27.2.2010 | 19:52
Ræðan mín á Austurvelli í dag
Ræða á Austurvelli 27. febrúar 2010.
Eftir viku mun íslenska þjóðin greiða atkvæði um Icesave lögin.
Icesave er skuld einkabanka.
Icesave er skuld sem þröngvað var upp á íslenska þjóð, skuld sem við berum ekki ábyrgð á og eigum því ekki að greiða. En við vorum og erum beitt ofbeldi og þvingunum til að samþykkja skuldina.
Að ofbeldi og skuld fari saman er ekkert nýtt.
Upphaf hugtaksins skuld kemur frá þeim tíma þegar einstaklingar voru teknir herfangi. Þá urðu menn þrælar sigurvegarans.
Þess vegna er skuldin svo nátengd ofbeldi.
Hefur einhver skrifað undir skuldabréf án þess að fylgt hafi með nokkrar blaðsíður af hótunum um hvað muni gerast ef maður borgar ekki.
Skuld og ofbeldi eru tvíburar.
Saga skuldarinnar er saga ofbeldis.
Í sögu skuldarinnar eru einnig ljósir punktar.
Í Mesópótamíu áttu skuldir til að vaxa langt fram úr greiðslugetu bænda og til að koma í veg fyrir að lánadrottnar eignuðust allt, var farið að afskrifa skuldir.
Þessi barátta milli skynsemi og græðgi hefur staðið allar götur síðan.
Á Íslandi í dag er sama vandamál.
Það er mikil hætta á að lánadrottnar eignist megnið af fasteignum landsins og erlendir aðilar eignist auðlindir okkar.
Munum við láta undan græðginni eða beita skynseminni?
Ísland, íslensk þjóð, ég og þú getum orðið herfang lánadrottna.
Kannski erum við nú þegar orðin þrælar, hver veit?
Það skapraunar lánadrottnunum að við kunnum ekki að gangast við hlutverkinu.
Kannski er það það sem ríkisstjórnin á Íslandi er alltaf að reyna að segja okkur, að við séum þrælar og eigum bara að sætta okkur við það.
Kannski er vandamálið að við erum komin af ofvirkum Norðmönnum sem enginn réð við á þeim tíma, því Rítalín var ekki komið á markaðinn og það eina sem hægt var að gera í stöðunni var að senda okkur til Íslands.
Ríkisstjórn Íslands ætlar að skuldsetja okkur með Icesave skuldinni, sú skuld er engum Íslendingi til gagns. Skuld sem gagnast ekki þjóð en styrkir bara viðkomandi ríkisstjórn í sessi, slíka skuld ber þjóðin enga ábyrgð á og ber ekki að taka á sig.
Finna má slíkar dómsniðurstöður í sögu skuldarinnar.
Þannig er Icesave skuldin.
Þetta vita Bretar og Hollendingar mæta vel, þeir kunna sögu skuldarinnar manna best, þess vegna liggur þeim svona mikið á að hneppa okkur í skuldafjötra.
Ég segi Nei!! Ég vil ekki vera þræll!!
Skuldir voru afskrifaðar hér áður fyrr til að halda samfélögum saman eins og í Mesópótamíu. Á Íslandi er engin sátt í dag um skuldirnar. Sumir á íslandi fá skuldir sínar afskrifaðar.
Aðrir fá innistæður sínar bættar. Sáttin er rofin, það er ekki friður á Íslandi, það er ófriður því annars værum við heima að bóna bílana okkar. Þjóðin er sundruð, það erum við og þeir.
Íslenska ríkisstjórnin ætlar ekki bara að hneppa íslenska þjóð í skuldafangelsi vegna Icesave heldur einnig að bjóða upp fasteignir landsmanna og reka okkur út af heimilum okkar. Ríkisstjórnin er talsmaður lánadrottnanna, skuldir skulu innheimtar með öllum ráðum.
Hvers vegna er skjaldborgin fræga svona andsnúin almenningi, hvers vegna upplifum við bara skjaldborg um lánadrottna. Ástæðan er sú að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vill hafa það þannig og ríkisstjórnin fylgir fyrirmælum hans í einu og öllu.
Þetta stendur allt skýrum stöfum í Viljayfirlýsing íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjadeyrissjóðsins 20 október 2009, þessi viljayfirlýsing er undirrituð af Jóhönnu og Steingrími:
Grein 7:
Þrátt fyrir að við leggjum áfram áherslu á að vernda innlendar innstæður höfum við, í öðru lagi, enga fjárhagslega getu til að taka á okkur tap einkageirans vegna bankakreppunnar umfram það sem orðið er,
Er einhver hér sem á mikið af innlendum innistæðum??
Er einhver hér sem á eign sem hefur helmingast í verði og skuldin tvöfaldast?? Þeas svokallaður einkageiri, það erum ég og þú.
Tökum grein 15 núna;
Þessi kafli sem grein 15 er í Viljayfirlýsingunni heitir Endurskipulagning skulda.
Markviss endurskipulagning á skuldastöðu heimila og fyrirtækja er mikilvægur liður í því að stefnan um endurskipulagningu fjármálakerfisins nái fram að ganga
Semsagt svo að fjármálakerfið lifi þá þarf að endurskipuleggja skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Það á að fórna þeim sem skuldar, það á að fórna heimilum landsmanna fyrir fjármálakerfið.
Hvernig á það að ganga fyrir sig?
Í lok 15 greinar segir og ég vitna í AGS;
auðvelda markaðnum að greina milli áreiðanlegra lántakenda sem njóta skulu greiðsluaðlögunar og óáreiðanlegra lántakenda sem rjúfa skal öll fjárhagstengsl við
Það á að láta markaðinn ákveða hverjir skulu fara í gjaldþrot og hverjir ekki.
Er þetta skjaldborg að hætti norræna velferðakerfisins eða er þetta meir í ætt við hinn alræmda Alþjóðagjaldeyrissjóð.
Grein 16;
Þegar hefur verið gripið til ýmissa ráðstafana fyrir heimilin og nú er lögð megináhersla á regluverk varðandi gjaldþrot einstaklinga.
Þetta segja þau í október s.l. , þau segja að það sé búið að hjálpa heimilunum en vinnan í kringum gjaldþrotin sé framundan. Þá vitum við það og bara til að minna ykkur á hverjir eru þau þá eru það Jóhanna og Steingrímur sem skrifa undir þessa Viljayfirlýsingu.
Þetta er skjaldborg Jóhönnu og Steingríms, skjaldborgin er smíðuð í Whasington USA, skjalborg AGS er neytt upp á okkur, þau hafa skrifað undir að þau munu fylgja stefnu strákanna frá Whasington, þau hafa samþykkt þetta, þau eru að framkvæma stefnu AGS í einu og öllu.
Það erum við, við hér á Austurvelli, sem viljum ekki sætta okkur við að samlandar okkar verði settir á götuna. Við sættum okkur ekki heldur við að borga skuldir einkabanka.
Við neitum að vera einhver björgunarhringur fyrir glatað fjármálakerfi sem fer aftur og aftur í kreppur.
Við neytum því að samborgarar okkar verði gerðir gjaldþrota til að fullnægja hvötum fjármagnsins.
Ef við samþykkjum allar þessar skuldir þá erum við orðin þrælar.
Við viljum réttlæti, við viljum réttlæti, við viljum réttlæti, þarf ég að segja það aftur?
Í mannréttindaryfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna kemur skýrt fram að allir eiga rétt á lífskjörum sem eru nauðsynleg til að vernda heilsu og vellíðan.
Einnig segir í mannréttindaryfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna að allir eigi rétt á fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp, félagslegri þjónustu og rétti til atvinnu eða öryggi vegna atvinnumissis.
Vill þjóðin það sama og ríkisstjórnin. Vill þjóðin að fólk sé neitt til að velja á milli þess að greiða af húsnæðislánum eða að eiga fyrir mat. Ef ríkistjórn Íslands vill þetta þá eru þau að framkvæma mannréttindarbrot í boði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er hræsni af verstu sort að skrifa fyrst undir mannréttindaryfirlýsingu og síðan undir skilmála AGS. Þetta tvennt fer ekki saman, það getur aldrei blandast, ekki frekar en fita og vatn.
Félagar, Austurvellingar, núna er komin tími til að laukarnirnr fari að sýna sig.
Stöndum saman og mótmælum órétti og mannréttindabrotum á okkur.
Að greiða skuld hvað sem það kostar er rangt.
Lánadrottnarnir ganga eins langt og við leyfum þeim að ganga.
Það er okkar að setja þeim mörk, hingað og ekki lengra segi ég.
Ef við stöndum saman getum við hvað sem er og þeir óttast það.
Stöndum nú upp og mótmælum segjum hingað og ekki lengra,
Segjum mannréttindi framar fjármagni.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjármál, Mannréttindi, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Hey heyr, tími byltingarinnar kemur.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 27.2.2010 kl. 20:31
Heyr, heyr.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 27.2.2010 kl. 22:31
Þetta er alveg einstaklega góð ræða! Hafðu heilar og heitar þakkir fyrir Ég hefði að sjálfsögðu vilja vera niður á Austurvelli til að hlutsta á flutning hennar!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.2.2010 kl. 23:34
Flott ræða!! Heyr Heyr!!
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.2.2010 kl. 12:38
Takk fyrir öll, gott að eiga vini.
Gunnar Skúli Ármannsson, 28.2.2010 kl. 14:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.