Nú erum við í skúffu...AGS

Þeir einstaklingar sem hafa fylgst vel með framvindunni á sölu auðlinda landsins til erlendra aðila eru í raun ekki hissa í dag. Við erum meira "skúffuð". Að íslenskum stjórnvöldum takist að afsala sér framleiðslu í 130 ár á auðlind, sem á eftir að verða dýrmætari með hverju árinu, er í raun svik við almenning í landinu. Núna þegar við þurfum sem mest að afla fyrir þjóðina til að vinna okkur út úr kreppunni gerist slíkt afsal á framtíðartekjum okkar. 

Það er vilji AGS að við færum auðlindir landsins úr eigu almennings í einkaeigu. Í skýrslu AGS frá því í apríl s.l. er talið að auðlindir í eigu almennings séu hindrun fyrir efnahagsbata " Constraints on the reallocation of resources from non-tradable to tradable sectors—" Ags telur nauðsynlegt að víkja hindrunum úr vegi fyrir einkavæðingu auðlinda okkar. Þeim hefur greinilega orðið ágengt.

Stefna AGS á Íslandi er aðgengileg á netinu og saga AGS segir okkur að auðlindir landa eru einkavæddar. Þess vegna hefði núverandi vinstri stjórn og stuðningsmenn hennar átt að vera á tánum. Að þetta gerist er merki þess að svo hafi ekki verið. Það er augljóst að ríkisstjórnin er sammála þessu þó Svandís hafi dottað. 

Það er ákaflega sorglegt að upplifa það hvernig afsalið gengur í gegn um hábjartan dag án mikilla mótmæla. Samfylkingarmenn eru annað hvort stóriðjusinnar eða svo miklir ESB sinnar að þeir setja sig ekki upp á móti AGS. VG-liðar eru svo glaðir með völdin að öllu er til fórnandi til að sleppa því að mótmæla núna á Austurvelli.

Því miður mun þetta sjálfsagt ganga eftir og síðan munu fleiri auðlindir okkar fara sömu leið. Fólk ætlar bara að nöldra á Facebook.


mbl.is Vill fund um Magma í iðnaðarnefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég vil gagnýna Morgunblaðið fyrir slæman og sleifarlegan fréttaflutning. Það er með sömu fréttir efst á síðum sínum dag eftir dag og hirðir ekki um það sem sem efst er á baugi og brennir á þjóðinni hverju sinni . Þetta blað er orðið gjörsamlega máttlaust málgagn. Legg til að MORGUNBLAÐIÐ verði lagt niður sem allra, allra fyrst áður en nafn þess verður fyrir frekari forsmán . Það man fífil sinn fegri.

kolbruún (IP-tala skráð) 11.7.2010 kl. 02:28

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr.  Ég er algjörlega sammála þér. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 11.7.2010 kl. 02:47

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Því miður held ég að þetta sé rétt hjá þér Gunnar Skúli. Við virðumst vera búin að vera sem þjóð. Við erum of sundurleit og ósammála um hlutina til að ná nokkurri samstöðu um aðgerðir til að stöðva þetta. Hatur og heift er farin að einkenna skrif manna á bloggi og fésbók og í afstöðu til hvers annars. Ég get ekki tekið þátt í slíku.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 11.7.2010 kl. 09:08

4 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Menn gera sér ekki grein fyrir því - og hér er bloggarinn ekki undanskilinn- að eftir efnahagshrunið 2008 missti þjóðin efnahagslegt forræði. Það forræði höfum við ekki endurheimt ennþá. AGS var fenginn hingað formlega af ríkisstjórn landsins sem í þá var orðin valdalaus nema sem fulltrúi þessa litla samfélags til að skrifa undir slíkar beiðnir um aðstoð líkt og indjánahöfðingjar á sléttunum forðum voru látnir skrifa undir hverskonar valdaafsal fyrir hönd þjóðar sinnar. Höfðingjarnir Haarde og Oddson og Gisladottir gerðu meira. Þau viðurkenndu að skuldaskil á Icesafe yrðu á ábyrgð íslenska ríkissins og sömdu til bráðbirgða uppá það sem Alþingi samþykkti sóiðan fyrir sitt leyti og á þeirri gjörð hefur allt ferli þess máls verið síðan. Bæði aðkoma AGS og Icesafe skuldbindingarnar voru nauðvörn til að mega halda áfram að reka hérna nokkurnveginn "eðlilegt" þjóðfélag með bönkum og utanríkisverslun. Þessu fylgdu þau skilyrði að taka verði tillit til ráðgjafar AGS við endurreisnina. Norðurlandaþjóðirnar fíruðu ekki tommu frá þessari kröfu og þar við situr í dag.

Þess vegna lít ég þessa færslu einog svo margar aðrar sem nöldur þeirra sem gera sér ekki grein fyrir að viið sitjum ennþá í þrotabúi sem verið er að skifta upp og það gerist á mörgum plönum. Yfirstjórnin er hjá AGS, framkvæmdin hjá ríkisstjórninni á hverjum tíma og restin fer fram á hefðbundinn "tilviljunarkenndan" hátt úti í þjóðfélaginu hjá einstaklingum og fyrirtækjum.

Þetta er ekki búið. Óréttlætið var hrunið og undanfari þess. Afleiðingarnar sem við horfum uppá eru skuldadagarnir. Það eina sem "ríkisstjórn" Íslands getur gert er að "milda" áhrifin útí í þjóðfélaginu af því að hún er framkvæmdarstjórinn í verkefninu, ekki generállinn.

Ég verð allaf sannfærðari um hetjuskap ríkisstjórnarinnar sem þarf að takast á við ógeðfellt verkefni svo langt frá sínum venjubundna væntinga og hugmyndaheimi. Vandamálið er að ríkisstjórnin hefur einangrast frá umbjóðendum sínum sem sífellt minna á að væntingar þeirra séu aðrar og vilja komast hraðar útúr þessar vitleysu sem sjálfstæðisflokkurinn hannaði af óvitaskap sínum. Það er bara ekki svona einfalt.

Að "vinstri" stjórn verði að selja auðlindir er náttúrulega ótrúlega bíræfið og bara við hæfi harðasta kjarna frjálshyggjupostulanna í sjálfstæðisflokknum. Enda eru það ekki þeir sem mótmæla, bara leyfa sér að ala á úlfúðinni sem af þessu hlýst til að sundra því sem eftir er af samstöðu vinstri hreyfinganna. Við erum í borgarastyrjöld um reyturnar af því sem eftir er af gæðum lands og þjóðar.

Það sem þetta blogg gerir er því að þjóna þessum rógsröddum - ekki af innsæi heldur mekansíkt og fyrirsjáanlega.

Ögmundur Jónasson hætti í ríkisstjórninni þegar hann áttaði sig á að verkefnið var ekkert gæluverkefni til að afla sér persónulegra vinsælda einsog ráðherra höguðu sér fyrir 2008.

Þó að Hreyfingin, Lilja Mó og Sjálfstæðisflokkurinn kæmust í stjórn myndi stefnan ekkert breytast hvað varðar AGS og endurreisn bankanna. Það sem myndi breytast er þó svo ófyrirsjáanlegt að öðru leyti að maður vill ekki taka áhættuna núna.

Að lokum. Það er ekki verið að selja auðlindina heldur aðganginn að nýtingu hennar. Kannski er það jafn slæmt en formlega er það sem umræðan á að snúast um. Áhyggjur mínar af notkun á skúffufyrirtækjum til að fela slóðir og ganga á svig við lögin eru þær sömu og ykkar. Hvernig hægt er að bregðast við slíku þarf að ræða og skoða. Það er AGS óviðkomandi.

Gísli Ingvarsson, 11.7.2010 kl. 11:18

5 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Gísli,

takk fyrir innlitið og margt gott í færslunni.

Við getum verið sammála um það að samningar sem skrifað er undir í nauðung eigi ekki að halda, bæði hvað viðkemur indjánanum eða Geir Haarde. Í því er lítil huggun því við vorum jafn umkringd og indjáninn forðum daga og erum enn. Indjánar hafa risið upp síðan þá og margar þjóðir hafa háð baráttu fyrir sjálfstæði sínu gegn yfirráðum AGS. Sagan kennir okkur að þær þjóðir sem andmæla stefnu AGS eða hafna henni farnast betur. Að fylgja stefnu AGS hversu lögleg sem þér finnst sú stefna vera er ekki valmöguleiki sökum afleiðinga hennar fyrir almenning í landinu. Þess vegna hafna ég drottinhollustu við leiðtoga hversu góðir þeir hafa verið en berst fyrir velferð þjóðarinnar. Þitt innlegg reynir að lögleiða hið gagnstæða.

Gunnar Skúli Ármannsson, 11.7.2010 kl. 14:56

6 Smámynd: Benedikt Gunnar Ófeigsson

Gísli.

Ísland missti mikið efnahagslegt sjálfstæði með fjórfrelsinu (við inngönguna í EES),  og hrunið var einungis hefðbundin afleiðing af frjálsu flæði fjármagns og öðrum "nýfrjálshyggju" stefnumálum sem hafa verið sett í framkvæmd síðustu áratugina.

Hver er munurinn á því að selja auðlindir og leigja þær til 130 ára?

Af hverju verður "vinsrti" stjórnin að leigja (selja) auðlindir landsins?

Skuldsettning landsins ásamt hlýðni við AGS, ESB og alþjóðlegar fjármálastofnanir eru ekki hluti af einhverjum náttúrulögmálum heldur er um að ræða ákvarðanir sem eru teknar til að þjóna ákveðnum hagsmunum (þ.e. fyrst og fremst fjármálaelítunnar). Þessi stefna er ekki skrifuð í stein. "Vinstri" stjórnin hefði getað ákveðið að þjóna hagsmunum almennings í landinu, hún hefði getað afþakkað lán AGS og hún hefði getað ákveðið að rífa ekki niður velferðarkerfið og hún hefði getað byrjað að snúa við stefnunni sem hefur verið fylgt síðustu tvo áratugi. Hér er mjög áhugaverð grein um hvað er í gangi í Evrópu þessa dagana. Ísland er angi af þessu.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, 11.7.2010 kl. 15:17

7 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Munurinn á okkur og indjánum er sá að við eigum möguleika á að ná aftur fullveldinu. - Það er rangt að AGS ætli sér eitthvað annað með Ísland en það segir. - Hinsvegar erum við ekki fullvalda núna og stjórnvöld verða að "play by the rules" sama hversu pólitískt óþægilegt það er. Einsog ég reyni að benda ykkur á að þetta er raunveruleikinn en ekki einhver draumaveröld. Engin handhafi stjórnvalds á Íslandi mun hafa rýmri stöðu en sú sem nú situr. Þetta hef ég tekið inn á hverjum morgni einsog lýsi. Ef ég teldi að það væru 1% líkur á að ný stjórn myndi geta breytt einhverju um Icesafe skuldbindingarnar eða endurreisn efnahagslífsins umfram það sem þessi reynir að gera myndi ég viðurkenna það. - Óskhyggja bætir ekki tjónið sem nú hefur orðið. Það hefur nefnilega orðið mikið tjón einsog dómar Hæstaréttar benda á, einsog gengi gjaldmiðilsins bendir á, einsog verð á fasteignum okkar bendir á, einsog atvinnuleysið bendir á, fólksflótti bendir á, óvissa og sundrung í stjórnmálum bendir sorglega á. - Að bæta þetta tjón tekst með tímanum en það verður ekki án þjáninga og fórna. - Það er ekki AGS að kenna að reynt sé að koma eignum HS orku í verð og nytjar. Það liggur í hlutarins eðli ef menn bara tjakka sig aðeins niður á jörðina. Ég er hinsvegar ekki ánægður með það en ríkið á ekki pening og fær ekki lán fyrir þvi. Stendur AGS í vegi fyrir því að ríkið fái lán? Já óbeint. Ríkið fær aðeins lán frá AGS til ákveðinna verkefna til að koma skikki á endurreisn bankanna. Enginn í heiminum annar vill veit þessu auma ríki okkar lán. Lífeyrissjóðirnir helst ekki. Þess vegna er AGS á móti því að ríkið borgi vexti og verðbætur fyrir ólöglegu gengislánin. - Sanngjarnir menn verða að átta sig á þessu. Þetta er beinhart. Vinstri og hægri eru ekki einu sinni áttir í þessu svartholi. Svoleiðis lúxus kemur þegar við höfum aftur efni á honum. Vonandi gerist það fyrr en síðar.

@Benedíkt. Ég veit að þú skilur ekki ofanskráða færslu af því að þú lifir í draumaheimi um að allir séu svo vondir við okkur aumingjana. Ofsóknarbrjálæði fyrir skammstöfunum hef ég ekki menntun til að meðhöndla. AGS og ESB eru bara skammstafanir fyrir þér. Fjórfrelsið bara frasi.

Það að fara eftir samningum og standa við skulbindingar sínar er ekki hlýðni heldur lífsspursmál í samfélagi þjóða og manna. Þeir sem fara fyrir almannaheill verða að ganga á undan með góðu fordæmi. Það skortir að vísu á stundum. Að henda út AGS og draga umsókn um aðildarviðræður að ESB til baka mundi ekki gerast þó að Móses Oddson væri forsætisráðherra. En allir mega eiga sér draum.

Gísli Ingvarsson, 11.7.2010 kl. 16:37

8 Smámynd: Haraldur Baldursson

Gísli, svart er svart og svart er svart...

Uppgjöf og andleysi fleyta okkur skammt. Það er ástæðulast að óttast það að kveðja AGS, það er ástæðulast að óttast það að draga ESB-umsóknina tilbaka.
Ég veit ekki hvað dómsdagsfólk eins og þú óttast svona mikið við þetta.

Haraldur Baldursson, 11.7.2010 kl. 21:39

9 Smámynd: Benedikt Gunnar Ófeigsson

Gísli: minnist þess ekki að hafa talað um hvað allir eru vondir við okkur. Ég var að benda á að það væri fyrst og fremst verið að sinna hagsmunum annarra en almennings

Síðan var ég að vitna í grein sem ég linkaði á. lestu hana og komdu svo með málefnalegt andsvar ef þú getur.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, 11.7.2010 kl. 22:11

10 Smámynd: Elle_

Ég vil taka undir pistil Gunnars og óttast að hann sé of sannur og vil líka taka undir hvert orð Benedikts að ofan sem fyrr og skil ekki hvað Gísli er að meina með að ráðast á hann ranglega.  Kannski ætti Gísli að lesa hvað fólk segir fyrst og koma síðan með sterkari rök sjálfur??  Hef ekki enn lesið neitt af viti frá honum neinsstaðar, heldur endalausar persónuárásir.  Nema maður sé hlynntur óstjórninni núverandi.

Elle_, 11.7.2010 kl. 23:03

11 identicon

Nýtt ríki er minn ljómi hver er þinn ljómi. Ég vill að stofnuð verði hópur manna sem taki það að sér að hreina þessa landráðs menn og sendi þá burt úr landi. Því Neyðarstjórn er stofnuð og ríkisvaldið verður þegar í stað að stiga till hliðar. á morgun vona ég að Lögregla standi með fólkinu og lýðræðinu því neyðarstjórninn á réttmætt sæti inní stjórnarráðinu. Og þessi neyðarstjórn er ekki á kosnað fólksins heldur á þeira sem sendu okkur ofaní þennan drullu pit. Ég er með þau tilmæli til ráðherra og annara að þeir séu ekki velkomnir inní stjórnarráðið eða alþingi frá með deginum á morgun. Lýðræði lifir á því gamla sem samfylking og 4 flokks mafían hafði skapa er daut í augum fóksins. Það er heldur eingin syna að vera búinn að missa allt álit á Ríkinu og þeim Hf rekstri. sem íslenska ríkið hefur skapað sér í gegnum tíðina með innskotum eða arðræningjum, sem aðræna þá sem eiga jafn mikið í landinu.

Kristján Loftur Bjarnason (IP-tala skráð) 11.7.2010 kl. 23:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband