Færsluflokkur: Lífstíll
17.7.2007 | 14:06
Naflastrengurinn.
Það er mjög merkilegt að vera í Tyrklandi. Hér voru fyrstu vínin í heiminum ræktuð. Hér er borg sem heitir Efesus og er mörg þúsund ára gömul. Þar eru almenningssalerni og upphituð gólf. Íslendingar voru þá ekki einu sinni til. Þegar þeir birtust hafa þeir sjálfsagt verið flokkaðir sem villimenn af Tyrkjum. Svo erum við að setja okkur á háan hest. Í Istanbúl er kirkja sem er 1500 ára gömul og var ein stærsta kirkjan í veröldinni um 800 ára skeið. Geri aðrir betur.
Við hjónin höfum verið að ferðast svolítið að undanförnu. Heimsótt Madrid, Prag og Barcelona. Nú Kaupmannahöfn að sjálfsögðu. Þegar maður drekkur í sig menningu þessara borga, þá á einhvern hátt nær maður að samsama sig þessari fornu menningu. Á einhvern hátt er maður hluti af henni, maður finnur fyrir samhljóm. Maður fær svolítið sérstaka tilfinningu í sálina, hálfgerða helgun eða jafnvel dýpt og ró. Við eigum okkar upphaf hér, það eimir svolítið eftir af þeim naflastreng.
Við vorum á Florida fyrir ári. Gott frí í sjálfu sér. Heimsóttum skemmtigarðana fyrir börnin. Tilveran í Florida er svolítið öðruvísi en í Evrópu. Florida er tilbúin veröld. Í raun getur bara krókódíllinn búið í Florida án þess að gjörbreyta öllu umhverfi sínu með þurrkun fenja, loftkælingu og þess háttar. Í raun er Florida nánast óbyggilegt fyrir menn nema með þessum tilfæringum. Þetta er bara mjög rakt, heitt fenjasvæði fyrir krókódíla. Reyndar er krókódíllinn friðaður í Florida. Því er hann eina skepnan sem hefur öruggan tilvistargrundvöll í Florida. Hann er friðaður, enginn mé drepa hann, honum er hvorki of heitt né kalt þar sem hann marir hálfur í kafi. Auk þess má hann éta alla hina íbúana í Florida. Góður díll.
Svo eru hinir dílarnir í Flórída. Það eru þeir sem selja manni allt milli himins og jarðar. Ég held að það eina sem er frítt í henni Ameríku er loftið sem maður andar að sér. Allt annað selja þeir manni og líf þeir gengur út á að selja. Að selja eru þeirra trúarbrögð. Að selja er þeirra menning.
Þegar Evrópubúar fluttu til Ameríku þá slitnaði naflastrengurinn, því miður. Núna eigum við í vandræðum með þennan ungling sem veit ekki ennþá muninn á réttu og röngu.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2007 | 15:39
Tyrkland, 15 júlí.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.7.2007 | 23:32
Samfylkingin.
Hvernig er þetta með Samfylkinguna. Þau fóru í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, að sjálfsögðu til að fá völd og stóla. Einnig til að sýna alþjóð að þau geti verið ábyrg í stjórn. Sýnt festu og tekið á málum með alvöru og mikilli skynsemi.
Hvernig gekk þeim í fyrsta stóra málinu sem kom til kasta þeirra. Kvótamálinu eða réttara sagt ákvörðun aflaheimilda fyrir næstu ár. Ekki vel finnst mér.
Miðað við allt sem sagt var fyrir síðustu kosningar þá er framkvæmdin döpur. Í staðinn fyrir sjálfsbjargarhvöt einstaklingsins, smáfyrirtæki sem fengju tækifæri til að blómstra þá fylkir samfylkingin sér með hagræðingarsinnum og vill steypa sjávarútveginn í stóriðju.
Þannig mun þetta vera næstu árin.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2007 | 22:12
Hvar er Frjálslyndi flokkurinn?
Það dynja á manni fréttir af samdrætti eða lokunum fyrirtækja víðs vegar um landið. Ástæðan er niðurskurður á aflaheimildum á fiski. Nú er að koma í ljós það sem ýmsir sögðu fyrir að hinar dreifðu byggðir myndu halda áfram að blæða, þegar niðurskurðurinn verður kominn fram þá mun sjávarbyggðunum fossblæða.
Sumir halda því fram að kjósendur í sjávarbyggðunum hefðu betur kosið Frjálslynda flokkinn í síðustu kosningum. Sérstaklega þegar það er haft í huga að menn gátu vænst þess að um mikinn aflaniðurskurð yrði að ræða í haust. Þeir hefðu eflaust sett sig upp á móti tillögum Hafró ef þeir hefðu komist í ríkisstjórn. Niðurstaðan varð önnur eins og allir vita.
Umræðunni um þessi mál virðist vera handstýrt að miklu leiti. Margir eru á móti niðurskurðinum. Margir trúa ekki á Hafró. Málflutningur þeirra heyrist ekki. Mikið til vegna þess að þeir komast ekki að í vinsælum fjölmiðlum. Þannig er umræðunni handstýrt.
Aftur á móti hafa menn lagt mismikið á sig til að brjótast í gegn og mótmæla. Kristinn P, Jón Valur og ekki síst Sigurjón Þórðarson. Hann hefur bloggað ákaft og skrifað greinar í blöð. Einnig skorað ráðherra á hólm á blogginu.
Mér hefur fundist skorta á áberandi framgöngu Frjálslynda flokksins síðustu vikur. Virkni heimasíðu flokksins hefur ekki verið nein s.l. 2 mánuði. Ekki hef ég orðið mikið var við þingmenn flokksins í umræðunni. Þeir hafa a.m.k ekki nýtt sér bloggið mikið sem er orðinn mjög mikilvægur miðill á liðnum árum. Eina undantekningin er Jón Magnússon sem hefur bloggað töluvert.
Aftur á móti mun þetta allt saman skána í haust þegar menn koma úr sumarfríi og sérstaklega horfum við til þess að þegar Sigurjón Þórðarson mun taka við framkvæmdastjórastöðunni í FF og þá mun komast mikið afl í umræðuna.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.7.2007 | 23:21
Mótvægisaðgerðir og sjómenn.
Nú á að malbika og grafa göng svo að fólk sem hefur unnið við sjávarútveg sl ár hafi eitthvað að gera.
Mjög merkilegt. Ef sjúklingakvóti lækna væri skorinn niður og okkur yrði boðin vinna við jarðgangagerð eða vegavinnu yrðum við ofsakátir. Ég held ekki. Hvers vegna eiga sjómenn að gera það sér að góðu. Ekki hefur sjómönnum verið boðið neitt í staðinn fyrir sína vinnu annað en meira launalaust frí. Að minnsta kosti ekki neitt við hæfi.
Ég neita því ekki að mér finnst sem sjómenn eigi bara að gera sér að góðu þennan niðurskurð á þorskkvóta án sértækra mótvægisaðgerða fyrir þá.
Hvað getur komið sjómönnum að gagni, jú að auka þorskkvóta og gefa þeim kost á að veiða sinn þorsk og þar að auki hvað eiga sjómenn að gera við þorskinn sem kemur upp með ýsunni?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.7.2007 | 21:24
Kunna Íslendingar að prútta?
Það er merkileg niðurstaða að verðlag hefur ekki lækkað eins og til stóð. Þrátt fyrir lækkun á opinberum álögum hefur það ekki gengið eftir. Krónan er aldrei sterkari, ég meina gjaldmiðillinn ekki verslunin, því ætti verð í verslunum að lækka. Samt hækkar það, merkilegt.
Það eru gömul sannindi að vara selst meðan viljugur kaupandi er af henni. Verðlagið er alltaf eins hátt og nokkur kostur er, meðan varan selst er verðið ekki lækkað, annað væri hrein heimska. Ef ég væri kaupmaður myndi ég alltaf selja vöru eins dýrt og ég gæti, það er bara þannig í viðskiptum.
Svo rekur fólk í rogastans að verðlag hafi ekki lækkað eins og það gerði sér vonir um. Eðli viðskipta er ekki á þeim lögmálum byggt að kaupmenn lækki vöruverð vegna óskhyggju okkar kaupenda. Eðli viðskipta er prútt og ekkert annað. Meðan við kaupum lækkar ekki verðið. Ef við hættum að kaupa þá lækkar verðið.
Vandamálið er kaupgleði okkar Íslendinga og skortur á verðskyni. Auk þess er um nauðsynjavörur og þær vörur verðum við alltaf að kaupa hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Þegar þannig er í pottinn búið hafa söluaðilar mikla tilhneigingu til að stilla saman strengi. Það má glögglega sjá í sölu á bensíni og olíu sem allir þurfa á að halda. Þessi auramunur í smásölu er engin samkeppni, bara sýndarmennska. Raunveruleg samkeppni gengur út á að slátra samkeppnisaðilanum eða deyja sjálfur. Íslendingar eru langt frá því að upplifa slíkt því við bara kaupum og kaupum eins og okkur sé borgað fyrir það.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2007 | 22:33
Rómantík.
Enn eru það sjávarútvegsmál sem eru á dagskrá hjá mér. Er þetta ef til vill eintóm rómantík að vilja að fólk geti stundað sjóinn. Er það rómantík og óraunsæi að menn geti haft lifibrauð af því að róa á litlum bát sem maður á sjálfur, ræður sjálfur. Er það rómantík að menn geti rekið svona lítið til meðalstórt útgerðafyrirtæki nálægt miðunum og haft ofan í sig og á.
Sjálfsagt er þetta óraunsæi og rómantík. Núna er öldin önnur. Núna ráða hagfræðingar. Því skal hlutunum komið þannig fyrir að hámarks gróði fáist með sem minnstri fyrirhöfn. Þá er sjálfsagt best að hafa örfá stór fyrirtæki sem geta beitt mikilli hagræðingu til gróðamyndunar. Að sjálfsögðu verður starfsfólkinu greitt eftir taxta annars eykst ekki gróðinn.
Er þetta bráðnauðsynlegt. Er ekki tími né ráðrúm til að hafa smá rómantík í lífinu. Liggur okkur lífið á? Getum við ekki hægt aðeins á okkur og notið lífsins á annan hátt en að bókfæra alltaf þennan gróða.
Ef þessar þjóðfélagsbreytingar væru knúnar fram af óvefengjanlegum vísindarannsóknum þá gæti maður ekki sagt mikið. En núna eru mjög margir sem hafa miklar efasemdir um niðurstöður Hafró. Það er alls ekki hægt að tala um einhug um rannsóknaraðferðir Hafró. Verst er að ráðleggingar eins og Hafró er með hafa hvergi skilað árangri.
Þessa dagana getur maður ekki annað en fundist forystumenn þjóðarinnar vera að klæmast á fornri Íslenskri rómantík-að vera sinn eigin herra og sjá sínum farborða.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2007 | 21:05
Kolefnisjöfnun-eða hvað?
Nú sit ég enn og aftur og brenni í mínum Mexíkóska ofni. Drekk hvítvín sem ég verð að kæla sökum óvenjumikilla hita hér í Reykjavík. Venjulega kólnar það af sjálfsdáðum hér úti á pallinum. Ekki hef ég hugsað mér að kolefnisjafna þennan bruna neitt sérstaklega. Reyndar setti konan niður nokkur blóm um daginn, ég veit ekki hvað þau vigta þungt í þessu sambandi.
Reyndar er ég þeirrar skoðunar að okkur beri að minnka mengun eins og kostur er. Þess vegna drekk ég gjarnan úr plastglösum því það er víst minnsta mengunin. Það kostar meira að þvo venjuleg glös og ég tala ekki um sápuna sem við sleppum út í umhverfið samfara þeim þvotti. Plastglösin fara í náttúruna og eru þar og hafa engin áhrif.
Ég hef enga trú á því að við séum að grilla jörðina til frambúðar sem er ekki það sama og að okkur leyfist að búa til ómælt magn af gróðurhúsalofttegundum. Það ber að minnka eftir því sem tök eru á. En þessir dómsdagsspádómar eru hreint rugl. T.d. hefur verið margsinnis mun heitara á jörðinni en núna og samt er ég að blogga ósviðinn.
Kolefnisjöfnun er nokkuð merkilegt fyrirbæri. Ef ég tek þá meðvituðu ákvörðun að menga þá get ég greitt fyrir með því að borga í sjóð og hef fengið þannig syndakvittun. Þetta er syndaaflausn nútímans samanber syndaaflausn kaþólskunnar fyrr á öldum. Það er sjálfsagt skammt í sjóð sem maður getur greitt í áður en maður heldur fram hjá konunni eða hvað?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.7.2007 | 22:24
Var þetta ofbeldi?
Forsætisráðherra bað bankana að sína þeim Íslendingum miskunn sem fara illa út úr 30% skerðingu á lifibrauði sínu.
Ef kaupið mitt yrði lækkað um 30% hvað myndi ég gera. Ég væri a.m.k. ekki svona rólegur eins og viðmælendur hafa verið í sjónvarpinu hingað til. Ég yrði brjálaður. En kannski er fólkið ekki búið að gera sér grein fyrir þessu ennþá. Það er e.t.v í sama hugarástandi og konan var í á meðan henni var nauðgað á Hótel Sögu s.l. vetur. Hún trúði ekki því sem var að gerast og varð þess vegna ekki brjáluð. Það kom seinna. Við eigum sjálfsagt eftir að sjá kröftug viðbrögð seinna.
Það hugsa sjálfsagt margir með hlýhug til ríkisstjórnarinnar fyrir framtak sitt að opna neyðarmóttöku fyrir 70% Íslendingana. Bankarnir eru beðnir um miskunn sem táknar sjálfsagt að þeir láni lengur, þeir hafa aldrei gefið neitt. Flytja á störf út á land, vegaframkvæmdir ofl ofl ofl.
Hann var sýknaður í undirrétti en spurningin er hvað gerist í Hæstarétti. Ef þorskarnir eru ekki fleiri í sjónum að þremur árum liðnum þá var þetta ofbeldi eftir allt saman.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2007 | 00:14
Læknaráð og Hafró.
Það er ein af tillögum ríkisstjórnarinnar að Hafró skipi sérfæðingahóp til að rannsaka sjálfan sig.
Núna hefur Mannréttindadómstóllinn í Evrópu nýlega dæmt í máli og snúið við dómi Hæstaréttar. Aðalgagnrýnin var sú að Læknaráð sem gaf umsögn til dómstólanna var samansett af mönnum sem störfuðu hjá Landspítalanum þar sem atvikið átti sér stað. Um greinilega hagsmunaárekstra, ég segi ekki hagsmunagæslu var að ræða. Þau gömlu lög sem Læknaráð byggir á eru allir sammála að fella úr gildi og þar á meðal læknar.
Þegar kemur að Hafró og rannsóknum þeirra þá eiga þeir að meta eigin ágæti. Niðurstaðan er nokkuð fyrirséð. Ég held að við getum hætt að tala um læknamafíu en frekar farið að velta fyrir okkur fiskifræðingamafíu. Hvað knýr menn til að berjast fyrir stefnu sem hefur fært okkur allt færri þorska áratugum saman. Hvernig ná menn slíkum árangri, erum við svona auðtrúa og gagnrýnislaus. Það eitt að enginn árangur hefur orðið ætti að vekja upp einhverjar efasemdir.
Í gamla daga voru læknar í Guða tölu og enginn gagnrýndi ákvarðanir þeirra. Í dag þegar einstaklingur fær sjúkdóm fer hann á netið og spyr doksa hverja af þrem meðferðarmöguleikum hann hyggist velja fyrir sig. Þá segir doksi," nú ég vissi bara um tvo möguleika". Þetta er til mikilla bóta að einstaklingar eru meðvitaðir og taki fullan þátt í sinni meðferð. Þessu ber að fagna.
Aftur á móti eru rannsóknir á þorskinum á einni hendi, þeir hafa algjört ægivald og eiga meira að segja leggja dóm á sjálfan sig, eins og Læknaráð. En nú fer fólk á netið og les sig til um rannsóknir á þorski og skyldum málum. Það kynnir sér málin og margir hafa tjáð sig og lýst miklum efasemdum um ágæti Hafró og tillagna þeirra. Einar K er sennilega ekki nettengdur eða auðtrúa.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)