9.10.2007 | 20:57
Sjalftökuréttur á laun og verðmætamat.
Sjálftökuréttur á laun er hugtak sem gengur út á það að starfsmaðurinn sjálfur skammtar sjálfum sér laun. Þetta hefur verið rætt stundum innan míns hóps í vinnunni. Það er þannig að við notum stimpilklukku. Þrátt fyrir að stimplunin sýni að við höfum unnið fram yfir hefðbundinn dagvinnutíma þá fáum við það ekki greitt. Ástæðan er sjálftökuréttur. Samkvæmt því þá á starfsmaðurinn ekki að geta skammtað sér laun með því að hanga fram eftir og fá þannig yfirvinnu. Eins og við séum leika okkur að því hanga í vinnunni, maður hefur nóg annað að sýsla.
Þegar kemur að Orkuveitunni í Reykjavík þá gilda allt önnur lögmál. Þar skammta menn sér laun og kaupauka, sennilega í takt við væntanlega eyðslu. Ákaflega hentugt. Samkvæmt kvöldfréttatíma sjónvarpsins þá virðist þetta hafa valdið mönnum innan OR/REI einhverjum smá heilabrotum. Fyrst áttu margir að fá mjög mikið. Svo rifa menn seglin óvænt og aðeins færri fá aðeins minna en ráð var fyrir gert. Hvaðan siðferðisvitundin kom er mér hulin ráðgáta. A.m.k. var hún ekki jafn sterk og þjóðarinnar. Þeim til mikillar undrunar varð fjandinn laus.
Það er umhugsunarefni þetta verðmætamat í þjóðfélaginu. Fólk sem er að hugsa um manneskjur fær nánast ekkert greitt fyrir sína vinnu. Það væri kannski ráð að setja peninga inn í skólastofur landsins í stað barnanna okkar. Að setja peninga í rúmin á sjúkrahúsunum í stað sjúkra Íslendinga. Það yrði strax mun fínna job. Launin hlytu að hækka. Ég bara spyr.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill Gunnar Skúli.
Verðmætamat brenglaðist við þá gjörð að gera óveiddan fisk á þurru landi að söluvöru á sínum tíma og þeim loftbólupeningum sem hið háa Alþingi kom þar í umferð með sinni ákvarðanatöku og ekki fennir í sporin um.
Samanburðahagfræðin hefur síðan litað allt samfélagið meira og minna að mínu viti þar sem raunvirði starfa við grunnþjónustu við almenning hafa setið á hakanum og gera enn með tilheyrandi hnignu þjónustu og skorti á slíku.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 10.10.2007 kl. 02:56
Það virðist inngróið í sálir flestra sjálfstæðismanna að þegar fyrirtæki í eigu almennings séu orðin einhvers virði þá eigi umsvifalaust að einkavæða þau.
Vel rekið fyrirtæki á umsvifalaust að "frelsa" frá eigendunum og einkavæða.
Þessi speki er kjarni frjálshyggjunnar og þar með trúarbrögð.
Núna í dag tekur stjórnmálafræðineminn Gísli Valdórsson sig til og skrifar föðurlega ádrepu í Moggann. Þessa eldmessu tileinkar hann Grétari Mar Jónssyni og trúir því greinilega sjálfur að hann viti allan sannleika í ferli fiskveiðistjórnunar á Íslandi en allur sá sannleikur hafi bara farið framhjá Grétari Mar.
Miklu nær hefði Gísli þessi komist sannleikanum hefði hann keypt sér auglýsingu á Stöð 2 og öskrað: Ég heiti Gísli Valdórsson og er nemandi í stjórnmálafræði auk þess að vera oflátungsfullur bjáni!
Árni Gunnarsson, 12.10.2007 kl. 00:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.