Ráðstafanir Steingríms eru kokkaðar í Whasington

Pressugrein  3 ágúst 2010.

Bankahrunið eins og nafnið gefur til kynna er orsakað af bönkum og starfsemi þeirra. Hvert og eitt okkar hinna gekk til sinna starfa árið 2008, sinntum skyldum og skuldbindingum okkar að venju. Sú fullyrðing að við séum meðsek vegna þess að við horfðum ekki yfir axlirnar á bönkunum, ríkisvaldinu og eftirlitsstofnunum á hverjum degi er æði langsótt.

Síðan hafa allar aðgerðir stjórnvalda snúist um að skrapa saman eins miklum fjármunum og nokkur kostur er til að greiða skuldir bankakerfisins. Það sem þessar skuldir eiga sameiginlegt er að Alþingi Íslendinga hafði ekki stofnað til þeirra fyrir hrun. Upphaf skuldanna má rekja til athafna utan valdsviðs kjörinna fulltrúa þjóðarinnar. Þrátt fyrir það á þjóðin að borga skuldirnar á eftirfarandi hátt:

Boðuð er frysting á launum í all nokkur ár og segir ráðherra vel sloppið ef frystingin ein dugar. Niðurskurðahugmyndir fyrir komandi fjárlagaár eru svo hrikalegar að framkvæmdastjórar ýmissa stofnana telja sig ekki geta veitt lögbundna þjónustu.

Háir stýrivextir á Íslandi eru banvænir fyrir viðkvæmt atvinnulíf okkar. Hækkun skatta.

Niðurskurður hjá hinu opinbera veldur atvinnuleysi, bæði hjá opinberum starfsmönnum og einkaaðilum sem höfðu verkefni hjá hinu opinbera. Niðurskurður tekna almennings veldur samdrætti hjá öllum fyrirtækjum landsins og þar með er kominn vítahringur.

Nánast engar afskriftir verða leyfðar hjá skuldugum einstaklingum og sennilega mun verða gengið milli bols og höfuðs á 25 þúsund heimilum fyrir áramót. Mörg fyrirtæki hafa farið í gegnum sömu aftökur síðan hrunið varð. Sökum síversnandi aðstæðna mun fjölga stöðugt í þessum hópi eftir því sem tíminn líður.

Reynt er að draga fé úr lífeyrissjóðum okkar til að ná af okkur sparnaðinum. Fjárfest er í flugfélagi sem er mikill áhætturekstur en ekki fékkst leyfi til að fjárfesta í HS-Orku sem á framtíðina fyrir sér.

Hugsanlegt er að vegaframkvæmdir fari af stað sem einkaframkvæmd og þá greidd upp með vegatollum.

HS-orka var seld til erlends einkafyrirtækis í óþökk Íslendinga. Litlu munaði að búið væri að einkavæða vatnið okkar og stór spurning er hvernig löggjöfin um vatnið verður næsta vetur.

Samantekið: Laun skorin niður, skattar hækkaðir, gjöld aukin, lífeyrissparnaðurinn kroppaður af okkur. Allt gert til að auka getu ríkissjóðs og almennings til að greiða lánadrottnum. Hingað til höfum við talið það vera hlutverk ríkissjóðs að jafna kjör almennings í landinu og standa í framkvæmdum landi og þjóð til hagsbóta.

Þessi stefna mun leiða til aukins fjölda fátækra og samsvarandi minnkunnar á millistétt. Fámennur hópur stórríkra einstaklinga verður áfram til. Auðlindirnar komnar í eigu einkaaðila. Einkavæðing á almanna þjónustu. Þeir sem hafa fjárráð munu fá góða þjónustu. Spillingin heldur meiri ef eitthvað er. Landflótti og þeir sem eftir eru að leita sér matar í öskutunnum besta bæjarins, Reykjavíkur.

Mörgum finnst sjálfsag myndin máluð dökkum litum. Viðkomandi stefna hefur haft slíkar afleiðingar í för með sér í öðrum löndum og enn sem komið er hefur lítil mótstaða við þessari þróun myndast á Íslandi. Kjósendur núverandi ríkisstjórnar sem eru vinstri menn og félagshyggjufólk hafa sjálfsagt ekki gert ráð fyrir þessu. Mjög skiljanlegt því viðkomandi stefna er ekki skráð í stefnuskrár viðkomandi ríkisstjórnarflokka. Stefnan er stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Sumir leiðtogar vinstri manna hafa fylgt stefnu AGS í löndum sínum og oftar en ekki tekist að halda andófi í lágmarki. Sagt er að óskastjórn AGS sé vinstri stjórn því þá eru mótmæli í lágmarki. Það er sorgleg staðreynd að andstæðingum AGS væri þægð í því að hægri menn kæmust til valda á Íslandi á ný. Þá myndu vinstri menn koma aftur á Austurvöll og mótmæla eins og þeir gerðu í búsáhaldabyltingunni. Mikil og kröftug mótmæli almennings gegn AGS er eina leiðin til að snúa af þeirri braut sem þjóðin er á.

Það er mjög skiljanlegt að loksins þegar Vinstri grænir eru komnir til valda að þeir vilji halda völdunum og að sleikipinnarnir innan flokksins reyni allt til að skríða upp eftir bakinu á flokkseigendafélaginu. Það eru mikil vonbrigði, eftir að hafa upplifað alla þessu hörðu andstæðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í búsáhaldarbyltingunni, njóta í dag valdanna af slíkri áfergju að öll prinsipp eru gleymd og grafin. Það er mér hulin ráðgáta að stefna strákanna frá Whasington sé orðin að vinstri stefnu á Íslandi og er varin sem slík.

Fjölmiðlar mættu standa sig betur í því að skýra út fyrir almenningi að Steingrímur er bara millistjórnandi og að það er AGS sem ræður öllu á Íslandi. Ef það hefði verið gert hefði almenningur beint reiði sinni að AGS frekar en Steingrími. Vissum aðilum(fjölmiðlum) hentar að spjótin standi á Steingrími og aðrir aðilar(fjölmiðlar) verja hann með kjafti og klóm. Á meðan hlær AGS að heimsku okkar.

Eftir því sem stjórnvöld þjóðríkja fylgja ráðleggingum AGS betur farnast almenningi viðkomandi landa ver, rannsóknir fræðimanna sýna fram á þetta.

Það er augljóst að enn sem komið er hafa helstu máttastólpar lýðræðisins á Íslandi þ.e.  Alþingi, ráðherrar og fjölmiðlar, kosið að fylgja AGS að málum. Ef fyrrnefndir aðilar skipta ekki fljótlega um skoðun mun stór hluti íslensku þjóðarinnar fylgjast með gleði þeirra á störfum sjóðsins úr fjarlægð, erlendis frá. Aftur á móti, ef Alþingi, ráðherrar og fjölmiðlar vilja ekki að þjóðin dreifist út um allar koppagrundir eða hírist í fátækt á skerinu gamla, verða viðkomandi aðilar að breyta um stefnu. Viðbrögð ykkar við stefnu AGS er það sem mun gera ykkur ábyrg í næstu Rannsóknarskýrslu Alþingis. Viðbrögð Alþingis, ráðherra og fjölmiðla við stefnu AGS mun ákvarða kjör almennings á Íslandi til framtíðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Svona gerist þegar fjármagnseigendurnir hafa keypt sér velvilld þingmanna, öðruvísi væri þetta ekki gerlegt. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.8.2010 kl. 01:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband