Hátæknisjúkrahúsið okkar allra eða góður kamar.


Þetta er myndin sem flestir sjá þegar rætt er um nýbyggingu Landspítalans. Einhver fékk þá hræðilegu hugmynd að kalla sjúkrahús allra landsmanna "hátæknisjúkrahús". Ég lýsi hér með eftir viðkomandi svo við starfsmenn Landspítalans getum tjargað og fiðrað viðkomandi. Þetta orð "hátæknisjúkrahús" hefur valdið okkur mjög miklum búsifjum og er þá ekki mikið sagt. Það hefur virkað mjög neikvætt á alla umræðu og margir Íslendingar hafa sett sig upp á móti nýbyggingunni eingöngu á þeirri forsendu sem þetta orðskrípi gefur þeim. Við sem störfum á Landspítalanum höfum þurft að eyða mikilli orku í að sannfæra fólk um nauðsyn nýs spítala vegna þessa orðs.

Árið 1930 var Landspítalinn opnaður. Þá höfðu íslenskar konur safnað peningum hjá þjóðinni fyrir honum. Á þeim árum var ekki mikill skilningur á því að reisa sjúkrahús, stórt og fullkomið fyrir Íslendinga hjá ráðamönnum þjóðarinnar. Til allra hamingju fyrir íslenska þjóð voru langömmur okkar framsýnni en þeir. Ég ætla rétt að vona að sagan þurfi ekki að endurtaka sig að þessu leitinu aftur.

Árið 1930 var Landspítalinn búinn fullkomnustu tækni sem Íslendingar höfðu völ á þeim tíma. Þannig er því farið enn þann dag í dag. Þannig ætlum við að hafa það framvegis, því Íslendingar vilja ekki hafa það öðruvísi. Landspítalinn hefur alltaf verið hátæknisjúkrahús. Það er öllum augljóst sem velta málunum fyrir sér í smá stund. Því er það tóm tjara að fara að kalla Landspítalann í dag hátæknisjúkrahús.

Þegar horft er á þessa tölvugerðu mynd er gott að hafa í huga að aðeins hluti bygginganna fer undir spítala. Stór hluti er fyrir starfsemi Háskólans og rannsóknarstofuna á Keldum. Auk þess er verið að sameina tvö sjúkrahús í eitt.

Sumum finnst hann dýr. Sama sögðu menn 1930. En í dag vilja allir Lilju kveðið hafa. Langt mál um skammsýni.

Að lokum tek ég einfalt dæmi sem allir ættu að skilja. 6 sjúklingar saman á stofu með einn kamar til sameiginlegra nota. Allir nýskornir, áætluð vist 4-8 dagar á spítala. Einn sem er töluvert veiklaður fyrir kemur sér upp slæmri sýkingu í skurðsári af spítalabakteríu. Hann smitar hina. 3 sem eru sterkir og komast heim "aðeins" 3-5 dögum of seint. Reyndar tefur þetta þá um 1-2 vikur að komast í vinnu aftur. 2 veikjast mjög mikið og annar er á gjörgæslu í 10 daga og á sjúkrahúsinu í 3 mánuði. Hann og sá veiklaði verða aldrei aftur vinnufærir.

Að allir séu á einbýli með sinn kamar hver á nýja sjúkrahúsinu okkar mun spara þennan kostnað. Sá sparnaður mun greiða upp kostnaðinn við nýbygginguna. Þetta er nú öll hátæknin. Góður kamar.

Að lokum sá sjötti dó vegna sýkingarinnar, því er öll umræða um nýja Landspítalann dauðans alvara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Áhugaverðar pælingar. Við í flokknum ættum að halda smá umræðuþing um heilbrigðismál nú á haustdögum eða í vetur. Þar gætir þú haldið innlegg um þennan nýja spítala. Er það ekki?

Ég get vel trúað því að nafnið "hátæknisjúkrahús" hefur ruglað umræðuna mjög. Íslenskum pólitíkusum hættir svo til að finna hátíðlega orðaleppa á hlutina þegar þeir eru að lansera hugmyndum sínum. Orðskrípið "mótvægisaðgerðir" er nýjasta dæmi um það. Þar er réttasta hugtakið sem ég hef fundið "kvótakreppustyrkur".

Bestu kveðjur til Ungverjalands.

Magnús Þór Hafsteinsson, 24.9.2007 kl. 23:39

2 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Þökk fyrir áhugann á málefninu. Ég er til í að ræða þessi mál hvenær sem er.

Kvóta-kreppu-styrkur, gott orð, KKS aðgerðir, tvöfalt hálfkák, eða þannig sko.

Gunnar Skúli Ármannsson, 25.9.2007 kl. 06:59

3 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl öll, var að koma frá Ungverjalandi þar sem ég var að heimsækja son minn sem er þar í námi.

Eins og þið gerið ykkur fulla grein fyrir þá snýst þetta nýja sjúkrahús um sjúklingana fyrst og fremst. Hvað sem líður öllum prívat skoðunum á nýju sjúkrahúsi þá munu bara fleiri Íslendingar líða fyrir ófullkomnar aðstæður í gamla húsinu. Því er nauðsyn að koma nýju byggingunni upp sem fyrst öllum Íslendingum til hagsbóta. 

Gunnar Skúli Ármannsson, 30.9.2007 kl. 21:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband