19.12.2007 | 23:30
FRESTUN LANDSPÍTALANS.
Sif Friðleifsdóttir fyrrverandi Heilbrigðisráðherra var í 22 fréttunum í kvöld. Þar staðhæfir hún að núverandi Heilbrigðisráðherra ætli sér að fresta eða hætta við nýbyggingu Landspítalans. Ég verð því miður að taka undir með Sif og það gera margir starfsmenn Landspítalans. Á Landspítalanum hefur verið vaxandi ótti meðal starfsfólks um slík áform. Skortur á stefnu og ákveðinni framtíðarsýn mun valda upplausnarástandi á Landspítalanum. Ástæðan fyrir því er að starfsfólkinu finnst vinnuaðstaða sín svívirðilega léleg. Að það geti hvarflað að nokkrum manni að hægt sé að una þessu ástandi lengur virkar á okkur sem algjört virðingarleysi við okkur sem manneskjur og fagfólk. Að ný bygging væri væntanleg virkaði á okkur sem gulrót til að halda áfram að streða í þessum þrengslum. Ef sú gulrót fer verður eftir mikið tómarúm og þá skapast upplausn, því mig grunar að margir munu þá kveðja Landspítalann sem vinnustað.
Það sem snýr að sjúklingunum er enn ótrúlegra. Að ætlast til þess að veikustu Íslendingarnir þurfi að vera eins og síld í tunnu er með ólíkindum. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig þetta ástand getur viðgengist ár eftir ár. Nú hefur fólk heimsótt ættingja sína á spítalana í bænum og þess vegna legið þar sem sjúklingar. Því ætti mörgum að vera ljóst aðstöðuleysið þar. Samt sem áður rís ekki upp fjöldahreyfing til stuðnings Landspítalanum. Ég held að allir sjúklingarnir okkar séu svo fegnir að vera á lífi eftir vistina á Landspítalanum að þeir vilja helst gleyma öllu saman. Þar að auki mun sjálfsagt nýbyggingin ekki skapa neinum stjórnmálamanni nein atkvæði.
Ég held að fólk ætti að gera sér ferð á Landspítalann og skoða aðstæður sjúklinga. Ég held að það sé nauðsynlegt að Íslendingar velti vöngum yfir hvernig sjúkrahúsið þeirra eigi að vera. Ég tel að Borgarar þessa lands verði að vera meira meðvirkir og skipta sér af. Telur Íslendingurinn að 5 flokks aðbúnaður sjúklinga þegar kemur að húsakosti sé ásættanlegur. Að margir deili herbergi og salernisaðstöðu sem veldur smiti á milli einstaklinga og lengir sjúkrahúsdvöl þeirra. Því var skotið að mér í dag að klósettið í sendiráði Íslands í Japan hefði kostað 28 milljónir. Erum við ekki að forgangsraða vitlaust?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég ætla byrja á að segja að ég er sammála þér að húsakostur landsspítalans er til skammar, bæði fyrir starfsfólk og sjúklinga.
Ég tel samt að bygging nýja sjúkrahússins væri mikil mistök. Það er bara fáránlegt að vera að byggja sjúkrahús lárétt eins og teikningarnar segja til um. Það á að byggja sjúkrahúsin lóðrétt og losna þar með við ganga og ranghala. Það myndi stytta allar ferðir innan spítalans, þannig að skiptir ekki máli á hvað deild þú lægir það væri alltaf stutt á röntgendeild eða gjörgæsludeild eða hvaða deild sem er. Hagræðingin væri gífurleg við að hafa sjúkrahúsið praktískt, frekar en flott arkiteklega séð.
Ég get heldur ekki fyrir nokkurn mun skilið af hverju var farið í teiknisamkeppni um byggingu hússins. Það á að fá arkitekt sem er vanur teikningu á sjúkrahúsum til að teikna spítalann. En ekki einhvern sem teiknar svo flott að gamlir pólitíkusar fái fiðring í puttana til að fá að eyða skattpeningunum okkar.
Nýtt sjúkrahús þarf að koma, en það á að byggja það af skynsemi.
Mummi Guð, 19.12.2007 kl. 23:55
Sælli Mummi, ádeila þín á hönnun hússins er að hluta rétt. Ef þú skoðar vel þessa lengju á heimasíðu LSH þá er bara austasti þriðjungurinn spítali. Annað er Keldur og ýmsar Háskólastofnanir svo sem hjúkrun og læknaskóli. Margir hafa misskilið myndina sem öll lengjan væri sjúkrahús en svo er ekki. Það er aðallega einhver íslensk reglugerðarákvæði um dagsbirtu sem veldur lögun spítalans. Annars hefði hann verið teiknaður allt öðruvísi. Það sem skiptir mestu máli er að koma þessari byggingu upp sem fyrst og leggja til hliðar allar deilur um lögun eða staðsetningu. Í núverandi byggingu erum við að ná lakari árangri en ella og mikið verri þjónustu við sjúklingana. Lakari árangur þýðir mannslíf og heilsa, við höfum ekki efni á slíku.
Brynja Dögg, allt sem þú nefnir kemur mér ekki á óvart nema kvalirnar. Okkur á að takast að stilla kvalir og þykir mér það mjög miður að ekki skyldi takast betur til. Að öðru leiti er lýsing þín akkúrat eins og lífið gengur fyrir sig á Landspítalanum. Ertu hissa á því að ég undrist að viðskiptavinir okkar kvarti nánast ekki neitt, mér fyndist eðlilegra að fólk væri brjálað.
Gunnar Skúli Ármannsson, 20.12.2007 kl. 13:05
Sæll Gunnar Skúli.
Veit að allt þetta sem þú segir um mál sjúklinga á LSH er rétt og raunin er sú að umræða um þessi mál er þarft mál því hér er um að ræða þjónustustig þjónustu sem innt er af hendi fyrir skattfé landsmanna og skyldi vera sem skyldi.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 22.12.2007 kl. 02:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.