15.12.2007 | 21:06
Kamar á kjaft !!
Þetta er grein sem birtist eftir mig í Morgunblaðinu þ 13 des sl.
Landspítalinn-Kamar á kjaft. Það er tekist á um Landspítalann í Reykjavík nú sem oftar. Sitt sýnist hverjum. Að undanförnu hafa úrtölumenn verið fyrirferðamiklir í umræðunni. Þá á ég við einstaklinga sem sjá sér einhvern hag í því fyrir sig og þjóð vora að Landspítalinn verði ekki byggður eins og fyrirhugað er.
Í raun endurtekur sagan sig. Þegar Landspítalamálið var komið á rekspöl um aldamótin 18/1900 kom einkaframtakið og byggði Landakot. Varð það til þess að Landspítalinn byggðist seinna en ella. Nú heyrast raddir sem vilja byggja nýtt Landakot.
Eftir þrotlausa baráttu kvenna í upphafi 20 aldarinnar tókst loks að byggja Landspítalann. Mörgum fannst sú bygging á þeim tíma allt of stór. Hljómar kunnulega. 6 mánuðum eftir að Landspítalinn opnaði árið 1930 var hann fullsetinn og hefur verið það síðan og rúmlega það.
Það virðist vera sem sumir telji það mjög nauðsynlegt að starfsfólk sem vinnur á Landspítalanum sé ekki ofurselt einum atvinnurekenda. Ég get svo sem tekið undir það grundvallarsjónarmið. Ég tel þó ekki bestu lausnina á því vandamáli að fresta nýbyggingu Landspítalans í þeirri von að geta byggt einkaspítala við hliðina.Til að fjölga atvinnurekendum þá mætti vel hugsa sér að einkaaðilar sæju um rekstur spítalans þó ríkið byggi hann. Það má vel hugsa sér nokkra atvinnurekendur í sama húsi. Ég bendi bara á Kringluna sem dæmi.
Það er í raun mjög alvarlegt að stuðla að seinkun á nýbyggingu Landspítalans. Í fyrsta lagi er það aðbúnaður sjúklinga. Þegar við förum að heiman í ferð, þessir venjulegu Íslendingar, þá gistum við á Hóteli með einkakamar, sturtu og vask. Þegar við svo veikjumst svo alvarlega að við þurfum leggjast á Landspítalann þá er farfuglastandard við hæfi. Það eru margir saman í herbergi og ekki fáum við neinu um það ráðið hver hrýtur við hliðina á okkur. Oft á tíðum liggjum við á göngunum þar sem ókunnugir geta fylgst með þegar við þjáumst af verkjum og kvíða, blóðprufur teknar úr okkur eða verið að skoða okkar leyndustu líkamshluta. Nei það er sennilega skárra að gista á farfuglaheimili. Við þurfum að bíða eftir að komast í vask til að bursta í okkur tennurnar og sama gildir um klósettferðir. Okkur finndist þetta óþolandi ástand á Hóteli. Ferðamenn lenda eingöngu í þessum aðstæðum þegar þeir lenda á jarðskjálftasvæði eða þar sem aðrar miklar náttúruhamfarir hafa gengið yfir. Þá skal það ekki bregðast að allir fjölmiðlar eru komnir á staðinn og söfnunarbaukarnir af stað í bænum okkar.
Hér í Reykjavík er þetta hlutskipti sjúklinga Landspítalans á degi hverjum.Öllum finnst þetta í góðu lagi. Það er í raun með ólíkindum. Stundum heldur maður að það sé svæsin afneitun í gangi, það séu einhverjir allt aðrir en við sem liggjum á Landspítalanum og því kemur okkur þetta alls ekki við.
Góðir Íslendingar, það erum við sem liggjum á Landspítalanum. Það erum við sem notum sama skítakamarinn með hinum Íslendingunum, nokkuð sem við sættum okkur ekki við á Hóteli. Þegar við erum veikir og þjakaðir er mótstaðan gegn sýkingum nánast engin og að deila herbergi og kamar með öðrum leiðir bara til þess að enn fleiri sýkjast. Svonefndar spítalasýkingar Viðhorfið í þjóðfélaginu gagnvart spítalasýkingum er þannig að það er mikið ólán að verða fyrir henni en einhvern veginn ekki umflúið, svona eins og slæm örlög, það bara gat ekki farið öðruvísi úr því að hann lagðist nú inn á þennan spítala...
Sagan endurtekur sig í sífellu. Um 1840 var maður að nafni Semmelweis í Vín í Austurríki sem taldi það minnka tíðni barnsfarasóttar að læknar þvæðu hendurnar áður en þeir tækju á móti börnum hjá fæðandi konum. Sérstaklega með tilliti til þess að þeir komu beint úr líkhúsinu þar sem þeir höfðu krufið berhentir látnar konur úr barnsfararsótt. Á þeim tíma var það einnig talin slæm örlög að lenda á viðkomandi fæðingardeild. Semmelweis hafði rétt fyrir sér en missti vinnuna að lokum vegna hugmynda sinna.
Árið 2007 förum við Íslendingar fram á það í Semmelweiskum anda að fá KAMAR Á KJAFT í nýja súkrahúsniu okkar svo við þurfum ekki að týna tölunni vegna einhverra slæmra örlaga. Eftir því sem byggingu nýs spítala seinkar sýkjast og deyja fleiri Íslendingar að nauðsynjalausu. Vonandi missr enginn vinnuna sína vegna þessara hugmynda. Ég held nú að atvinnuöryggi sé meira á Landspítalanum í dag en var í Vín á dögum Semmelweis, jafnvel þó annað megi skilja á fullyrðingum sumra.
Margt annað en förgun óæskilegra sýkla væri hægt að týna til sem rökstuðning fyrir byggingu nýs sjúkrahúss.
Ég vil bara nefna einn hlut til viðbótar. Það er talið að með því að koma allri starfsemi í eitt hús sem núna er á mörgum stöðum í bænum sparist 10% af rekstrarkostnaði spítalans á ári. Það gerir rúma ÞRJÁ MILLJARÐA á ári!! Geri önnur fyrirtæki betri díl. Það segir okkur að án tillit til hversu mikið spítalinn kostar þá mun hann fyrr eða síðar standa upp úr mýrinni okkur Íslendingum algjörlega ókeypis, hann mun borga sig upp sjálfur. Ef ég gæti byggt yfir mig húsnæði á þessum kjörum myndi ég hefjast strax handa. Eftir hverju eru menn eginlega að bíða?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.12.2007 kl. 22:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.