2.1.2008 | 20:13
Mikið veikur eða lítið veikur-einn spítali eða tveir.
Sæl öll sömul,
þetta er grein sem birtist eftir mig í dag í Morgunblaðinu.
Mikið veikur eða lítið veikur-einn spítali eða tveir.
Nokkur gagnrýni hefur beinst að nýbyggingu Landspítalans. Bent hefur verið á að nýja sjúkrahúsið verði hið mesta ferlíki. Það verði eini vinnustaður mjög margra heilbrigðisstarfsmanna og setji starfsmennina í stöðu þrælsins. Það sé betra að hafa tvö sjúkrahús, þau sé hægt að bera saman og samkeppni myndist á milli þeirra sem myndi leiða af sér betri kjör bæði fyrir starfsmenn og sjúklinga. Auk þess er nýbyggingunni stillt upp á móti þjónustu við aldraða.
Sem starfsmaður Landspítalans fellur maður oft í þá gryfju að taka það sem gefið að fólk skilji og viti hvernig hlutirnir eru á Landspítalanum. Sjálfur hrærist maður í þessu umhverfi daglega og finnst, ranglega, að allir ættu að skilja eðli þeirrar starfsemi sem þar er. Það er ekkert rangt við að gagnrýni komi fram, aftur á móti finnst mér skorta andsvör.
Síðustu áratugir hafa einkennst af stefnuleysi í uppbyggingu á góðu sjúkrahúsi fyrir alla Íslendinga. Þau sjúkrahús sem voru notuð hér í bænum voru allt of lítil og þröng.Til að gera eitthvað voru menn að byggja við og gera upp gamlar einingar.Þegar tillit er tekið til þess að kostnaður við að gera upp gamla einingu er 80% af því að byggja nýtt er þessi stefna mjög heimskuleg.
Spurningin um eitt eða tvö sjúkrahús er mun athyglisverðari. Til allrar hamingju höfum við flest öll verið ekki mikið veikir sjúklingar. Ég vil kalla þann stóra hóp sjálfbjarga sjúklinga. Sjálfbjarga sjúklingar, komast til og frá þjónustinni að mestu leyti á eigin vélarafli. Sem dæmi getum við tekið göngudeildarþjónustu, skurðaðgerðir út í bæ eða einfalda gallblöðrutöku þar sem sjúklingurinn er kominn heim um kvöldmat. Okkur finnst við í raun ekki vera miklir sjúklingar því við erum að mestu sjálfbjarga og oftast vel læknanleg. Sjálfbjarga sjúklingar skipta umræðuna um Landspítalann sára litlu máli, því þessa sjúklinga má meðhöndla í hvaða skemmu sem er. Þeir hafa þrek og þrótt til að fara á staðinn, krefjast þjónustu, eða rífa kjaft ef svo ber undir. Eðli Landspítalans er ekki meðhöndlun sjálfbjarga sjúklinga heldur ósjálfbjarga. Það sem hrjáir umræðuna um Landspítalann er að flestir sem taka þátt í henni hafa verið sjálfbjarga sjúklingar og meta síðan þörf Íslendinga fyrir nýjan Landspítala út frá sinni reynslu. Í raun ósköp skiljanlegt. Fæstir hafa verið mikið veikir til allrar hamingju. Mín reynsla er svolítið önnur. Sem Svæfinga-og Gjörgæslulæknir þá sinni ég mest ósjálfbjarga sjúklingum. Mikið veikum einstaklingum. Allir sem verða mikið veikir eru fluttir á Landspítalann, því er það spítali allra landsmanna. Flest allir sjúklingar Landspítalans eru aldraðir eða veik börn. Sjálfbjarga sjúklingum má mín vegna skipta niður á eins mörg sjúkrahús og spekingar kjósa.
Hvað með ósjálfbjarga sjúklinga. Tökum dæmi. Sá fjöldi hjartaskurðaðgerða sem framkvæmdar eru á Íslandi eru ekki til skiptanna. Hann er rétt nægjanlega mikill til að halda skurðlæknum og öðru starfsfólki okkar í æfingu. Ef við skiptum þeim á tvö sjúkrahús þá fengjum við tvær hjartaskurðdeildir sem hefðu allt of fáa sjúklinga til að halda starfsfólkinu í góðri æfingu. Svo bærum við þær saman. Við myndum bera tvær lélegar deildir saman. Úr yrði einhverskonar aumingjabandalag, tossabekkur. Eina skynsemin fyrir okkur er að efla þá deild sem er til staðar núna. Sú deild yrði síðan borin saman við bestu erlendu sjúkrahúsin í sömu grein. Metnaður okkar á Landspítalanum er að standast slíkan samanburð, sem dúx. Sama á við um fleiri sérgreinar svo sem heilaskurðlækningar.
Nefna má tvö atriði til viðbótar. Það hlýtur að vera dýrara að halda úti tveimur vaktalínum lækna og hjúkrunarfræðinga en einni, launakostnaður er nú einn stærsti útgjaldaliðurinn í rekstri allra fyrirtækja. Þar að auki eru það gömul sannindi í hagfræði að allir sem að rekstri koma, vita að heppilegast er að ákvarðanir í þeim efnum, séu teknar af þeim sem þurfa síðan að búa við ákvarðanirnar. Því ætti að spyrja þá sem hafa verið mjög veikir sjúklingar hvernig þeir vilja hafa hlutina og okkur sem sinnum þeim.
Hvers eiga veikustu sjúklingarnir að gjalda? Þeir hafa aldrei átt eitt gott sjúkrahús þar sem þeir geta fengið alla þjónustu. Vandamálið með mannskepnuna er að hún veikist ekki í pörtum. Ef maður lendir í miklu slysi þá brotna ekki bara beinin. Lungun, hjarta og nýrun geta líka bilað. Ætli það sé notalegt að ferðast um Reykjavík á milli sjúkrahúsa mölbrotinn. Stundum hafa sjúklingarnir verið nær dauða en lífi eftir flutninginn.
Mikið veikir sjúklingar eru ekki til skiptanna. Þeir henta mjög illa fyrir einkarekstur. Þeir hafa búið við slæmar aðstæður á nokkrum sjúkrahúsum í Reykjavík áratugum saman. Þetta er vanræktur hópur sem hefur ekki hátt. Það getur verið að ég verði þræll eins atvinnurekanda en ég vil þá láta sjúklinginn njóta vafans.
Það er mál að linni. Spekingar, setjið ykkur í spor þessara sjúklinga og okkar sem sinnum þeim áður en þið bregðist þeim endanlega. Byggjum eitt gott sjúkrahús fyrir okkar veikustu meðbræður, því þeir eru líka Íslendingar eins og við hin.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Frábær grein, las hana í morgun á netinu. Get tekið undir hvert orð sem hér kemur fram. Það grátlega við alla umræðu um þessi mál er að hvergi er gert ráð fyrir sjúklingnum, skoðunum hans og líðan. Þú bendir réttilega á þann punkt.
Sem fyrrum Hringbrautar ,,hjúkka" get ég sagt með sanni að mér var brugðið þegar ég þurfti á þjónustu þar að halda fyrir ári vegna brottnáms á lunga. Aðstæður á gjörgæslunni ekki til að hrópa húrra fyrir en tek það fram að mjög vel var hugsað um mig þar. Þrengslin hins vegar bagaleg og aðstæður starfsfólks ekki mönnum bjóðandi. Á legurdeildinni fann ég hins vegar tilfinnanlega fyrir því að vera ,,tilfellið" á stofu x, enginn tími var til að setja sig inn í mínar aðstæður, veikindi, ótta og kvíða, ég var ,,thoracotomian". Mikill skortur var á fagfólki í hjúkrun. Þeir hjúkrunarfræðingar sem voru til staðar tóku oftar en ekki tvöfaldar vaktir.
Ég tek undir sjónarmið þín um eitt, öflugt sjúkrahús sem er byggt upp með þá starfsemi í huga sem því er ætlað að sinna; þ.e. að vera hátæknisjúkrahús fyrir alla landsmenn. Mér finns hins vegar verðugt að skoða sértekjur LSH sem fara hækkandi ár hvert. Eru það ekki við, sjúklingarnir sem erum ein helsta tekjulindin, fyrir utan aðkeypta þjónustu?? Ég hef, af eigin reynslu, löngum haldið því fram að maður þarf að vera á þokkalegum launum til að vera sjúklingur sem sækir sína þjónustu á göngudeildir. Hvað leggur FF til í þeim efnum???
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 2.1.2008 kl. 22:45
Ísland er of lítið fyrir tvö sjúkrahús nema þau skipti með sér verkefnum. Í mínum huga er aðalatriðið þó að "rýma" fyrirliggjandi sjúkrahús og hlúa að þeirri starfsemi sem telst til hátækni, s.s. gjörgæsla, flóknari aðgerðir og lyfjameðferð, nýburadeild og sértækar rannsóknir. Mjög margt af því sem nú fyrirgengst á háskólasjúkrahúsinu er betur komið annarsstaðar. Einnig er ljóst að komandi þungi heilbrigðisþjónustunnar liggur í öldrun samfélagsins og þörfin á hjúkrunarheimilum og heimaaðhlynningu verður bráð og almenn. Verði fjárstreymi heilbrigðisþjónustunnar beint í nýtt hátæknisjúkrahús mun það fyllast af öldruðum almenningi sem ekki á í önnur hús að venda og verða hátæknihjúkrunarheimili. Hinir efnaðri munu hinsvegar kaupa heim til sín þá læknisþjónustu og aðhlynningu sem til þarf. Með réttri ákvörðun nú, þ.e. að byggja ekki nýtt sjúkrahús heldur auka við hjúkrunarrými og heimaþjónustu leysum við ekki bara vandamál háskólasjúkrahússins heldur komum líka til móts við komandi þarfir almennings. Þessi sýn kastar í engu rýrð á störf fólks í hátæknigeiranum heldur þvert á móti gefur þessum nauðsynlega hluta heilbrigðisþjónustunnar meira rými. Þakka annars áhugaverð skrif í hvívetna.
Lýður Árnason (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 23:58
Sæll Gunnar Skúli.
Eins og oft áður er ég innilega sammála þér um flest allt í innri og ytri sýn á þessi mál en ég VEIT og hef vitað árum saman að fjármagn skortir til þess að reka skurðstofur og nauðsynlega þjónustu sem hægt er nú í dag að nýta ef fjármagn og mannskapur að störfum er til staðar sem skyldi.
Tengja þarf árangur. þe. gæðastjórnun frá a-ö og þá fyrst þegar fjármagni er varið til þess arna verður hægt að tala um eðlilegan aðbúnað starfsmanna og sjúklinga , fyrr ekki.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 3.1.2008 kl. 02:58
Sæll Lýður, takk fyrir athugasemdirnar við grein minni. Ég hef verið nokkuð úr alfaraleið og því ekki komist á netið til að svara þér. Sjá nýjustu færsluna mína.
Það sem ég hef verið að reyna að benda fólki á eru hversu gríðarleg þrengsli eru á Landspítalanum. Landspítalinn hefur alltaf verið hátæknisjúkrahús og verður það vonandi áfram. Því finnst okkur sem vinnum þar nafngiftin hátæknisjúkrahús slæm og á vissan hátt niðurlægjandi. Það er eins og einhverjar frumskógalækningar hafi verið stundaðar af okkur hingað til. Við höfum mjög hæft starfsfólk því er það sem okkur vantar er fermetrar.
Þú bendir á að með því að flytja sjúklinga frá Landspítalanum verði nægjanlegt rými. Annars vegar ertu að benda á þá sem hafa lokið meðferð en komast ekki áfram í kerfinu. Þar bendir þú fyrst og fremst á hjúkrunarrýmisskort fyrir aldraða. Það vandamál var leyst í Svíþjóð fyrir löngu. Frá þeim degi sem sjúklingurinn er útskriftarfær greiðir hans sveitarfélag fyrir vistina á Landspítalanum. Því er aldrei vandamál að útskrifa sjúklinga frá stóru sjúkrahúsunum í Svíþjóð. Ef þetta kerfi yrði tekið upp hér þá verður vandamálið sjálfleyst.
Hitt sem þú nefnir er að færa verkefni frá Landspítalanum sem ættu að vera léttari viðfangs til annarra aðila. Sú þróun hefur verið í gangi árum saman og því er sjúklingaflóran mikið breytt á Landspítalanum miðað við áður. Þar að auki þá gista yfirleitt ekki þessar léttari aðgerðir á Landspítalanum. Koma að morgni og fara að kveldi.
Sjálfsagt eru þér þessar staðreyndir allar vel kunnar. Það sem er að snúast fyrir mér er að koma fólki í skilning um að húsnæðið sem við búum við er ekki til nokkurs hlutar nýtilegt. Það er ónýtt. Að gera upp gamlar einingar kostar 80% af því að byggja nýtt. Fyrir utan kostnaðinn er það mjög erfitt að koma hlutunum vel fyrir. Því sætum við eftir sem áður með sömu vandamálin.
Ég var að koma til Neskaupsstaðar að leysa af. Ef ég segði Norðfirðingum að þeir þyrftu ekki ný göng heldur væri nægjanlegt að bæta bara við útskotum til að mætast í gömlu göngunum í Oddsskarðinu, þá skilurðu kannski betur vandamál mitt.
Gunnar Skúli Ármannsson, 4.1.2008 kl. 08:49
Sæl Guðrún Jóna,
takk fyrir athugasemdina. Þú bendir á tvö atriði sem tengjast hjúkrun. Í fyrsta lagi veita hjúkrunarfræðingar LSH frábæra þjónustu og hitt að mikil mannekla er í hjúkrun. Algengt er að vinnustaðurinn er undirmannaður og hjúkrunarfræðingar vinna tvöfaldar vaktir, 16 klst, bara svo hægt sé að halda sjoppunni gangandi. Lausnin á þessu vandamáli er einföld, þetta snýst um kjör í víðum skilningi. Því þarf bara pólitískan vilja. Það hefur verið bent á það að ef sjúkrarúmin á LSH væru full af peningaseðlum en ekki fólki þá væru kjör hjúkrunarfræðinga betri.
Þegar kemur að sértekjum verð ég að viðurkenna að ég þarf að kynna mér þau mál betur. Ég hef á tilfinningunni að LSH reyni að nýta sér allar tekjulindir sem þeir eiga kost á.
Gunnar Skúli Ármannsson, 4.1.2008 kl. 10:39
Sæll Björn, gott að vita að greinin mín hafði áhrif. Um ótta starfsfólks við að segja skoðanir er svolítið ýkt. Að minnsta kosti hvarflaði aldrei að mér að óttast yfirmenn mína.
Gunnar Skúli Ármannsson, 4.1.2008 kl. 10:51
Sæl Guðrún María, þegar þú ræðir um að tengja við árangur ertu þá að meina að greitt sé fyrir hverja aðgerð?
Unnið hefur verið að því á LSH á síðastliðnum árum að taka upp svokallað DRG kerfi. Þá fær spítalinn greitt ákveðið mikið fyrir hverja aðgerð. Þeas það er kominn verðmiði á vöruna. Því miður óttast ég að það kerfi verði aldrei notað því ríkið hefur hingað til geta verslað eins mikið hjá LSH og síðan neitað að borga þegar komið er að kassanum.
Gunnar Skúli Ármannsson, 4.1.2008 kl. 10:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.