þeim léttari.

Þetta er í raun mjög skiljanlegt og á ekki að koma nokkurri mannvitsbrekkunni á óvart sem hefur kynnst mannlegu eðli á leið sinni í gegnum lífið. Ef ég ætti spítala þá myndi ég reka hann þannig að hann skilaði hámarksgróða. Þá myndi ég sækja í einfalda, þægilega og auðlæknanlega sjúklinga. Það er í raun ekkert rangt við það. Sjúklingarnir fengju fyrirtaks þjónustu, bót meina sinna og ég aura í vasann.

Því er það mjög skiljanlegt að sumir læknar aðhyllast einkarekið sjúkrahús. Þar gera þeir sér vonir um meiri aðkomu að ákvarðanatöku og næði til að sinna sjúklingum sínum. Sérstaklega ef bráðatilfellum yrði eftir sem áður vísað á Landspítalann.

Reyndar hefur verið nefnt að Íslendingar geti farið að bjóða nágrannaþjóðunum heilbrigðisþjónustu. Þar sem Landspítalinn er ekki aflögufær er sjálfsagt verið að gera ráð fyrir ónýttu rými í nýjum einkaspítala.Þarf innflutning á sjúklingum til að spítalinn verði nægjanlega stór eða hann borgi sig? Á að flytja inn sjúklinga bara til þess að einkarekinn spítali geti risið á Íslandi? Er hugmyndafræði svo mikilvæg?

Eru ekki þeir sjúklingar sem eru veikastir, dýrastir og tímafrekastir að verða undir? Eiga þeir að bíða? Á fyrst að byggja einkaspítala? Veikustu Íslendingarnir blasa við okkur starfsmönnum Landspítalans á hverjum degi. Þeir bíða og vona að nýr spítali verði byggður fyrir þá líka. Eru vandamál þeirra svo flókin, erfið og vandasöm að menn sjá ekki mögulega lausn í viðeigandi hagfræði.

Það er orðið lífsspursmál að fullur skilningur verði fyrir þeirri staðreynd að tími vangaveltna er löngu liðinn. Spítalinn sem var reystur fyrir afa og ömmur okkar af langömmum okkar er löngu kominn fram yfir síðasta söludag. „Best fyrir"-kynslóðin mun aldrei sætta sig við neitt hálfkák, þau munu aldrei sætta sig við þau þrengsli og skort á persónulegri aðstöðu sem eldri kynslóðir hafa gert.

Hættum þessu brölti og einhendum okkur í að leysa FYRST vandamálin hjá þeim sem eru augljóslega og sannanlega í brýnustu þörfinni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott grein hjá þér Gunnar Skúli

- Ánægður með þig!

Kveðja, Þorsteinn

Þorsteinn Jónsson (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 19:54

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Gunnar Skúli.

Góð grein og sannarlega raunrétt lýsing á hlutunum eins og þeir eru , hvort sem mönnum líkar betur eða ver.

Ég deili með þér áhyggjum varðandi það atriði hvort einkarekið sjúkrahús, muni einungis sinna auðveldari afmörkuðum verkefnum, og " aukaverkanir læknisaðgerða " lendi eftir sem áður á ríkisspítulunum.

Mér best vitanlega er staðan sú í dag að sjúklingar sem fara á einkareknar stofur lækna í " einfaldar aðgerðir " úti í bæ á skrifstofutíma, njóta ekki eftirfylgni þar , heldur eru " aukaverkanir læknisaðgerða " verkefni ríkisspítalans.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 16.1.2008 kl. 23:40

3 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Takk Þorsteinn,

Guðrún María,

góður læknir fylgir eftir sínum sjúklingum og sinnir þeim. Einnig læknar út í bæ. Ég hef persónulega reynslu af því. Aftur á móti ef aukaverkanirnar eru alvarlegar þá verður kannski ekki ráðið við þær á einkastofu. Í þeim tilfellum er það eðlilegt að leita til ríkisspítalans. Það sem þú ert að vísa til er mannlegt eðli því allir eru ekki góðir, eða þannig sko.

Gunnar Skúli Ármannsson, 17.1.2008 kl. 12:37

4 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Þú segir nokk Gunnar Skúli.  Vífilsstaðarlandið er ægifagurt, það þekki ég vel frá barnæsku.

Á öðrum spítalanum dveldust sjúklingar sem eru efnaðir og tilheyra ,,yfirstéttinni". Færustu læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk myndu starfa þar og yfirbyggingin trúlega minni og þá í höndum fagfólksins hef ég trú á. Starfshvatinnn gríðalegur enda samkeppni á meðal fagfólks að fá eftirsóknarverð störf og laun.

Á hinum spítalanum, því ríkisrekna myndu ,,dýrari" sjúklinganrnir vera og þeir sem eru minna efnaðir. Það fagfólk sem einkageirinn sækist ekki eftir, myndi starfa þar og yfirbygging embættismanna blómstra. Sparað endalaust, engin námstækifæri né möguleikar á sí- og endurmenntun, hvað þá starfshvatning.

Kannski er hægt að fara bil beggja eða hvað??? 

Mér leikur forvitni á að vita hversu kostnaðarsöm yfirbygging LSH er og hefur verið síðustu árin. Hef reynt að lesa þær upplýsingar úr ársreikningum en ekki fengið neina heildarmynd þaðan.

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 17.1.2008 kl. 18:58

5 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Guðrún Jóna, sú framtíð sem þú dregur upp er ekki falleg. Ég vona að við lendum ekki á þessum glapstigum.

Ég hef ekki hugmynd um hvað yfirbyggingin kostar og er það eitt af því sem þarf að koma upp á yfirborðið.

kk GSÁ.

Gunnar Skúli Ármannsson, 18.1.2008 kl. 15:30

6 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Nákvæmlega og einkennilegt hversu torsótt það er að fá þær upplýsingar.

Ég er sammála þér, vona að við lendum ekki á þessum glapstigum en uggandi er ég miðað við þá þróun sem hafin er. Vona svo sannarlega að mér skjátlist

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 18.1.2008 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband