14.8.2007 | 23:02
Strætó og nútímafólk.
Það er þetta með strætó. Ég er sennilega með þessa vagna á heilanum. Sennilega vegna þess að þeir eru oftast tómir. Nú á að reyna að hressa upp á þetta allt saman. Í staðinn fyrir ferðir á 30 mínútna fresti þá munu sumar leiðir aka á 15 mín fresti. Það má taka kaffi með sér í vagnana. Námsmenn fá frítt. Þá er það upptalið.
Ég held að frír aðgangur fyrir námsmenn sé góð hugmynd og bíð spenntur eftir að sjá hvort hún virkar. Það er í raun alvörumál að láta þessa vagna aka um allan bæ tóma. Ansi þurfa menn að vera duglegir að kolefnisjafna fyrir þessa tómu vagna.
En í raun erum við að kljást við kynslóðaskipti, eða réttara sagt nýja tíma með nýjum viðmiðum. Spurningin er hvort strætó sé í takt við tímann.
Ég finn það á sjálfum mér og mínum nánustu að við gerum allt aðrar kröfur til strætó en var gert hér á árum áður. Í þá daga var mun meiri tími til stefnu. Þá gat maður velt fyrir sér tímatöflu strætó og hagað ferðum sínum í samræmi við það. Aftur á móti í dag höfum við enga þolinmæði. Stafar það að hluta vegna meiri hraða í þjóðfélaginu en einnig vegna þess að við erum orðin svo vön einkabílnum. Áður fyrr var í mesta lagi einn bíll á hverju heimili og stundum enginn. Þá var það eðlilegt að nota strætó. Núna er það meira spurningin um að láta einhvern af öllum þessum bílum hvíla sig heima og nota strætó í staðinn. Þar með aukast kröfurnar á strætó, að sjálfsögðu. Spurningin er hvort strætó hefur "fattað" það.
Ég held að við séum svo kröfuhörð, hvort það er réttlætanlegt eða ekki, þá viljum við getað gengið út á stoppistöð og það eina sem við þurfum að vita er númer hvað vagninn er sem við eigum að taka. Við viljum ekki þurfa að bíða eftir honum nema í örfáar mínútur og alls ekki þurfa að kunna einhverja tímatöflu. Ef til vill eru þetta of miklar kröfur, jafnvel heimtufrekja. Aftur á móti viljum við nýta strætisvagnana sem best og þá er spurningin hvort við verðum ekki að fara þessa leið til að ná því markmiði. Um það stendur valið.
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Dægurmál, Ferðalög, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.