26.11.2007 | 23:52
Offita og einstaklingsframtakið.
Offita kostar peninga, meðal annars. Það kemur fram á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Ég hef rætt þetta nokkrum sinnum áður hér á bloggsíðu minni. Þetta er þjóðfélaginu dýrt en um leið mjög snúið vandamál. Ekki er um neinar töfralausnir að ræða. Ef haft er í huga að stór hluti ríkisútgjalda muni fara í offitu innan fimmtíu ára þá er um að ræða stórt og alvarlegt vandamál. Það væri ekki gott að þurfa að fresta vegaframkvæmdum, skólabyggingum og öðrum mikilvægum framkvæmdum vegna kostnaðar við offitu. Í það stefnir.
Sem fyrr segir lausnin er ekki einföld. Sumir myndu segja að borða minna og brenna meiru, en svo einfalt er það ekki, því miður. Ég held að grundvallaratriði sé að reyna að hafa áhrif á hraðan og firringuna í samfélagi voru. Við höfum alltof miklar kröfur á okkur sjálf og væntingar. Til þess að geta fylgt eftir öllum okkar væntingum um hið fullkomna líf hér á jörðu þurfum við að vinna myrkranna á milli. Fyrir vikið höfum við ekki tíma né þrek til að sinna okkar eigin skrokki.
Ef stjórnvöld ætla að gera eitthvað annað en að koma inn hjá okkur sektarkennd vegna þyngdar okkar þá ættu þau að einbeita sér að því að skapa okkur skilyrði til að sinna líkamsrækt. Þegar fyrirtækjaskattur var lækkaður var hugmyndin að þau fengju ráðrúm til að blómstra, og þau gerðu það. Stjórnvöld verða að hafa sömu trú á einstaklingsframtaki þegar kemur að offitu. Ef okkur eru sköpuð góð skilyrði til að léttast þá gerum við það. Halda stjórnvöld kannski að við séum algjörir asnar?
Við þurfum tíma og gott kaup. Styttri vinnudag. Betri barnapössun. Minna kaupæði. Hæglæti í lífi og starfi. Ef þetta verður almennt þá verður það ekki bara hlutskipti hinna ríku að vera grannir. Ef svo fer þá þarf að hækka skatta á þeim til að borga heilsubrestinn hjá okkur fitubollunum sem geta ekki unnið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.