Færsluflokkur: Menning og listir

Eru bara að fá útrás.

Ýmsir eru að reyna þessa dagana að gjaldfella mótmælin sem eru víða í þjóðfélaginu. Sagt er að við séum bara að þessu til að fá útrás. Kvartað er yfir því að við komum ekki með lausnir á vandamálum þjóðarinnar. Það er greinilegt að þessi tvö orð eiga ekki saman í dag, þ.e. "útrás" og "lausnir".

Staðreyndin er sú að útrás mun hingað til tengjast vandamálum frekar en nokkru öðru. Aftur á móti tel ég að það sé tilgangur í því að fá "bara útrás". Fólki líður kannski betur, það er ekki slæmt markmið í sjálfu sér.

Ég tel að öll sú mikla virkni sem við upplifum hjá almenningi í dag sé af hinu góða. Fólk er að minnsta kosti að velta fyrir sér vandamálunum, það er forsenda þess að einhverjar lausnir komi fram.

Sumir hafa gagnrýnt Borgarafundina, eins og þann sem var í Háskólabíó um daginn. Sjálfsagt ekki gallalausir frekar en önnur mannanna verk. Meginstef fundanna er krafan um upplýsingar. Almenningur hefur ekki aðgang að þeim upplýsingum sem þarf til að leysa vandamál þjóðarinnar. Það er  sennilegasta skýringin á því að Jón Jónsson á götunni er ekki búinn að leysa kreppuna fyrir okkur-svona í einum grænum. Án upplýsinga er mjög erfitt að mynda sér skoðun. Mjög mörgum finnst vera mikill upplýsingaskortur á Íslandi. Við viljum búa í upplýstu samfélagi, ekki vera hluti af sértrúarflokki þar sem æðstu prestarnir ráða öllu.


Verðtrygging-fyrir hvern?

Ég fann þetta á heimasíðu SilfurEgils og fannst þetta svo athyglisvert að ég stal þessu. Vonandi fyrirgefur hann mér stuldinn.

 

Fundur um verðtryggingu

Sæll, var á fundi hjá Samfylkingunni í Reykjavík í gær um verðtryggð lán og þar kom Gylfi formaður ASÍ sem er í forsvari hóps sem Jóhanna skipaði til að skoða málefni fólks með verðtryggð lán.  Þar fór sannarlega fulltrúi alþýðunnar - EÐA EKKI!  Hann var alveg harður á því að halda óbreyttri verðtryggingu og í raun bara að lengja í snörunni. Þú átt að geta sótt um að lækka greiðslubyrði um 20% frá og með fyrsta des. ef þú vilt en mismunurinn fer bara á höfuðstólinn og safnar þar vöxtum og verðbótum.  Síðan sagði hann (lausleg endursögn) að ef verðtryggingunni væri breytt færi Íbúðarlánasjóður og bankarnir á hausinn nokkrum vikum síðar og þá þyrfti að skera niður velferðarkerfið, borga hærri skatta og sparnaður foreldra okkar myndi hverfa. “Viljið þið það?!”.

Síðan var hann svo ósmekklegur (að okkar mati sem finnst það grafalvarlegt mál að sjá höfuðstól lána okkar hækka um fleiri hundruð þúsund í hverjum mánuði) að segja nokkra fimmaurabrandara um að hann vildi að hann væri jólasveinninn sem gæti gert allt fyrir alla og um Davíð Oddson.  Frekar lélegt.  Hverra hagsmuna er hann að gæta?  Ég skil vel að einhver á þessa peninga en gætu ekki báðir hópar þurft að taka á sig eitthvað tap - ekki bara lántakendur.  Ég er búin að missa alla von á þessu dæmi öllu.

 

[Snara.JPG]


Fúlegg verða forsíðufrétt-er þetta góð blaðamennska?

Ég var á Austurvelli í dag. Þar voru fluttar mjög góðar og innihaldsríkar ræður. Fólk stóð og hlustaði með athygli og tók vel undir með klappi og húrrahrópum. Síðan var fundi slitið. Fólk hvarf til síns heima eða annarrar iðju. Nokkrir tóku upp á þeim óskunda að kasta eggjum í Alþingishúsið. Gjörsamlega tilgangslaus gjörningur-það var nefnilega enginn heima.

Nokkur fúlegg á gömlu mannlausu húsi í Reykjavík verður síðan aðal yrkisefni blaðamanna. Þvílíkt fréttamat, þetta er hneisa. Auðvitað er það mun merkilegra að almennir borgarar gefi sér tíma til að iðka lýðræðið, það er frétt. Hvað sögðu ræðumenn, það er frétt. Hver vill láta útifundinn líta út sem skrílslæti. Hjá hverjum vinna þessir blaðamenn, eða hafa þeir bara ekki kveikt á perunni-við krefjumst þess að vera viðmælendur. Takk fyrir.


mbl.is Eggjum kastað í Alþingishúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð okkar.

Í mínu starfi fylgist ég með lífsmörkum einstaklinga sem eru í skurðaðgerðum. Ég þekki til hvernig líkaminn bregst við ýmsum lyfjum sem ég gef einstaklingnum. Ég veit einnig hvernig mismunandi einstaklingar bregðast við sömu lyfjum og haga mér í samræmi við það. Einnig er ég viðbúinn hinu óvænta. Ofsablæðing í skurðaðgerð er í raun mjög óvænt atvik, sjaldgæft en möguleiki. Þrátt fyrir að þetta gerist mjög sjaldan þá erum við alltaf undir það búnir. Við höfum alltaf tiltæka vökva og neyðarblóð. Við höfum stóra og góða aðganga til að gefa slíkt. Oft er sagt að við svæfingalæknar séum allt of stressaðir og sjáum stórslys í hverju horni. Reynslan hefur einfaldlega kennt okkur að það borgar sig að hafa bæði belti og axlabönd. Ástæða þessa er að sjálfsögðu umhyggja okkar fyrir skjólstæðingum okkar. Einnig og ekki síður orðspor okkar því það er mjög auðvelt að draga hvern og einn okkar til ábyrgðar.

Í bankamálum þjóðarinnar virðast ekki vera neinir sökudólgar. Aftur á móti fullt af fólki sem hvítþvær hendur sínar eins og Seðlabankastjóri okkar. Allir virðast hafa bent á hætturnar, hættuna af of mikilli fjárfestingu bankanna og hættuna af of veikum Seðlabanka með tilliti til þessara miklu fjárfestinga bankanna. 

Ég stöðva skurðlækni sem vill skera upp sjúkling sem er á fullri blóþynningu því honum mun blæða. Ef sjúklingur fer í aðgerð sem getur blætt mikið á ég nóg af blóðvarasjóð í hann svo hann lendi ekki í blóðþurrð því þá gæti hann orðið fyrir varanlegum skaða. Ég er Seðlabankinn. Skurðlæknirinn er útrásarbankinn því ef vel teks til þá mun sjúklingurinn læknast, en því fylgir viss áhætta. Hver er ábyrgur, sjúklingurinn(kaupandi hlutabréfa), skurðlæknirinn(bankinn) eða svæfingalæknirinn(Seðlabankinn). Allir en það er eins og svæfingalæknirinn ætli að sleppa.


Daður Össurar við Frjálslynda flokkinn.

Össur fer mikinn á heimasíðu sinni í dag. Margt tilreiðir hann sér í hag. Útlendingastefna FF er varkár stefna sem setur spurningamerki við ýmislegt í þeim málaflokki. Ástæðan er sú að nágrannaþjóðir okkar hafa átt í erfiðleikum með nýbúa. Við í FF höfum viljað draga fram það sem hefur gengið miður og hvað hefur gengið vel hjá nágrannaþjóðum okkar í þessum málaflokki. Fyrir vikið erum við kallaðir rasistar. Þetta veitir andstæðingum okkar góðan höggstað á okkur. Samfylkingarmenn, eins og Össur vita þetta mæta vel. Þeir velta sér upp úr þessu eins og svín í flór.

Að temja sér yfirsýn og stjórn á aðstreymi nýbúa til landsins er kallað rasismi. Svipuð örlög hljóta þeir sem vilja ekki drekka áfengi stjórnlaust. Þynnkan gæti orðið verri en menn hugsuðu sér.

Að Sigurjón vilji velta Guðjóni úr sessi er rangtúlkun á ástandinu. Sigurjón eins og margir í flokknum vilja að honum sé stjórnað  og að jafnræðis sé gætt á milli landshluta og stefnumála. Mikill halli hefur verið á flokknum í átt að Vestfjörðum og því hefur mörgum þótt ástæða til að breyta því. Af þeim sökum fær Sigurjón áskorun um að gefa kost á sér í formanninn. Hvort hann geri það er alls óvíst. Guðjón hafnaði Sigurjóni á sínum tíma, sjálfsagt fyrir áeggjan Kristins H. Sennilega er það sterkur hvati innan FF að hvetja Sigurjón til til formennsku þegar Framsóknarmaður setur fyrir hann fæturna. Ef hann er velkominn í Samfylkinguna er það vel.


mbl.is Össur býður Kristin H. velkominn í Samfylkinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÞEIR SIGRUÐU ÞVÍ ÞEIR UNNU SILFRIÐ-TAKK, ÞIÐ ERUÐ FRÁBÆRIR.

The image “http://eyjan.is/files/2008/08/lidid-allt.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

 

 


Flashback gamals fíkils.

Ég fann það í kvöld að ég er fíkill. Vil ekki neina meðferð í bili. Víman gaf gott kikk. Hugurinn hvarf til fyrri tíma, svona eins og er kallað flashback. Fór sem sagt á tripp í kvöld. Var á Miklatúni og hlustaði á Magnús og Jóhann-Ísland er land þitt.. algjör alsæla. Ungu krakkarnir horfðu á okkur gamlingjana og flissuðu. Þannig umgangast nú allir fólk sem er í vímu. Mér er sama þetta var æðislegt. Takk.

Draumur aldamótabarnsins - Magnús Þór Sigmundsson


 


Fagin og kók.

Það er merkilegt þetta blessaða þjóðlíf okkar. Þegar bankarnir missa tekjur auka þeir álögurnar á okkur venjulegum neytendum. Þannig halda þeir í horfinu og útlendir greinendur skilja ekki neitt í neinu. Þrátt fyrir djúpa niðursveiflu skila þeir afgangi. Meira að segja Bubbi tapaði á trúnni á fyrirtækjum. Mjög einföld regla er sú að fjárfesta í fyrirtækjum sem framleiða eitthvað, eins og Coke t.d. Ekki fjarfesta fyrr en síðasta skuldin er greidd, þannig er það bara. Þetta eru hinar einföldu reglur gyðingsins í Mark Twain. Það virðist að þeir sem telja fólki trú um að að fara EKKI eftir þessum grundvallaratriðum hagfræðinnar fái mestu launin. Það virðist sem Brútus hafi alltaf vinninginn.

Það er eins og öll íslenska þjóðin hafi verið að sniffa kók undanfarin ár. Full af óraunsæi og látið slag standa. Þjóðin er núna með timburmenn og fráhvarf. Yfirvöld, þ.e. íslenska Ríkisstjórnin virðist enn vera í vímu. Allt er svo gott og elskulegt og best að gera ekki neitt og bara njóta. Við þessir venjulegu sem erum fyrir löngu komnir úr trippinu sköðumst bara enn meira eftir því sem tíminn líður. Það er mál til komið að senda yfirvöld í þurrkví.

Meginregla Fagins var eftirfarandi; afla 20 pennía og eyða 19, einfalt ekki satt. 

http://frances-buckroyd.com/blog/wp-content/uploads/2007/01/dodger-and-fagin1.jpg


Hinsegin dagar.

Í dag er gleðidagur homma og lesbía. Skrúðganga með meiru sem er orðin fastur liður í Reykjavík. Öllum finnst þetta hið besta mál og allir reyna að skemmta sér eftir bestu getu. Veðrið er gott svo það stefnir í góðan dag.

Á slíkum tímamótum er gott að staldra við og rifja upp að ekki var slíku frelsi fyrir að fara áður fyrr, það er ekki einu sinni mannsaldur síðan þetta hefði verið ógjörningur. Þetta kostaði að sjálfsögðu mikla baráttu. Mannréttindi eru ekki keypt í næsta sjálfsala, það þarf að berjast fyrir þeim. Það þarf einnig að halda vöku sinni svo þau glutrist ekki niður í ræsi mannvonskunnar.

Það hafa ekki allir sömu mannréttindi og við á Íslandi. Samkynhneigðir eru ofsóttir víða. Sumstaðar liggur við dauðarefsing. Nú hafur einhver hótað ofbeldi vegna gleðigöngu. Sættum okkur aldrei við það og sínum samstöðu. Því var það sorgleg frétt að Borgarstjórinn mætti ekki á opnunarátið Hinsegin daga á fimmtudagskvöldið. Til viðhalds mannréttindum landsmanna þurfa allir að leggja sitt af mörkum, líka hann. 


Lífið er yndislegt-en samt bíð ég eftir SMS á mánudaginn.

Nú er helgin skollin á. Veðrið er mjög hagstætt. Það er til mikilla bóta. Hugur minn er í Vestmannaeyjum því síðastliðin tvö ár hef ég verið á Þjóðhátíð. Minningarnar þjóta um hugann. Núna þarf ég að vinna um helgina og gat því ekki komist í lundann. Á reyndar nokkra í frystinum síðan í fyrra. Önnur ástæða er að sonurinn er á Þjóðhátíð. Hann flaug frá Bakka og mun fara sömu leið til baka á mánudaginn. Þetta vekur ugg í brjóstum foreldra, skiljanlega. Ég var á bakvakt mánudaginn árið 2000 og sinnti flestum sem lentu í flugslysinu og öðrum slysum þá nótt. Því mun ég ekki vera í rónni fyrr en sms-ið er komið á mánudaginn.

The image “http://www.frostandfire.is/pictures/lundi.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband