Alþingi götunnar mun halda vöku sinni eftir sem áður!!

Þá er Ríkisstjórnin komin á koppinn. Ég er viss um að stór hluti þjóðarinnar er nú þegar búinn að lesa stjórnarsáttmála þessarar Ríkisstjórnar. Svo mun þjóðin fylgjast með og haka við uppfyllt loforð eftir því sem dagarnir líða. Væntingarnar eru mjög miklar og refsingin við vanefndum verður kolbrjáluð þjóð á Austurvelli. Því tel ég að stjórnarandstöðunni verði ekki kápan úr klæðunum ef þau ætla að reyna að eyðileggja fyrir Jóhönnu. Ef Alþingi Íslendinga hefur ekki manndóm í sér til að verja almenning fyrir holskeflu kreppunnar verðum við Austurvellingar að spúla dekkið í eitt skipti fyrir öll.

Steingrímur er skemmtilegur karl og ótrúlegur í tilsvörum. Þegar blaðamaður spurði hann út í sjávarútveginn, og var að velta fyrir sér mannréttindabrotum og framsali kvóta, þá fer hann að tala um fullvinnslu sjávarafurða. Maður sér fyrir sér fínan pinnamat sem engin hefur efni á kaupa, hvorki hér eða erlendis. Spillingin í kringum kvótann, framsal hans og veðsetning hefur verið þjóðinni hugleikin í allt haust. Þjóðin mun ekki sætta sig við neitt annað en að þessi spilling verði krufin og leiðrétt. Vonandi skilur Steingrímur það. Þar sem Steingrímur studdi framsal á sínum tíma á Alþingi má segja að hann sé upphafsmaður að þeirri spillingu sem að lokum leiddi til bankahrunsins nú í október. Nú er gullið tækifæri fyrir Steingrím að snúa við blaðinu og verða minnst sem maður að meiri fyrir vikið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Alþingi götunnar og Alþingi netsins, því á netinu hafa orðið til samtök um ýmis hagsmunamál undanfarnar vikur. Auðvitað hefur fólk líka verið að hittast, en netsambönd hef líka verið óspart notuð og kannski meira en margan grunar. Steingrímur er og verður undir mikilli pressu þessa 83 daga. Hann er með þann spilltasta málaflokk sem til er á Íslandi, sem hefur verið lengst við lýði og hefur minnsta umfjöllun fengið af Alþingi götunnar, sjávarútveginn.

Það hefði ekki verið klókt að lofa einhverju í beinni útsendingu, því ég er viss um að afturkall á kvótanum verður að skoða mjög vel lagalega. LÍÚ er með heilt "stóð" lögfræðinga á sinum snærum og það eru svo miklir hagsmunir í húfi fyrir þjóðina og kvótaeigendur, að þar verður hart barist. Ég mundi telja vafasamt að ráðast í það mál nú, nema því aðeins að undirbúningur sé þegar hafinn

Hólmfríður Bjarnadóttir, 1.2.2009 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband