Að búa í besta landi í heimi.

Það er best að búa á Íslandi, það var og. Mælistikan er hámarksaldur, þjóðartekjur á mann og menntun.

Ef þjóðmálaumræðan undanfarin ár er höfð til viðmiðunar og borin saman við fyrrnefnda mælistiku kemur margt skondið í ljós. 

Samkvæmt þjóðmálaumræðunni þá er alls ekkert gaman að verða gamall á Íslandi. Yfirfull elli- og hjúkrunarheimili. Langir biðlistar og eldri borgarar liggja nánast ósjálfbjarga heima hjá sér vegna skort á úrræðum. Þegar inn á hjúkrunarheimili er loksins komið tala allir tungum sem gamla fólkið skilur ekki neitt í og heldur því að það sé komið á aðra plánetu. Til hvers að verða gamall í besta landi í heimi?

Hvernig öflum við allra þessara þjóðartekna. Jú við vinnum myrkranna á milli, oft á tíðum á 2-3 vinnustöðum samtímis. Allir á heimilinu vinna úti, bæði konan og maðurinn. Börnin líka þó þau séu í skóla. Fólk er svo mikið í vinnunni að það ætti bara að gista þar því þá slyppi það við að halda heimili. Hvað er svona gaman við það að vinna í besta landi í heimi?

Menntun, erum við með góða menntun? Sjálfsagt ef þeir meta það svo. Mikið hljóta þá hinir að vera slappir. Kennaramenntun er svívirt á þessu landi. Ef talið berst að kennurum í þjóðmálaumræðunni þá er þeim oftast talið til tekna að þeir vinni bara hlut úr degi og part af ári. Kerfisbundinn áróður sem atvinnurekandinn hér á árum áður kom rækilega til skila til að halda kaupi þeirra niðri. Enda tókst það með ágætum. Í dag getur 16 ára gríslingur haft meira kaup en kennari fyrir hlutastarf. Mikið hlýtur að vera gefandi að vera kennari og nemandi í besta landi í heimi.

Ég held að fyrrnefnd mælistika segi ekkert til um hversu gaman eða gott er að búa á Íslandi. Án þess að ég þekki neitt til þeirra landa sem eru neðst á listanum þá getur vel verið að þegnar þeirra landa lifi mun hamingjusamara lífi en við. Þeir lifa kannski skemur en betur.

Ég hallast að því að við höfum gert ein grundvallar mistök. Fyrir 100-200 árum síðan var einhver sem hugsaði um gamla fólkið og börnin. Því þá var einhver heima allan daginn. Síðan voru heimilin plötuð því það sem einn aflaði áður þurfa tveir að vinna fyrir í dag. Margt væri öðruvísi í dag á Íslandi ef ein fyrirvinna væri reglan. Það myndi leysa mörg af þeim þjóðfélagsvandamálum sem við erum að glíma við í dag. Að sjálfsögðu gæti sá aðilinn sem er heima allt eins verið karlkyns, að minnsta kosti kynni ég að meta slíkt hlutskipti. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Góð hugleiðing Gunnar Skúli.

Er þér inniega sammála .

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 30.11.2007 kl. 02:04

2 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Ég var heima með mína stráka þegar þeir voru litlir. Tók að mig minnir út 6 mánaða fæðingaorlof hér í Svíþjóð. Auðvita kemur það niður á tekjunum. En þetta er allt saman spurning um val. Margir velja peninga fram yfir lífsgæði og tengsl við börnin sín - og það finnst mér sorglegt.

Ásgeir Rúnar Helgason, 2.12.2007 kl. 21:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband