31.10.2007 | 23:14
Íslenskukennsla.
Það var í fréttum í gær mjög jákvæð frétt. Oftast eru fréttir einhverjar hörmungasögur og draga mann bara niður. Það er sennilega ákaflega sorglegt að vera fréttamaður.
Í gær var sagt frá því að á Austurlandi, ég held Eskifirði, tóku eldri borgarar sig til að kenna nýbúum íslensku. Þar svöruðu þeir brýnni þörf. Það hefur verið augljóst öllum að nýbúar hafa átt í vandræðum með að tileinka sér íslenska tungu. Íslenska er heldur ekkert venjulegt mál, segjum við að minnsta kosti. Í þessari kennslu fer margt annað fram en bara lítill og stór stafur. Hér gefst nýbúum tækifæri til að kynnast íslenskri menningu frá fyrstu hendi. Þessir lífsreyndu Íslendingar, eldri borgarar, hafa frá mörgu að segja. Auk þess vissa víðsýni sem reynslan gefur. Hér held ég að við séum komin með fyrirmyndar fyrirbæri. Við komum á ákjósanlegri kennslu í íslenskri tungu og menningu. Nýbúarnir koma fram með sína sýn á okkur hinum Íslendingunum sem eldri borgarar geta miðlað okkur. Einnig fræðumst við um menningu annarra. Að lokum þá hafa eldri borgarar fengið viðamikið hlutverk.
Það sem er sorglegt við þessa frétt er að hún er sorgleg að vissu marki. Það er eins og fréttamennska geti aldrei verið alveg gleðileg. Sorgin er sú að þrátt fyrir alla okkar skatta, öll loforð um góða íslenskukennslu fyrir nýbúa þá er það einstaklingsframtakið sem ætlar að bjarga hinu opinbera frá skömm og hneisu. Enn á ný eru það einstaklingar sem sjá möguleikana. Það er í sjálfu sér ekki neitt sérkennilegt í ljósi getuleysis hins opinbera, því miður.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Frábært að heyra Gunnar Skúli þ.e. varðandi þetta framtak fólks fyrir austan, sannarlega jákvætt.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 1.11.2007 kl. 00:02
Gott framtak að vísu og skemmtilegt innlegg í tilveru þessa aldraða fólks.
Alveg væri ég til í að sitja með rússneska súludansmey á hnénu og kenna henni fáein bráðnauðsynleg orð og setningar.
Eða telpukorn af afrísku bergi brotna og þá mundi ég raula við hana: -Björt mey og hrein- mér unni ein á Ísa-köldu landi....! Er það ekki mansöngur eftir austfirskan prest?
En svona í alvöru talað.
Eruð þið ekkert hrædd um að þessir nýbúar verði svolítið flámæltir við svona kennslu? Austfirðingar tala aldrei um vitið, bara um vetið.
Árni Gunnarsson, 1.11.2007 kl. 13:16
Sæl bæði tvö, ég hef ekki miklar áhyggjur Árni af framtíðarframburði nýbúanna. Ég held hann geti bara skánað. Þar að auki held ég að þú munir eingöngu miðla góðum áhrifum hvar svo sem þeir tilla sér niður, nemendur þínir.
Það sem mér var hugsað til að í kosningabaráttunni sl vor kepptust allir um að lofa svo mikilli íslenskukennslu að það stefndi í að allir nýbúar með tölu fengju ekki lægra en 9,5 í jólaprófum í MR.
Gunnar Skúli Ármannsson, 1.11.2007 kl. 21:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.