16.8.2007 | 00:31
Gömul fótbrotin kona.
Fyrir all nokkrum árum síðan var ég læknanemi. Ætli þetta viðtal hafi ekki átt sér stað sem ég ætla að segja frá uþb árið 1984.
Ég var að taka sjúkrasögu af gamalli konu frá Vestfjörðum. Ekki man ég hvers vegna hún var komin á Landspítalann í þetta skipti. Ef ég man rétt þá var hún frá Barðastrandarsýslu. Róleg og yfirveguð kona.
Ég tók eftir því að annar ökklinn á henni var illilega skakkur og hafði hún greinilega gengið á jarkanum alla æfi. Ég spyr að sjálfsögðu hvernig standi á þessu. Jú sjáðu til ungi maður, segir hún, ég fótbrotnað þegar ég var 9 ára gömul. Við vorum bændur. Faðir minn bar mig inn í rúm. Hann setti síðan tvær fjalir sitt hvoru megin við brotinn ökklann og batt svo snæri umhverfis fótlegginn. Þarna lá ég síðan þangað til að ég var gróin. Því miður greri brotið svolítið skakkt en það hefur ekki komið svo mikið að sök því gengið hef ég getað allar götur síðan þá.
Þarna sat ég opinmyntur stúdentsræfillinn og reyndi að skynja og skilja hlutskipti fyrri kynslóða. Spurningarnar hringsnerust í höfðinu á mér. Sú fyrsta sem hrökk út úr mér eins og popp korn fannst mér mjög gáfuleg, en það kom svo síðar í ljós að svo var ekki.
HVAÐ SAGÐI LÆKNIRINN? spurði ég.
HVAÐA LÆKNIR? spurði gamla konan.
Nú hófust heilabrot í kolli mínum fyrir alvöru. Bíddu nú við þau kölluðu semsagt ekki á lækninn.
Þá kom næsta vísindalega úthugsuð spurning frá mér. Kölluðuð þið ekki til lækni þegar þú brotnaðir?
Sú gamla svaraði: TIL HVERS?
Nú var mér öllum lokið, til hvers? Jú en var þetta ekki óskaplega sárt hélt ég áfram, í þeirri vona að ná þræðinum aftur.
Sú gamla svaraði; AÐ SJÁLFSÖGÐU.
Þarna sat ég við rúmstokk þessarar öldnu konu frá einhverju allt öðru tilverustigi en ég sjálfur tilheyrði. Ég barðist við að ná áttum. Hægt og hægt rann upp fyrir mér ýmsar staðreyndir í þessu sérkennilega sakamáli. Því að í dag hefði þessi atburður orðið sakamál hjá barnaverndarnefnd.
Þegar ég svo skildi þetta þá var það þannig að ekki þurfti að kalla til lækni þar sem sjúkdómsgreiningin var augljós. Stúlkan var fótbrotin, það var deginum ljósar og því engin þörf fyrir lækni. Sömuleiðis var meðferðin á færi heimamanna og því ekki nauðsynlegt að kalla til lækninn.
Að beinbroti fylgdu kvalir var sjálfgefið og engin þörf á því að gera veður út af því. Það var bara hluti af lífinu að finna til og kveljast. Að lifa af og komast aftur á fætur var bara vel sloppið. Þessi gamla kona kenndi mér margt þó ég muni alls ekki hvers vegna hún kom til okkar á Landspítalanum.
Síðan ég átti þetta viðtal hef ég oft velt því fyrir mér hvort við getum farið fram á það að finna aldrei til. Allar kynslóðirnar á undan okkur fundu til. Ekki fóru þær í hundana því þá værum við ekki til. Getur verið að við förum í hundana vegna þess að við finnum aldrei til?
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Menning og listir, Stjórnmál og samfélag, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:14 | Facebook
Athugasemdir
ÆÆ erum við nú að fara í hundana... Skrýtið orðatiltæki sem ég hef aldrei skilið almennilega. En þessi sorglega saga er nú saga þjóðarinnar sem braust af hörku frá þjáningum til dekurs auðæfa og velsældar og fer til læknis ef hún finnur til..;),
Kolbrún Stefánsdóttir, 18.8.2007 kl. 02:08
Sæl Kolbrún, þetta sögukorn mitt snýst ekki un verki sem eiga sér ekkert heimili. Verkir sem við vitum ekki orsökina fyrir hafa alltaf valdið kvíða og leitt fólk til að leita sér hjálpar. Það hefur ekki breyst og mun aldrei breytast. Aftur á móti var það þannig áður ef fólk vissi orsök verkjanna þá var það í sjálfu sér ekki ástæða að leita sér hjálpar bara vegna verkjanna. Það hefur breyst og mínar vangaveltur eru hvort við getum gert þær kröfur til lífsins, frá vöggu til grafar, að það sé sársaukalaust.
Gunnar Skúli Ármannsson, 18.8.2007 kl. 20:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.