10.8.2011 | 17:30
Fyrir hverju börðust afi og amma
Stráin nuddast varla saman í logninu. Sólin skín og vermir húðina, þorstanum er svalað með hreinu ómenguðu vatni. Dóttirin kallar frá sjónum, pabbi sjáðu, það er frí og allir njóta. Konan ofhitnar og fleygir sér í sjóinn til kælingar, nokkur öldugangur en ekki meiri umhverfisspjöll að sinni. Áratuga barátta foreldra okkar og foreldra þeirra endurspeglast í tilveru okkar. Sumarfrí á launum, heilsugæsla frá getnaði til grafar. Kallast sósíalískt eða sósíaldemókratískt kerfi. Byggir á sameiginlegri ábyrgð hópsins á einstaklingunum. Allir borga í pottinn án nokkurrar vissu um endurgreiðslu. Eingöngu vissan um að ef eitthvað bjátar á þá er til öryggisnet sem tekur af manni fallið.
Þessa dagana er gerð gangskör í því að afnema þetta kerfi. Sagt er að viðkomandi kerfi í mörgum löndum séu svo skuldum vafið að skera þurfi burt allann óþarfa til að standa í skilum við skuldir landanna. Afleiðingin er mikill niðurskurður á launum, eftirlaunum og mikið atvinnuleysi. Einkavæða þurfi heilbrigðiskerfið þannig að eingöngu þeir sem eru með platínu Visa fái þjónustu. Ríkissjóðir verða að selja auðlindir og aðrar eigur sínar á brunaútsölu. Öll barátta afa og ömmu fyrir bættum hag hverfur ofaní hyldýpi skuldarinnar.
Skuldirnar eru skuldir bankakerfisins sem ríkissjóðir margra landa hafa verið neyddar til að taka á sig. Þetta eru ekki skuldir vegna flatskjárkaupa einstaklinga eða velferðakerfisins.
Reynt hefur verið að bjarga skuldum Grikklands með neyðarpökkum. Við venjulegar aðstæður þegar fyrirtæki fara á hausinn eru þau endurskipulögð sem hefur í för með sér afskriftir á skuldum þannig að fyrirtækin komist á fætur á ný. Í tilfelli Grikklands og fleiri landa hefur sú leið verið bönnuð. Sagt er að þau skulu borga með þjóðartekjum sínum fyrir allann glæfraskap bankanna. Hljómar ósanngjarnt.
Vandamálið eru afleiðuviðskipti bankakerfisins. Afleiður eru veðmál um hvort eitthvað hækki eða lækki í verði. Það veit enginn hversu miklar afleiður leynast í gríska hagkerfinu, hvað þá hinna landanna í Evrópu. Vesalings Trichet forseti Seðlabanka Evrópu hefur ekki hugmynd um magn afleiða innan evrópsks hagkerfis. Þess vegna má ekki setja Grikki né aðra í þrot því þá þarf að kryfja líkið og þá gæti komið í ljós að ekki nokkur einasta stofnun í veröldinni á fjármuni til að borga allar afleiðurnar. Þess vegna finnst þeim betra að láta skrokkinn rotna lifandi í þeirri fáranlegu von að vandamálið gufi upp einhvern daginn. Það mun í sjálfu sér gerast ef þriðja heimstyrjöldin skellur á.
Heimurinn er í gíslingu Grikkja því ef þeir verða settir í þrot vellur ófögnuðirinn fram og leggur helstu ríki heimsins að velli. Afleiðuviðskiptin eru afrakstur óheftrar bankastarfsemi um víða veröld. Í stað þess að taka í lurginn á unglingnum þá sitja og standa stjórnmálamenn eins og bankamönnum þóknast. Margir segja að the banks own the place". Þess vegna er heimurinn gíslar bankanna.
Sú staðreynd að í mörgum löndum eru vinstri stjórninr í dag, stjórnmálaflokkar sem eiga uppruna sinn í baráttu afa og ömmu, baráttu fyrir öryggi og jöfnuði, í dag gera þessar vinstri stjórnir nákvæmlega eins og bankarnir segja þeim að gera. Afi og amma létu berja sig í plokkfisk til að koma á réttlæti en í dag þá eru arftakar afa og ömmu gólftuskur afkomenda þeirra sem þau hjónakornin börðust gegn. Þess vegna er það klám þegar Steingrímur kallar sig vinstri mann. Að telja það til bóta að hægri maður komist til valda flokkast undir ranghugmyndir. The banks own the place".
Um allan heim skynjar almenningur að stjórnmálamenn eru taglhnýtingar bankakerfisins og það skiptir engu máli hvernig þeir litgreina sig. Þess vegna eru mótmæli víðsvegar. Meira að segja í Ísrael eru mótmæli gegn nýfrjálshyggjunni, það kallast nú að bölva í kirkjunni. Bandaríkjamenn eru líka að fara að mótmæla og ætla að setjast á Wall Street þann 17. september og krafan verður einföld og skýr It's time for DEMOCRACY NOT CORPORATOCRACY, we're doomed without it".
Baráttan í dag snýst um okkur, lýðræðið okkar gegn bönkum, fjármálavaldi og stórfyritækjum. Í raun bara ný nöfn á kóngum vs almúga. Upp úr sauð í Frakklandi á sínum tíma eftir langar og myrkar aldir. Munum við sjá bankana stjórna öllu næstu aldir þangað til upp úr síður seint og um síðir eða munum við sem menntaðir og upplýstir einstaklingar drulluhalast út á torg og stræti og gefa óyggjandi til kynna hvar valdið liggur. Er til of mikils mælst að allir geti legið og hlustað á stráin nuddast saman í logninu eða á það bara að vera á færi örfárra.
Þitt er valið. Er hægt að sameinast um að standa saman sem einn maður, bara núna?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.