27.5.2007 | 22:12
Rússneska byltingin.
Hvítasunnudagur. Fór ekki í messu. Fór í líkamsrækt í morgun, var ég að dýrka Mammon eða hvað. Nei, líkami vor er musteri Guðs og okkur ber skylda til að varðveita og hirða um það. Þannig að messufallið veldur mér ekki neinu stórkostlegu hugarangri. Ræktaði líka fjölskylduna, við öll í sameiningu fúavörðum palla og girðingar. Þrifum og bónuðum bílinn og olíubárum sumarhúsgögnin. Allt að verða klárt fyrir gott sumar. Snakkað við nágrannana yfir lóðamörkin, sagðar fréttir af sér og sínum síðan í fyrra. Sérkennilegt hvað vorið opnar mann til mannlegra tjáskipta-kannski kom yfir okkur einhver andi.
Hvað skyldi fólk á Flateyri vera að gera. Sumir að telja peninga-þetta var nú illa sagt. Ég ætti að skammast mín, þetta er nú allt löglegt eða hvað. Ætli einhver sé að fúaverja, til hvers, ævistarfið orðið verðlaust hvort sem er. Kenna þeim á tölvur, kenna þeim íslensku, sinna ferðamönnum og þau komu til að flaka fisk. Það er eins og þetta sé ekki alveg að "fúnkera". Það er eitthvað sem ekki stemmir. Það sem ég er að vandræðast með er að rústa heilu þorpi á einni nóttu. Það er ekki alveg í anda Hvítasunnudagsins og kristinnar trúar-"það sem þér viljið að aðrir menn gjörið yður skuluð þér og þeim gjöra". Þannig séð hefði rétttrúaður maður aldrei getað útfært þetta kerfi sem kemur svona fram við þegna sína. Hvaðan kemur þá þessi skolli. Hagræðing fyrir heildina hefur heyrst í þessu samhengi. Það var karl með hökutopp sem sagði um 1917 "tilgangurinn helgar meðalið" og Rússland varð blóði drifið og bræður hjuggu hvorn annan. Nú skil ég hvar Sjálfstæðisflokkurinn fékk línuna. Þingmenn þramma inn Dómkirkjugólf árlega, án sýnilegrar betrunar á kristilegu hugafari og hegðun.
Athugasemdir
Veistu...ég henti fullum poka af fíflum á haugana!!! Ég var rosa dugleg í dag að rækta garðinn minn. (Voru það blóm eða nágrannar??)
Rúna Guðfinnsdóttir, 28.5.2007 kl. 00:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.