19.8.2007 | 20:36
Sicko-II
Enn er ég að hugsa um þessa kvikmynd. Það kom fram í henni að lýðræðið væri orsök fyrir ókeypis heilbrigðisþjónustu. Það væri í raun eðli þeirra sem hafa peningana að halda í þá og deila þeim ekki. Þegar kosningaréttur kom til þá færðust völd til þeirra sem hafa enga peninga en bara kosningarétt, þeas ef þeir nota kosningaréttinn sinn. Því er það þannig í Frakklandi þegar þeir fara í mótmælagöngur, fara í verkföll og brenna bíla þá sýna þeir vald sitt sem væntanlegir kjósendur. Þá þorir ekki yfirvaldið annað en að útdeila þeim ókeypis heilbrigðisþjónustu, meðal annars.
Þetta var svolítið áfall fyrir mig. Ekki það að ég sé neitt á móti lýðræði eða þannig sko. Ég er því mjög fylgjandi. Ég hélt bara að lýðræði væri líka í Bandaríkjunum. Eftir að hafa horft á þessa kvikmynd er ég í vafa. Hið virka lýðræði gengur út á það að við hömumst í okkar kjörnu fulltrúum svo þeir sinni okkar málum. Í Bandaríkjunum er hamast í hinum kjörnu fulltrúum. Ekki af kjósendum. Í raun er kosningaþátttaka svo léleg í Bandaríkjunum að hún er varla marktæk. Þeir sem hamast mest í hinum kjörnu fulltrúum eru þeir sem hafa mikla peninga. Þeir kaupa þá til að fara að vilja sínum. Þetta stafar af því að kosningarétturinn hefur ekki fært til valdahlutföllin í Bandaríkjunum. Það eru svo fáir sem kjósa, það eru svo fáir sem eiga um sárt að binda sem kjósa og þar að auki hafa þeir ekki neinn valmöguleika til að kjósa. Því er það þannig að þeir sem eiga um sárt að binda kjósa ekki neitt því þeir hafa ekkert að kjósa. Því hafa þeir ekki nein völd. Því eru þeir ekki nein ógn fyrir hinar ráðandi stéttir.
Því er Sicko góð mynd, hún fær mann til að hugsa. Hvernig er ástandið hérna heima? Er það skárra? Hvert stefnum við, er ekki eitthvað að varast. Þurfum við ekki að halda vöku okkar og styrkja hið virka lýðræði á allan hátt.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.