19.8.2007 | 00:14
Sicko.
Ég var að horfa á myndina Sicko eftir Mr. Moore. Mér fannst hún stórkostleg, sorgleg og svakaleg. Mér fannst hún stórkostleg því sem kvikmynd var hún vel gerð. Mér fannst hún einnig stórkostleg því sem áróðursmynd var hún vel gerð. Örugglega hefur Mr. Moore eins og venjulega gengið hreint til verks og ákveðið að sýna okkur gaumgæfilega það sem hann vill að við sjáum. Því er þetta ekki fræðslumynd í þeim skilningi.
Hvað sem því líður, þó að við deildum 2, 5, 10 eða 100 í sannleiksgildi þessarar kvikmyndar þá er hún eftir sem áður sorgleg og svakaleg. Vandamálið fyrir andstæðinga þessarar myndar er að hún fellur ekki í grýttan jarðveg. Hún fellur í frjósaman jarðveg. Allir hafa heyrt sögur um greiðslufyrirkomulag bandaríska kerfisins. Í sjálfu sér er heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna mjög gott, ef þú getur borgað fyrir það. Læknisþjónusta er mjög góð og öll tæki og tól til staðar. Því fellur þessi umræða frekar undir félagsmál en heilbrigðismál. Ef þú ert borgunarmaður fyrir þeirri þjónustu sem þú þarft á að halda þá færðu sennilega bestu þjónustu sem völ er á í heimi hér.
Það er þetta millistig, borgunin. Um það snýst málið. Stundum hefur reynst erfitt fyrir okkur heilbrigðisstarfsmenn að sækja fé til hins opinbera fyrir því sem við teljum nauðsynlegt. Þá hafa sumir sagt að best sé að innleiða bandaríska kerfið. Þá losnum við við þetta opinbera apparat sem skammtar okkur peningana. Í staðinn gætum við rekið okkar starfsemi eins og hvert annað bifreiðaverkstæði. Þá kæmu bara þeir sem ættu efni á að gera við sig og við gætum rukkað eins og við vildum. Hljómar vel fyrir mína buddu. Vandamálið er þessi samfélagslega samviska. Jú, ef heilbrigðisþjónusta er ókeypis eða því sem næst þá verður heilsa þjóðarinnar betri. Því verður heildarkostnaðurinn fyrir þjóðfélagið minni. Það kom fram að heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum er eitt það dýrasta í heimi en alls ekki það besta.
Þetta kom allt mjög vel fram í kvikmyndinni. Því verður mjög athyglisvert að sjá viðbrögð þeirra sem eru ekki henni sammála. Reyndar held ég að þögnin muni drepa þessa mynd. Ég held að ekkert muni gerast í kjölfar hennar í Bandaríkjunum.
Meginflokkur: Kvikmyndir | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.