31.5.2007 | 21:52
Kremlverjar.
Forstjóri Talnakönnunar Benedikt kom fram í útvarpinu í gær. Þar tíndi hann til ýmsar hagtölur um mannafla í sjávarútvegi og breytingar á þeim á liðnum árum. Þegar hagrænir tölustafir raðast saman á þann hátt að summa þeirra styður við framferði manna þá finnst sumum að þá sé komin fram réttlæting á hegðun þeirra. Réttlæting er ekki sama og sönnun. Það er ekki sönnun á þeirri staðhæfingu að það sé best fyrir alla Íslendinga að allur fiskveiðikvóti sé hér en ekki þar. En þannig eru þessir tölustafir notaðir. Tölustafir eru bara eins og aðrir stafir, lýsa því sem eigandinn vill. Sanna ekki neitt um hvað einhverjum er best. Að reyna að sanna að kvótaflakk sé öllum Íslendingum til hagsbóta er andvana fædd tilraun. Enda er þetta bara "eftirá" réttlæting. Eftir að verðmiði kom á kvótann-ég á ann-þá var alltaf tilgangurinn að auðgast á honum. Að auðgast er í sjálfu sér ekki rangt, en ef kostnaðurinn er almennt meiri en ávinningurinn þá er það ekki til hagsbóta fyrir alla Íslendinga. Því var alltaf tilgangurinn sem helgaði meðalið, þannig tók einnig Lenin til orða þegar hann réttlætti blóðsúthellingar Rússnesku byltingarinnar. Sagan sýndi okkur svo að hún varð ekki öllum Rússum til hagsbóta heldur eingöngu Kremlverja. Því er Sjálfstæðisflokkurinn kominn á bás með gamla Kommúnistaflokknum í Rússlandi, bæði situr hann sem fastast og hyglir bara sínum "Kremlverjum". Þetta er á engan hátt í samræmi við jafnan rétt landsmanna sem ný ríkisstjórn státar sig af. Niðurstöður kvótaflakks eru þær að fáir auðgast en margir missa vinnu, viðurværi, heimili og aðrar eignir. Það getur ekki flokkast sem jafn réttur. Það getur ekki verið sanngjarnt hvað sem allri hagræðingu líður. Að hundruð manna missa fótanna í tilverunni til hagsbóta fyrir einn eða tvo er ekki jöfn staða, Að auðleigð þessara tveggja eða svo muni gagnast okkur hinum er alls óvíst. Því dreg ég stórleg í efa að það sé sannað að það sé rétt að fara fram með þeim hætti sem er gert hjá sjávarbyggðum landsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.