Kerfisstíflur og mismunandi drullusokkar.

Það er nokkuð merkileg frétt á forsíðu Fréttablaðsins á föstudaginn. Þar kemur fram að við Íslendingar búum svo vel að eiga flest rými fyrir aldraða miðað við nágrannaþjóðirnar. Síðan er gefið í skyn að tregða sé að taka við veikustu einstaklingunum inn á hjúkrunarheimilin. Hingað til hafa þeir sem eru hressastir verið settir í forgang. Tekið er dæmi um aldraðan einstakling sem ekki var hægt að útskrifa af sjúkrahúsi því ekkert pláss var til fyrir hann á hjúkrunarheimili.

Til að fyrirbyggja stíflumyndanir innan kerfisins hefur hið opinbera gripið til sinna ráða. Búið er að semja ný lög. Samkvæmt þeim eiga aðrar manneskjur en áður í öðru húsi að ákveða hverjir komast inn á hjúkrunarheimili. Sem sagt ný nefnd í stað þeirrar gömlu. Ég vona svo innilega að nýr drullusokkur virki betur á stífluna en sá gamli.

Aftur á móti held ég að leysa mætti vandamál sjúkrahúsanna á annan hátt þegar kemur að útskrift einstaklinga í þörf fyrir hjúkrunarrými. Ef sveitafélag viðkomandi einstaklings þyrfti að greiða sjúkrahúsinu beint fyrir leguna þar, eftir að viðkomandi er útskriftarfær væri málið einfaldað mjög. Það væri mikill hvati fyrir sveitafélögin að taka við sínu fólki aftur því mun ódýrara er að greiða fyrir vistun á hjúkrunarheimili en á sjúkrahúsi. Þar með væri stíflan sjálfleyst. Það vill stundum gleymast að buddan slær oftast næst hjartanu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Gunnar Skúli.

Skyldi einhvern skilja Ólaf fyrrum Landlækni í dag og skrif hans allan hans tíma um sjúkrahótel nú ?

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 6.1.2008 kl. 01:44

2 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Hnitmiðuð skrif að vanda og orð að sönnu. Hef velt því fyrir mér hvort hin nýja nefnd eða stíflueyðir hafi til komið eftir áralangt eftirlit Landlæknisembættisins með aðbúnaði aldraðra í gegnum RAI.

Árlegt eftirlit en fátt um bætandi aðgerðir fram til þessa. Menn þar á bæ viðurkenna nú vandann,þ.e hjúkrunarheimilin handvelja inn á heimilin þá einstaklinga sem ,,passa" starfseminni og auðvitað má hjúkrunarþyngdin ekki vera of mikil.

Sveitarfélögin eiga vissulega að sjá um sína öldruðu íbúa eins og aðra. Nokkuð oft hefur ég ekki orðið vitni af því að aldraðir hjúkrunarsjúklingar hafi verið fluttir hreppaflutnngum á hjúkrunarheimili höfuðborgarsvæðisins þar sem hvorki hefur verið til staðar vilji né úrræði sveitarstjórnarmanna að sinna þessum hóp.  

Hitt er svo áhyggjumál og hefur ekki enn verið tekið á; aðbúnaður þessa hóps og þjónusta er æði misjafn, bæði er varðar læknisþjónustu, sjúkra- og iðjuþjálfun og hjúkrun.  Daggjöld geta verið hin sömu vestur í landi og í Reykjavík en gæði þjónustunnar langt frá því hin sömu.

Öll vitum við að margur hjúkrunarsjúklingurinn er fastur inni á sjúkrahúsunum þar sem engin úrræði finnast annars staðar. Bagalegt fyrir starfsemina, teppir pláss fyrir bráðveika, óhemjudýrt úrræði,  og það sem meira er, hentar engan veginn þörfum hins aldraða enda starfsemi bráða-og hátæknisjúkrahúss ekki sniðin að þeirra þörfum.  

Ég tek uppástungu þinni um greiðslu sveitarfélaganna fagnandi, engin spurning og eðlilegt að það sveitarfélag þar sem viðkomandi á lögheimili í, á að greiða þjónustuna á sjúkrahúsunum í þeim tilfellum sem viðkomandi dagar þar uppi eftir að búið er að veita honum alla þá þjónustu sem honum er nauðsynleg. 

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 6.1.2008 kl. 20:47

3 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Þetta er nokkuð góð hugmynd Gunnar enda tekur Guðrún Jóna undir hana.

Sigurjón Þórðarson, 11.1.2008 kl. 10:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband