4.7.2010 | 18:11
Trichet og prentvélin hans
Að spyrja herra Trichet hvort hætta sé á nýrri kreppu er ekki viðeigandi spurning miðað við aðstæður. Frekar ætti að fá hann til að útskýra hvernig núverandi úrræði geti hugsanlega afstýrt kreppu. Það sem hingað til hefur verið gert, bæði af seðlabanka Bandaríkjanna og Evrópu, er að kaupa skuldabréf af ríkinu og búa þannig til peninga sem dælt hefur verið í dauðvona bankastofnanir. Þetta eru í raun peningar sem eru án nokkurs verðgildis. Þeir eru ekki skapaðir með framleiðslu á verðmætum. Staðan væri allt önnur ef ríkið hefði lagt trilljón rollur inn í seðlabankann og fengið peninginn þannig.
Það sem gerist er að ríkið ábyrgist að endurgreiða seðlabankanum, þe peningarnir verða til úr skuld, með skuldsetningu ekki framleiðslu. Peningarnir fara til bankanna. Skuldin er eftir hjá okkur því við erum ríkið. Til að endurgreiða skuldina þarf að skattleggja meira og skera meira niður.
Bankahrunið haustið 2008 var bankahrun. Sjúkdómurinn þá var gríðarleg skuldamyndun af hálfu bankanna. Að ætla sér að ráða bót á sjúkdómnum með því að auka sjúkdóminn er rugl.
Almenningur verður að fara að velta því fyrir sér hvers vegna bókabúð sem prentar allt of mikið af bókum sem enginn vill kaupa fer á hausinn, en þegar banki prentar allt of mikið af peningum sem eru verðlausir að þá eigi skattgreiðendur að brúa bilið.
Óttast ekki nýja kreppu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Háskólamenntaðir hagfræðingar virðast hafa afskaplega lítinn skilning á tilurð peninga og hvað það er sem knýr framleiðendur þeirra áfram, þ.e.a.s. þá sem hafa einkaleyfi á peningaframleiðslunni. Ég hef aldrei heyrt neinn ræða það meðferðarúrræði áfengissjúklinga að gefa þeim í glas. En samkvæmt hagfræðingum þá á það að virka á efnahagslífið.
Ég hef skilið þetta peningakerfi nákvæmlega eins og þú lýsir því og samkvæmt þeim skilningi eru þessir svokölluðu "björgunarpakkar" til handa bönkum um víða veröld eins og bensín á eld.
Eins og tíminn hefur sýnt okkur og er í raun enn að leiða í ljós þá hefur ekkert skánað með þessum aðgerðum heldur hafa hlutirnir undir yfirborðinu farið í þveröfuga átt.
Ég bara spyr, hvað læra þessir menn í skóla? Hvernig fá þeir það út td. að hér á landi sé lausnin við vandamáli ofurskuldsetningar þjóðarbúsins að steypa því í enn frekari skuldir?
Heimir Arnar Birgisson (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 19:13
Sæll Heimir og takk fyrir innlitið,
kennsla í skólum heimsins er forheimskandi að mestu. Ástæðan er sú að ekki má kenna það sem hentar ekki peningaöflunum. Þar sem þau stjórna styrkjum til skóla og rannsókna háskólanema er augljóst að niðurstaðan verður þeim alltaf þóknanleg.
Mér skilst að nú vilji Obama fá lög í USA sem heimili honum að stjórna netinu.
Gunnar Skúli Ármannsson, 4.7.2010 kl. 19:33
Sæll Gunnar það sem þú segir er hárrétt og ég hef oft bent á það sem er að gerast skuldir eru yfirfærðar á almenning og bankarnir græða sú tilfærsla er stór hættuleg og leiðir til annars hruns miklu verra hrun en það sem komið er!
Sigurður Haraldsson, 4.7.2010 kl. 23:59
"Það sem gerist er að ríkið ábyrgist að endurgreiða seðlabankanum, þe peningarnir verða til úr skuld, með skuldsetningu ekki framleiðslu. Peningarnir fara til bankanna. Skuldin er eftir hjá okkur því við erum ríkið. Til að endurgreiða skuldina þarf að skattleggja meira og skera meira niður."
Frábært, þú hittir naglann þráðbeint á höfuðið! Það er einmitt svona sem peningar hafa hingað til verið framleiddir, gerðir úr skuld og fæddir í synd, sveipaðir blekkingu. Í rauninni þá eru hver einasti dollar, evra, franki og yen o.s.frv. skuldaðir margfalt frá deginum sem þeir líta dagsins ljós. Þetta er ekki út af einhverjum óútskýranlegum duttlungum náttúrunnar eða afleiðing skelfilegra stjórnunamistaka, og allar tilraunir til að forðast að kerfið hrynji gera ekkert nema seinka því óhjákvæmilega. Miðstýrt seðlabankahagkerfi með takmarkaða bindiskyldu er útbreiddasta tegund fjármálakerfis og allsráðandi á vesturlöndum en í slíku kerfi verða skuldir aldrei greiddar og gjaldþrot er því óhjákvæmileg afleiðing af því hvernig kerfið virkar. Því meiri peningar sem koma í umferð því meiri verður skuldsetningin og skattheimtan á bak við þá þar til á einhverjum tímapunkti bræðir allt úr sér, eins og bílvél sem er keyrð á sífellt meiri snúningshraða, fram af kletti. Á Evrusvæðinu er þetta ennþá verra þar sem skortur á samstillingu í ríkisfjármálum eykur óstöðugleikann. Þessi innbyggða kerfisvilla er meginástæða þess að við þurfum að fá nýtt og öðruvísi fjármálakerfi, í stað þess að reyna að endurreisa það gamla.
Guðmundur Ásgeirsson, 5.7.2010 kl. 02:33
Góður Guðmundur þú ert á jörðinni
Sigurður Haraldsson, 5.7.2010 kl. 09:13
Já Guðmundur, þetta er einmitt mergur málsins. Held enn í vonina um að almenningur sé loks að kveikja á perunni í þessum málum ;)
Elínborg, 5.7.2010 kl. 20:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.