Bæjarins bestu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Grein eftir mig á Svipunni 26 ágúst 2010.

                                        Bæjarins bestu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

All nokkrir einstaklingar vilja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn úr landi sem fyrst. Þeir sem eru því ósammála bera því við að AGS sé eini valmöguleiki Íslands í dag. Svar þeirra við ósk okkar um brottflutning sjóðsins frá Íslandi er oftast á þá leið hvað við viljum þá gera í staðinn. Ástæðan fyrir því að við viljum sjóðinn burt er ekki sú að við vitum nákvæmlega hvernig eigi að leysa vanda Íslands heldur að við teljum sjóðinn stórhættulegan. Þar greinir okkur einnig á við viðmælendur okkar því þeir telja sjóðinn til bóta í íslensku þjóðlífi. Mín reynsla er oftast sú að þeir sem treysta sjóðnum hafa ekki kynnt sér sögu hans að neinu viti. Það virðist vera beint samband á milli þekkingar á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og viljans til að losna við hann.

Til að svara þeirri gagnrýni að andstæðingar sjóðsins viti ekki hvernig eigi að kippa landi og þjóð út úr mesta efnahagshruni Íslandssögunnar þá vil ég nefna nokkur atriði. Nokkrir þingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að finna leið út úr vandanum án aðkomu AGS. Þessi hugmynd fæst ekki rædd á Alþingi, það fæst ekki fjármunir til að kalla til sérfræðinga, bæði innlenda eða erlenda, til að koma upp með „Plan B“ eins og við köllum það. Þeir þingmenn eða fræðingar í þjóðfélaginu sem tjá sig um planB komast oftast ekki að í ríkisfjölmiðlunum. Að minnsta kosti hafa þeir sem hlusta eingöngu á fréttamiðla hliðholla ríkisstjórninni litla hugmynd um andstæðinga sjóðsins, hugmyndir þeirra um aðrar lausnir eða hvort við eigum yfir höfuð að óttast sjóðinn. Sjóðssinnar vita að þeim mun minni þekking á sjóðnum og fortíð hans skapar gagnrýnislaust andrúmsloft í þjóðfélaginu. Slík tenging er mjög augljós í vandræðum Þjóðkirkjunnar þessa dagana vegna fortíðar hennar.

Andstæðingar sjóðsins segja í dag að hans sé ekki þörf lengur. Hugmyndir um að nota skatttekjur af séreignasparnaði til að leysa yfirvofandi halla ríkissjóðs á næsta ári eru skynsamar því þær hamla gegn niðurskurði og auknum almennum skattahækkunum. Báðar aðgerðirnar-þ.e. skurður og skattar- eru kreppudýpkandi í eðli sínu. Það hefur verið margsinnis bent á að AGS hefur með ráðstöfunum sínum aukið vandræði þeirra þjóða sem hann sinnir einmitt vegna þess að hann gengur allt of langt í niðurskurði og sköttum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur verið veitt völd á Íslandi sem eru einstök. Davíð Oddson hafði aldrei jafn mikil völd á sínum tíma. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er sá aðili á Íslandi sem aftekur með öllu að skuldsettum heimilum sé rétt hjálparhönd. Þess vegna mun óviss fjöldi heimila venjulegs fólks fara á uppboð í vetur. Viðkomandi einstaklingar munu missa heimili sín sem oft á tíðum er ævisparnaður þeirra og fé sem hugsað var til elliáranna. Fjölskyldur munu því þurfa að flytja af heimilum sínum og leigja sér húsnæði. Sú skuld sem út af stendur mun síðan fylgja fjölskyldum inn í þeirra nýju heimkynni hvar sem til þeirra næst þangað til að skuldin er að fullu greidd.

Að sjóðnum gengnum fengi Ísland aftur fullveldi sitt óskorað. Þá væri möguleiki að taka á skuldavanda einstaklinga og fyrirtækja þannig að sem mest sátt skapaðist um aðgerðir. Þá væri haft að leiðarljósi að skuldabyrðin gerði meðbræðrum okkar kleift að halda áfram að skapa verðmæti eða auka á snúning þjóðfélagsins með neyslu. Einhvern rétt hljóta einstaklingar í þjóðfélagi okkar að eiga sem hafa með dug og ósérhlífni tekið þátt í því með okkur hinum að skapa þá auðlegð sem þetta land býr yfir. Stefnan í dag er aftur á móti sú að innheimta sem mest af skuldunum, bönkum til framdráttar, síðan er bara skítt og lagó með hina.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun setja það sem skilyrði í næsta mánuði þegar þriðja endurskoðun sjóðsins fer fram að Ísland greiði Icesave skuldina. Þar er um að ræða gallað regluverk Evrópusambandsins, gallinn er í því fólginn að ekki er nægjanlega tryggt í lögum að almenningur eigi að borga fyrir mistök bankanna. Þess vegna þarf AGS að troða mistökum bankanna ofan í kokið á íslensku þjóðinni. Ef það gengur eftir að við sitjum uppi með Icesave reikninginn, til viðbótar við allar aðrar skuldir, er nokkuð víst að við getum kvatt Norræna velferðaþjóðfélagið okkar fyrir fullt og fast.

Okkur, andstæðingum sjóðsins, finnst ráðstafanir hans kreppudýpkandi, sjónarmið hans er hagur banka fyrst og síðast og almenningur er látinn borga fyrir mistök bankanna. Sjóðurinn hefur fengið völd á Íslandi sem eru meiri en Alþingi og framkvæmdavald hafa til samans, því er um valdarán að ræða og fullveldi landsins er ekki lengur á forræði okkar. Okkur finnst þessi atriði duga vel til að skapa mikla umræðu og ætti að gegnsýra alla pólitíska umræðu á Íslandi í dag. Sú umræða gæti verið erfið en fjarvera hennar er mun verri.

Það er að brjótast um í mér hvers vegna elítunni á Íslandi finnst sjóðurinn hafinn yfir alla gagnrýni og sporðrennir honum eins og bæjarins bestu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband