Gömul Moggagrein til uppryfjunar

Skelli inn næstum ársgamalli Moggagrein eftir mig því sumir halda að ég sé eitthvað svartsýnni á tilveruna núna, ég myndi frekar telja mig bjartsýnni í dag ef eitthvað er.

ÞEIR FISKA SEM RÓA:

Veiðiskapur er sport, beitan er valin af innsæi, fiskurinn þreyttur og síðan dreginn að landi. Þar fær hann síðan náðarhöggið. Við vorum skuldlaus þjóð og því nokkuð sjálfstæð. Í dag erum við skuldug og ósjálfstæð þjóð. Við bitum á agnið, afbrot okkar var að láta glepjast en núna situr öngullinn fastur og það er sárt.

Það er verið að þreyta okkur núna. Stýrivextirnir lækka ekki neitt af ráði. Afleiðingin er að fleiri fyrirtæki komast í þrot. Atvinnulausum fjölgar. Þar með er kominn ásættanlegur grundvöllur fyrir launalækkunum. Af þeim sökum minnka tekjur ríkisins verulega, bæði beinir og óbeinir skattar minnka. Þar með er einnig kominn grundvöllur fyrir launalækkun opinberra starfsmanna og síðan verulegur niðurskurður hjá hinu opinbera.

Til að tryggja þetta ástand til frambúðar munum við samþykkja IceSave samninginn í sumar.Við verðum að framleiða eins mikið af vörum sem gefa gjaldeyri og við getum. Ál og fisk. Það viljum við gera til að standa í skilum. Það vilja líka þeir að við gerum sem voru svo góðhjartaðir að lána okkur til að bjarga okkur frá vandræðunum, sem öngullinn veldur okkur. Því vinnur veiðimaðurinn ötull að því að hámarka afrakstur veiði sinnar.

Fljótlega mun þjóðin framleiða eins mikið og hún getur. Þjóðinni mun vera greitt eins lágt kaup og framast er unnt til að halda framleiðslukostnaðinum niðri. Það mun hámarka afraksturinn úr verksmiðjunni Íslandi. Það mun gera okkur kleyft að greiða niður lánin og taka ný. Í stað þess að hagnaður okkar, vegna vinnu okkar, fari í okkar vasa mun hann streyma óhindrað í vasa lánadrottna okkar.Nú er okkur bent á að með aukinni stóriðju muni okkur ganga betur að greiða skuldir okkar. OECD er búið að gefa línuna. Til stóriðju þarf lán. Lánveitendurnir skella okkur í ruslflokk lánshæfismatsins til að stilla af vaxtabyrði okkar, sér í hag. Síðan mun hver stóriðjan af annarri fylgja í kjölfarið og við höfum ekkert um málið að segja.

Lánadrottnarnir stjórna og stýra, þannig er það hjá gjadþrota heimilum og eins er það hjá gjaldþrota þjóðum.Eina spurningin sem út af stendur er hvort eða hvenær þeim þóknast að veita okkur náðarhöggið. Sennilega munu þeir ekki gera það. Mun arðvænlegra er að setja okkur í kvíar til hámarks nytja.

Að velta því fyrir sér hvað Davíð, Solla eða Geir gerðu er tímasóun. Jafn glórulaust er að velta sér upp úr því hvað Jóhönnu dettur í hug. Önglar hafa þá náttúru að sitja fastir. Veiðimaðurinn á næsta leik.Niðurstaðan er sú að íslensk þjóð er komin í kvíar lánadrottna sinna. Við munum strita og púla þangað til síðasta lánið er greitt og það mun taka okkur marga áratugi. Hver er sinnar gæfu smiður.....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Baldursson

Þetta var satt fyrir ári og enn sannara núna. Ef við veitum ekki mótspyrnu og reynum að slíta línuna til AGS, munu auðlindirnar líka fjúka með. Það sem er svo hryggilegt, er að fólk forðast að horfast í augu við það augljósa. Það er gott og blessað að snúa baki við gömlum stjórnmálaöflum, en að halda að það sé í boði að snúa baki við stjórnmálum spilar beint upp í fangið á AGS og þeim peningaöflum sem land okkar ásælast. Þessi doði er það sem veiðimennirnir vilja ná fram og þeim er að takast það, þökk sé uppgjöf kjósenda.

Haraldur Baldursson, 24.5.2010 kl. 10:20

2 identicon

Er það ekki einmitt út af sársauka og vanlíðan sem fíklar og alkahólistar deyfa sig niður með eytri og vona að þeir þrauki fram að næsta skammti. Vonast til þess að áhrifin haldi sjónum þeirra frá vonlausri stöðu og ömurlegu ástandi, slæfi þá nógu mikið til þess að finna sem minnst til eymdar sinnar.

 Eru ekki kjósendur að beina athygli sinni frá þessum leiðindum og vonleysi með því að kjósa yfir sig grínflokkinn til þess að líðanin verði ekki eins ömurleg, það verði kannski eitthvað sniðugt gert, eitthvað sem beinir athyglinni fá ömurlegum hversdagsleikanum.

Hafsteinn Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 17:26

3 identicon

Ég hef lengi haldið því fram, að á kjördag sé kjósandinn að meðaltali heimskur. Ég gæti trúað því að það sannnist eina ferðina enn á laugardaginn.

Pétur Guðmundsson (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband