30.5.2007 | 22:43
Titrandi tannhjól með skoðun.
Við sitjum úti á pallinum, ég, konan og hundurinn. Búin að kveikja upp í eldstæðinu, drekkum ískalt hvítvín í tilefni þess að tveggja stafa tala sást á hitamælinum í dag í Reykjavík. Ofboðslega kósí, svolítið yfirstéttalegt ekki satt. Samt er maður bara tannhjól í tilverunni.
Þetta litla tannhjól getur haft skoðanir. Ætli því muni geðjast að stefnuræðu forsætisráðherra á morgun. Ætli sú umræða sem komi í kjölfarið verði mér að skapi. Litlu tannhjólin eiga víst að gefa ríkisstjórninni 100 daga til að sanna sig. Ef læknir er ófær og stútar nokkrum sjúklingum á sínum fyrstu 100 dögum er það þá bara fyrirgefið eins og ekkert sé. Vonandi ekki.
Sem heilbrigðisstarfsmaður mun ég að sjálfsögðu hlusta eftir því sem snýr að þeim málaflokki. Ekki síður hvort ríkisstjórnin ætli að stúta nokkrum sjávarplássum til viðbótar á sínum fyrstu 100 dögum, þetta verður síðan flokkað sem minniháttar afglöp síðar meir á 100 daga reglunni.
Að öllu gamni slepptu þá held ég að fólk verði að hugsa um byggðarmál eins og þroskað fólk. Viss hagræðing er nauðsynleg. Uppbygging byggðakjarna er nauðsynleg. 'Eg get ekki séð þá nauðsyn sem knýr menn og þetta kerfi til að leggja heilu sjávarplássin í eyði án fyrirvara og á örskömmum tíma þannig að líkja má því við náttúruhamfarir. Aðferðafræðin er snargölluð, við hljótum að geta gert betur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er með ólíkindum hvað Stokkseyringar hafa tosað litla þorpið sitt upp á annað plan eftir að öll þjónusta við það var skorin niður. Engin verslun...enginn banki....ekkert pósthús....aðeins söluskáli sem notfærir sér eymd þorpsbúa og skrúfar verð uppúr öllu valdi! Við gefumst ekki upp þótt móti blási... segir í söngnum og eins segjum við.
Það verður forvitnilegt að sjá verkin tala hjá þeirri nýju...veistu, ég hef ekki allt of mikla trú á þessu en ég held ég hafi trú á Jóhönnu Sigurðardóttur hún er svolítið spes og vinnur fyrir sitt fólk held ég! Áfram Jóhanna!
Rúna Guðfinnsdóttir, 30.5.2007 kl. 23:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.