Rotþrær, flatskjár og skýrslur

Þvílík veröld sem við lifum í! Núna er stólpípan hjá rannsóknarnefndinni farin að virka og saurinn rennur yfir okkur almenning. Hægðir eru í raun spegill fortíðarinnar því fæðan var mun lystugri á sínum tíma. Eins og öllum má vera ljóst er til lítils að velta sér upp úr saurnum eins og svín, mun mikilvægara er að kanna hvað er á matseðli dagsins.

Seðlabank Íslands birti skýrslu í gær sem gefur til kynna hvað almenningi er boðið upp á í dag. Sú skýrsla er mun mikilvægari fyrir núið en hrunskýrslan. Þessi skýrsla hverfur vegna umfjöllunar um hrunskýrsluna og er það miður, báðir eiga fullan rétt á að fá að njóta sín.

Í skýrslu SÍ kemur fram að 35-60% heimila ná varla endum saman um hver mánaðarmót. 40% heimila eru tæknilega gjaldþrota, þ.e. fasteignin dugar ekki fyrir lánunum. Staðan er enn verri hjá ungu barnafólki en þar eru 60% heimila tæknilega gjaldþrota.

Með öðrum fréttum um biðraðir eftir mataraðstoð er greinilegt að fátækt er að aukast hröðum skrefum á Íslandi. Millistéttin minnkar og stétt fátækra eykst. Börnin eru mjög útsett og sérstaklega þau ungu því mjög stórt hlutfall barnafjölskyldna á í verulegum vanda.

Hrunskýrslan segir okkur að valdstéttin á Íslandi skapaði þetta ástand með glæpsamlegri hegðun í bönkunum. Hinn hluti valdstéttarinnar sem átti að fylgjast með fyrir okkar hönd var með kjaftinn fullann af seðlum, hroka eða greindarskorti og gat því ekki veitt þjóð sinni neina björg. Nú sitjum við í skítnum, full af sektarkennd því við keyptum okkur flatskjá.

Í skýrslu SÍ kemur fram að valdstéttin á Íslandi í dag hefur af miklu örlæti sínu brugðist við ástandinu með aðgerðum fyrir illa stadda samlanda sína. Árangurinn er ein heil 4-5% minnkun á hópum í vanda. Það gerir um 15% árangur af meðferðinni. Sem læknir hrekk ég í kút. Ég myndi aldrei bjóða sjúklingi upp á meðferð sem hefði 15% árangur í för með sér. Sjúklingurinn teldi mig sjálfsagt galinn að bjóða sér upp á lyf sem væri 85% gagnslaust.

Valdstéttin á Íslandi í dag hrósar sér af þessum árangri. Ég er loksins að skilja hvað Steingrímur á við þegar hann talar um að moka flórinn. Hann er að moka honum á okkur. Þvílík þjóð sem þegjandi tekur við úrgangi yfir sig úr gömlu og líka nýju rotþrónni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er nú með þessar þrengingar fólksins sem flokkast undir láglaunahópa. Yfirleitt hefur mér virst að mest beri á því fólki í aðdraganda kosninga. Og það er nú svo heppilegt með það að þá finna frambjóðendur stjónmálaflokkanna yfirleitt fremur einfaldar leiðir til að stöðva ósómann og bregðast við honum á eftirfarandi hátt:

"Við eigum ekki að sætta okkur við svona ástand enda er ekki ástæðan sú að engir fjármunir séu til. Þetta er bara spurning um að setja verkefnin í forgangsröð."

Árni Gunnarsson, 14.4.2010 kl. 06:19

2 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Gunnar Skúli, ég þakka fyrir menn eins og þig. Hef reynt að tala hér á sömu nótum.Frá 12 ára aldri hef ég unnið. Núna er allt mitt ævistarf farið. Það er allt að hverfa núna vegna glæpa og vanhæfni manna sem við þekkjum hverjir eru. Og verður erfitt að hrófla við. En það er gott að vita að það eru enn einhverjir að berjast.   Ég persónulega fattaði við skýrslu rannsóknarnefndar  og vangaveltur manna um ábyrgð eitt. Ég velti fyrir mér viðbrögðum við vanhæfni ráðamanna og við því að hitta einhvern þeirra sem báru ábyrgð á að hreinsa upp bankanna. Ráðamenn vill ég húðstrýkja. Bankaglæpamennina berja til óbóta. Sumir kunna að segja að það séu glæpsamleg og refsiverð athæfi. En hvers vegna skyldi mér ekki vera sama um það?

Ævar Rafn Kjartansson, 14.4.2010 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband