Nonni 150 ára og Landspítalinn.

Jón Sveinsson eða Nonni er 150 ára um þessar mundir. Allir þekkja bækur hans og glæstan ritferil. Ég var að lesa um daginn Landspítalabókina sem Gunnar M. Magnússon tók saman. Þar kemur fram að Nonni hafði safnað fé í Evrópu til að byggja holdsveikraspítala á Íslandi. Áður en til þess kom að nýta samskotafé Nonna höfðu danskir Oddfellowar tekið verkið að sér. Þennan sjóð fengu síðan St. Jósefssystur til að byggja Landakotsspítala sem opnaður var 1902. Sjóður Nonna gerði þeim kleift að reisa spítalann á mettíma og þannig ná forystu í spítalarekstri á Íslandi. Þangað flutti öll kennsla læknaskólans. Því má segja að sértrúarfélag hafi fóstrað vöggu heilbrigðismála Íslands fram til 1930 þegar Landspítalinn opnar. Á þeim tíma rann mörgum til rifja getuleysi íslenskra stjórnvalda við að sinna spítalabyggingum og rekstri fyrir landann. Fannst mörgum aumt að þurfa að þyggja ölmusur af trúfélögum í þessum málum. Kemur fram í Ísafold á þessum tíma eftirfarandi "Vafalaust er þetta eini höfuðstaður utan hins kaþólska heims, sem lætur kaþólsku kirkjuna sjá sér fyrir sjúkrahæli, í stað þess að gera það sjálfur eða í samlögum við ríkið, landið."

Ætli það geti hugsast að sagan muni endurtaka sig. Nonni fór í útrás og gerði það gott. Honum tókst að safna fé fyrir spítala í Reykjavík. Hluti skýringarinnar var mikið vafstur yfirvalda og það tómarúm sem myndaðist við það. Sama staða er uppi í dag. Nýr Landspítali er á teikniborðinu og mikill hugur í starfsmönnum hans að standa vel að verki svo Íslendingar þurfi ekki að búa við jafn slæman húsakost og hingað til. Aftur á móti er skortur á skýrum skilaboðum frá Ríkisstjórn Íslands. Spurningin er hvort það vafstur muni leiða til sömu niðurstöðu og um árið og ríkir útrásarmenn muni fylla í tómarúmið með enn einum ölmususpítalanum.

 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Gunnar Skúli.

Gleðilegt nýtt ár með þökk fyrir það gamla.

Stjórnvöld hér á landi hvoru tveggja þurfa og verða að standa málum með mannsæmandi hætti hvað varðar aðbúnað sjúkraþjónustu í landinu.

Byggingar að nauðsyn þarfa og nægilegur mannafli að störfum eru grunnforsendur alls.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 1.1.2008 kl. 02:25

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kæri bloggvinur, Gunnar Skúli.

Ég þakka þér þessa grein þína, sem var svo athyglisverð, að ég greip tækifærið og leyfði mér að birta stóran hluta hennar á Kirkju.net og síðan tengil hingað til að lesa meira. Ég vona, að það sé ekki í óþökk þinni, en ef svo er, skal ég strax fjarlægja hana þaðan eða skera niður sýnishornið, svo að menn lesi sem mest hér. Ég vona bara, að þér finnist gott, að fleiri frétti af grein þinni og lesi.

Guð gefi þér og þínum blessunarríkt ár og góða daga.

Jón Valur Jensson, 1.1.2008 kl. 03:50

3 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Jón, jú ég er sáttur við þessa notkun á bloggfærslu minni. Skilningur þinn er réttur á orðinu sértrúarfélag, það ætti mun síður við í dag. Gleðilegt ár.

Gunnar Skúli Ármannsson, 1.1.2008 kl. 14:22

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir þetta, Gunnar Skúli.

Jón Valur Jensson, 3.1.2008 kl. 00:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband