31.8.2007 | 23:07
Fóstureyðingar og önnur tilboð.
Það hefur verið nokkur umræða um fóstureyðingar á blogginu eins og oft áður. Spurningarnar eru mjög áhugaverðar, aðallega vegna þess að þeim er vandsvarað. En í raun er skemmtilegast að velta fyrir sér þeim sem tjá skoðanir sínar því mannskepnan setur óneitanlega sterkan svip á tilveru okkar.
Mörgum reynist auðvelt að mynda sér skoðun og byggja þær á mismunandi forsendum. Líf mitt er ekki jafn auðvelt.
Eftir því sem ég veit best þá eru það tveir aðilar sem taka ákvörðun um fóstureyðingu. Annars vegar er það móðirin og hins vegar læknirinn.
Móðirin þarf að vega og meta sína valkosti. Ef hún er illa stödd fjárhagslega eða félagslega þá veit hún að ef hún eignast barnið þá mun staða hennar versna því ekki er um mikla samfélagslega hjálp að ræða. Ef hún fær að vita að hún beri fatlað barn undir belti er það sama upp á teningnum því þrautarganga foreldra fatlaðra barna má lesa um í dagblöðum með jöfnu millibili. Ef til vill finnst sumum að mæður fái nægjanlega aðstoð eins og hlutunum er komið fyrir í dag. Það getur varla staðist, því að minnsta kosti virðist sá "pakki" ekki seljast vel. Um það vitnar fjöldi fóstureyðinga. Ég held að lang flestar konur upplifi fóstureyðingu sem óafturkræfa og hræðilega aðgerð. Væri ekki hægt að gera konum í þessari stöðu betra tilboð með mun betri foreldraaðstoð þannig að val þeirra yrði annað en oft er raunin í dag?
Svo eru það blessaðir læknarnir. Ef það var einhvertíma hugsunin að þeir væru sérstakir gæslumenn fóstursins þá hefur það algjörlega mistekist. Málið er að það er móðirin sem situr fyrir framan þá og engist um í kvöl og pínu eftir að hafa tekið sína ákvörðun. Við það verður læknirinn hlutdrægur og um leið óhæfur sem einhver hlutlaus aðili.
Að ætla sér að fækka fóstureyðingum með bönnum er vafasöm leið því markaðurinn svarar alltaf eftirspurninni með einhverjum ráðum. Líf íslensku þjóðarinnar virðist snúast að mestu leiti í dag um að græða á öllum sköpuðum hlutum, nema börnum. Hvernig væri nú að gera íslenskum foreldrum gott tilboð SEM ER BARA EKKI HÆGT AÐ HAFNA.
Við höfum þetta allt í höndum okkar, ekki satt?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Frábær færsla. Ekki síst af lækni.
Jens Guð, 1.9.2007 kl. 00:16
Frábær færsla. Ætla að benda góðum mönnum á hana. Góðum mönnum sem eru fastir öðru megin þilsins.
Halla Rut , 1.9.2007 kl. 01:01
Þakka ykkur báðum fyrir góð orð. Halla Rut, var að kveikja á því að makar okkar eru frændsystkin. Inga og tengdó eru systur. Þ.e.a.s. við sitjum bæði í sömu súpunni.
Gunnar Skúli Ármannsson, 1.9.2007 kl. 01:17
Já, ég sé það núna að hún Sjöllý (hvernig er þetta eiginlega skrifað) er á myndinni hjá þér. "sterk súpa"
Halla Rut , 1.9.2007 kl. 01:21
Já þetta er góð súpa sem reyndar hefur haldið í mér lífinu árum saman.
Jens: "ekki síst af lækni" ég er ekki móðgaður því ég þekki mitt fólk. Ég gæti bloggað margar færslur um starfsfélaga mína. Við eigum það bara inni þangað til síðar.
Gunnar Skúli Ármannsson, 1.9.2007 kl. 01:35
Ég held að Jens hafi verið að meina að þetta væri "markverðara" af því að þetta kæmi frá lækni. Honum fanst gott að að þetta kæmi fram af lækni og þeim sem veit um málið frá fyrstu hendi.
Halla Rut , 1.9.2007 kl. 02:09
Já það er rétt hjá þér Halla. Þegar er að bjóða Jens upp á bloggfærslur af samstarfsmönnum mínum er ég fyrst og fremst að hugsa um góðar skemmtisögur og þvíumlíkt. Því eins og við vitum erum við ekki gallalausir.
Gunnar Skúli Ármannsson, 1.9.2007 kl. 13:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.