Færsluflokkur: Löggæsla

Síðasta frjálsa kosning Alþingismanna

Ég var á þingpöllum í allt kvöld. Báðir synirnir mínir voru með, hugsanlegir greiðendur Icesave. Það var mjög sérstök upplifun að fylgjast með þingmönnum svona þráðbeint.

Eftir að hafa hlustað á allar ræðurnar í kvöld rann það upp fyrir mér dýrasti maður Íslands er Davíð Oddson. Hatur núverandi ríkisstjórnar á Davíð er svo mikið að þjóðinni skal refsað með Icesave. Það var nefnilega þessi þjóð sem vogaði sér að kjósa hann og því skal henni refsað. Það sem mér sárnar mest að ég hef aldrei kosið Davíð, en eftir að hafa horft á Steingrím og co fremja hórdóm á vinstri pólitík vitum við fæst hvað við kjósum næst.

Við munum aldrei kjósa neinn af þeim sem sögðu já við Icesave, það er víst.

Reyndar hefur það takmarkaða þýðingu úr þessu því AGS mun ráða för á Íslandi til frambúðar. Núna hefur Icesave hindruninni verið rutt úr vegi og eftir það getur AGS farið að taka til hendinni á Íslandi. Um miðjan janúar mun AGS koma með nýja endurskoðun og þá mun sjálfsagt koma fram betur hvernig þeir hafa hugsað sér að við stöndum í skilum við lánadrottna okkar. Ég kvíð því,þjóð mín á ekki slíkt skilið bara vegna löngunar útlendinga í auðlindir okkar. Mér mun ætið verða það óskiljanlegt hvernig Steingrími detti það í hug að við kunnum að meta þessi örlög.

Samfylkingin hugsar bara um ESB í þessu máli og aflífaði þar með áhuga minn á þeim klúbbi.


Austurvöllur í dag kl 17

Nú mæta allir og sína samstöðu með íslensku þjóðinni.

May the force be with us

Enn er hugur minn fullur svartsýni. Það er ekkert sem í fréttum sem gæti valdið bjartsýni í mínum huga. Í kvöldfréttum RÚV kom frá að til þess að AGS geti tekið okkar mál fyrir þurfa þeir í Wasington staðfestingarvottorð frá Norðurlöndunum um að þeir ætli virkilega að lána okkur peningana. Við erum nú þegar búin að skrifa undir lánasamning við "vinaþjóðir" okkar en það er ekki nóg. Því verður ekkert framhald á aðstoð AGS til okkar fyrr en Norðurlöndin gefa okkur grænt ljós. Norðurlandaþjóðirnar munu ekki gefa út sitt vottorð fyrr en við höfum gengið frá IceSave. Því mun ekkert koma frá AGS til okkar fyrr en IceSave hefur verið troðið niður í kokið á okkur eins og á franskri gæs. Þess vegna segir Steingrímur að alla lánalínur muni lokast ef töf verður á IceSave málinu.

Steingrímur veit eins og er að ekki dugar að mögla, auk þess ef maður er þægur þá fær maður mjúkan stól. Kannski munu S og VG sameinast og Steingrímur verður nýr formaður-rosa flott.

Þess vegna eigum við engra kosta völ. Við verðum svelt til hlýðni. Öngvir peningar munu koma nema við samþykkjum IceSave. Þá þurfum við að fara að borga allar skuldirnar. Fræðimenn fullyrða að þær séu okkur ofviða. Í þeirri stöðu verðum við eins og mjúkur leir í höndunum á samninganefnd ESB. Sjávarútvegur og landbúnaður verða algjör aukaatriði ef maður sveltur. Auk þess er það hulin ráðgáta hjá samninganefnd ESB hvað 300.000 hræður, svona eins og borgarhluti í Berlín, er að gera veður út af smámunum. Þrasið í okkur tefur bara dagskrána.

Í raun eru bara tvær spurningar sem standa út af borðinu. Sú fyrri er hversu mikið munu þeir mjólka okkur. Lán hafa þá náttúru að þurfa að endurgreiðast. Verður um 50% lækkun launa, 50% niðurskurð í heilbrigðis, félags - og menntamálum svo við getum staðið í skilum. Hversu mörg álver verða reist.

Hin spurningin er hversu margir hafa tök á að flýja Ísland.

http://www.addconsults.com/store/images/star%20wars.jpg

 

 


Nú er Golgata fullmönnuð Bjarni..

Tveir menn söfnuðu miklum peningum fyrir fjárvana Sjálfstæðisflokk. Enginn í flokknum vissi um það. Hinir flokkarnir gerðu eins. Amen.

Þar með eiga allir að vera sáttir. Sjálfstæðisflokkurinn gerði ekkert "meira"rangt en hinir. Í versta falli brást fólkið aftur en ekki flokkurinn. Bjarni Ben hefur verið önnum kafinn síðustu dagana en núna er hann búinn að fullmanna Golgata hæðina. Geir verður í miðjunni og hinir, Þorstinn og Steinþór til beggja hliða.

http://www.arameiska.nu/wp-content/uploads/2008/11/golgata.jpg

Þar með finnst þeim öllum málið vera dautt og eru voða sorry að við hin skyldum fara á taugum.

Mergur málsins er að nokkrir einstaklingar geta ákveðið að færa hálft hundrað milljónir frá fyrirtækjum til Sjálfstæðisflokksins. Ef fyrirtækin væru einkaeign viðkomandi væri það sök sér, en nú er því ekki þannig háttað. Hluthafar hljóta að setja spurningamerki við arðsemi þessarar fjárfestingar viðkomandi hlutafélags. Því það er látið líta þannig út að um gjöf fátæku ekkjunnar sé að ræða. Ef engin arðsemi er væntanleg er um svik gagnvart hluthöfum því þeir fjárfesta í fyrirtækjum til að fá arð.

Okkur, þessum sem fórum á taugum, finnst mun líklegra að arðsemi fjárfestingarinnar hafi verið þekkt. FL grúpp vildi komast í heita vatnið og Landsbankinn vildi hafa sína menn góða. Þar með erum við komin að viðkvæmu efni-spillingu.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf reyndar ekki að óttast neitt því mjög sennilega verður þetta allt gleymt og grafið 25 apríl.

http://zeriaph.blog.is/users/a3/zeriaph/img/falki_826539.jpg

 


180° snúningur löggæslunnar.

Að Geir sé sjúkur er mjög sorglegt. Ég sendi honum baráttukveðjur og ósk um góðan bata. Það er skammur tími sem hann hefur til að undirbúa sig fyrir skurðaðgerðina. Sá undirbúningstími getur verið jafn mikilvægur og aðgerðin. Það er mjög nauðsynlegt að undirbúa sig vel andlega.Geir gangi þér allt í haginn í veikindum þínum.

Ástandið er skelfilegt í landsmálum okkar. Alþingi götunnar vinnur baki brotnu að koma vitinu fyrir hina þingmennina sem eru í grjótinu. Það er ekki skrítið að mótmælin hafi komið þeim í opna skjöldu. Meðan þeir voru í mánaðarlöngu jólafríi vorum við hin að vinna þingstörfin okkar. Krafan um nýtt Ísland, nýja stjórnarskrá, Stjórnlagaþing, útrýmingu spillingar, kosningar og alþrif í Seðlabanka og FME mun bara aukast. Á endanum munu lögreglumennirnir snúa sér í 180 gráðu hring og setja rimla í gluggana á Alþingishúsinu og læsa dyrunum.Vonandi kjósum við áður en að því kemur.

 


Lögreglumenn...

..og makar þeirra og börn-við segjum takk fyrir vel unnin störf.

Hvernig ætli það sé að einbeita sér í vinnunni í 100+ decibela hávaða allann tímann, einhver að banka í hausinn á manni með sleif, slettir á mann landbúnaðarafurðum, bæði hráum úr iðrum mótmælenda eða fullunnum úr ísskápnum hennar mömmu. Þegar það dugar ekki til eru opinberir starfsmenn grýttir með grjóti og gangstéttarhellum svo þeir stórslasast. Ætla sömu einstaklingar að hrækja og berja aðra opinbera starfsmenn sem eru þeim ekki að skapi, kennara, lækna, presta eða tollverði.

Að lögreglumenn hafi ekki alltaf gert allt rétt að mati ótilkvaddra dómara er vel hugsanlegt. Ég segi nú bara, er einhver hissa miðað við vinnuæðstæður. Hvernig ætli skurðlækni gengi að snara úr manni gallblöðrinni niðrá Austurvelli, sennilega dræpist sjúklingurinn.

Ég hef mótmælt í allt haust-mjög friðsamlega. Ef einhverjir fimmtíu ofbeldisfullir einstaklingar ætla að beita sínu fátæklega tjáningaformi, ofbeldi, þá bið ég þá allra bæna að halda sig heima framvegis. Við hin viljum fá að mótmæla áfram, friðsamlega.


Dagur eitt í mótmælum og Obama.

Það voru mikil mótmæli við Alþingishúsið okkar í dag. Ég vil þakka þeim mótmælendum sem stóðu vaktina fyrir mig því ég komst ekki sjálfur. Ég sá í sjónvarpinu í kvöld mótmælenda banka síendurtekið með sleif í hjálm lögreglumanns. Mér finnst það tilgangslaus mótmæli og mér finnst að við eigum ekki að ögra Lögreglunni beint. Lögreglan eru vinir okkar, eiga sjálfir börn og skuldir. Lögreglan er þar að auki í mjög erfiðri stöðu. Hún þarf að ganga bil beggja, eða allra í raun. Ráðherrarnir eru í fýlu og vilja  að löggan blási þessum lýð í burtu. Ultrahægristrákar eins og Gísli Freyr finnst lögreglan eigi að skilgreina ofbeldi og skemmdaverk ultraþröngt svo Lögreglan gangi hart fram. Það þjónar hagsmunum ultrahægristrákanna. Helga Vala var aftur á móti á annarri skoðun. Hún taldi daginn í dag, dag eitt í mótmælum. Þar fer hún eins að og Obama og telur kjark í sína þjóð. Sjálfsagt er hún sammála Obama að alvöru menn verða að kljást við aðsteðjandi vandamál og leysa þau en ekki hygla sérútvöldum. Obama sagði að sá tími sé liðinn í Bandaríkjunum. Geir ætti að drífa sig svo hann geti tekið sama strætó og Bush vinur hans.

Að öllu gamni slepptu. Ef íslenska Ríkisstjórnin gerir sér ekki grein fyrir að hún á að boða til kosninga mjög fljótlega er hún ekki á vetur setjandi. Íslensk þjóð virðist hafa gert upp hug sinn. Hún mun halda áfram að þrýsta á um kosningar. Því er spurningin ekki hvort heldur hvenær. Eftir því sem Ríkisstjórnin reynir að tóra því meir mun ofbeldið færast í aukana. Ábyrgð þess er á endanum Alþingis. Því verða Alþingismenn að vakna og brjótast undan flokksræðinu. Kæru Alþingismenn, er ekki mun skemmtilegra og nytsamlegra að fara í snarpa kosningabaráttu en að halda áfram að greiða atkvæði eftir pöntun?

 


Umboðslausir valdhafar-gefist upp.

Hvað er í gangi þjóðfélagi okkar? Margir reyna eftir bestu getu að taka púlsinn. Ekkert einhlýtt svar er til. Það eru mjög margar tilfinningar sem bærast með þjóðinni. Hvort komið sé að úrslitastund er ekki augljóst en ég tel þó að hún nálgist óðfluga. Þegar gamall stjórnmálaflokkur eins og Framsóknarflokkurinn tekur u beygju í ESB málinu virðist manni eins og fjölmiðlamenn rembist við að vekja áhuga almennings á málinu. Samt er áhuginn takmarkaður. Verra er með Landsfund Sjálfstæðismanna. Þar eru menn nú þegar byrjaðir að skrifa í blöð hvað sá ágæti fundur komi okkur yfirleitt við, og fundurinn er ekki einu sinni hafinn.

Traust á valdhöfum landsins er búið. Okkar kjörnu fulltrúar hafa rofið sáttmálann sem gerður var í síðustu kosningum. Við treystum þeim fyrir vörnum lands og þjóðar. Þeir brugðust. Þeir kannast ekki við ábyrgð sína og ætla að halda áfram að þumbast. Í raun er eina spurningin sem eftir er, hvenær ætla núverandi valdhafar að víkja? Þjóðin bíður og vonar að þeir leggi frá sér völdin. Það sem gæti hugsanlega valdið óróa og látum í þjóðfélaginu er ef stjórnvöld skynja ekki vitjunartíma sinn og reyni að hanga á útrunnu umboði. Að mótmælum landsmanna linni er óskhyggja sem mun ekki rætast.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband